Ljóð


© 2012 Hallfríður Ragnheiðardóttir

Ljóðið Triptych sigraði í ljóðasamkeppninni
Ljóðstafur Jóns úr Vör 2012

 • Um samkeppnina

 • Triptych


  Sakramenti

  Einhver hefur saumað útlínur drekans með hárfínum rauðum þræði, líkt og grun, eða skugga, í rautt silkið.

  Það er um tvo kosti að velja: að segja já við hinu óumflýjanlega og hefja gullgerð en hafna því ella og búast til varnar.

  Há-karlinn hefur verið brytjaður í örsmáa, rauðleita teninga. Ég þigg bita úr silfurskálinni.


  Lausnarorð

  Hann elskar mig og ég elska hann, glæpamann, morðingja. Við hittumst á torginu og hann vefur mig örmum. “Hvernig hefurðu það, ELSKAN?” Orðið kemur eðlilega og átakalaust út fyrir varir mínar. Við höldum hvort yfirum annað, elskendur frá upphafi vega, og hringsólum hlið við hlið innan um óljósan fjöldann.

  Hver var sá guð sem skapaði okkur að skilja?


  Opinberun

  Fríkirkjan stóð þar sem ég stend nú. Við erum mörg við þessa messu. Horfum í vesturátt og sjá, skyndilega fyllist tjörnin og húmdökkur himinninn yfir af blóðroða. Fagnandi teyga ég hina gullnu veig meðan býðst. Svo er hún jafnskyndilega horfin.

  Eftir lifir grunur um gljásvartan flygil undir ísnum á vatni við veginn.


  Triptych
  Tónlist eftir Jón Inga Herbertsson  Sonur minn hefur heiðrað mig með að semja tónlist við ljóðið mitt sem hlusta má á hér:

 • Triptych

  Spjallað við Kolbrúnu Bergþórsdóttur
  í tilefni af Ljóðstafnum


  birt í Morgunblaðinu 20. febrúar 2012  Viðtalið:

  Hallfríður J. Ragnheiðardóttir fékk nýlega Ljóðstaf Jóns úr Vör fyrir ljóðið Triptych í árlegri ljóðasamkeppni lista- og menningarráðs Kópavogs. „Ég hef ekki fengist markvisst við ljóðagerð en þegar til baka er litið sé ég að leit mín að skáldinu hefur verið löng. Ekki hvað síst hefur þetta verið glíma við að losna undan ofurvaldi rökhugsunarinnar,“ segir Hallfríður sem er bókmenntafræðingur og draumaþerapisti. „Það má segja að leitin hafi hafist markvisst eftir að ég lauk MA prófi í íslenskum bókmenntum árið 1995. Ég skrifaði lokaritgerðina mína hjá Matthíasi Viðari Sæmundssyni sem lagði til að ég tæki fyrir tiltekið þema í þjóðsagnararfinum út frá sjónarhorni jungískrar sálfræði. Þarna urðu straumhvörf í lífi mínu. Mig langar til að geta þess hér að leiðsögn Matthíasar á námsárunum var mér afar mikilvæg og hana fæ ég seint fullþakkað.

  Ég heillaðist umsvifalaust af Jung. Til þessa hafði ég ekki veitt draumum mínum athygli en á þessum tímamótum bókstaflega flæddu þeir yfir mig. Að loknu prófi gerðist ég meðlimur í draumahópi undir leiðsögn jungísks sálfræðings úti í New York þar sem ég var búsett á þessum tíma. Svo gerðist það eina nóttina að Þorsteinn frá Hamri birtist mér í draumi og gaf mér silfurmen og silfurlyklahring. Ég hef sagt Þorsteini þessi sögu og leyfi mér þess vegna að deila henni hér. Þarna áttaði ég mig á því að leitin að skáldinu væri leynt og ljóst hafin. Á námsárunum hafði ég skrifað ritgerð um ljóðabók Þorsteins, Vatns götur og blóðs, sem hafði djúp áhrif á mig. Allar götur síðan hefur Þorsteinn verið Skáldið í mínum huga.

  Auk Þorsteins skapaði annað skáld sér sess í draumum mínum en það var Emily Dickinson. Eitt ljóða hennar talaði sérstaklega sterkt til mín en það fjallar um lítið maríuvandarblóm sem reyndi að vera rós og mistókst. Það var svo ekki fyrr en undir vetur sem þetta litla fjólubláa villta blóm náði að blómstra. Dickinson hitti mig í hjartastað með þessu ljóði, bæði vegna þess ég skynjaði í sjálfri mér þessa viðleitni til að laga mig að því sem mér hafði verið innprentað fremur en að leggja mig fram um að finna mitt sanna sjálf og eins hins að blómið blómstraði seint og leitin að minni rödd, mínum sannleika, hafði verið löng. Kannski vakti þetta ljóð Dickinson með mér von.

  Sharon Olds er annað bandarískt skáld sem hafði djúp og ekki síst frelsandi áhrif á mig, einkum með bók sinni The Wellspring sem kom út árið 1996, einmitt á þeim árum sem ég var að byrja að vinna markvisst með sjálfa mig í gegnum drauma.

  Auðvitað er fjöldinn allur af öðrum skáldum sem hafa heillað mig en ég nefni þessi þrjú sérstaklega vegna þess að þau skiptu sköpum fyrir mig. Að þau skyldu skapa sér sess í draumum mínum sýnir hve djúpstæð áhrif þau höfðu á mig.“

  Hvernig lítur þú á drauma?

  Persónuleg reynsla hefur kennt mér að draumar mínir eru leiðsegjandi afl sem hjálpar mér að finna mína eigin rödd og hljóðfall í lífi og leik. Draumarnir eru að mínu viti skáldskaparvíddin í tilverunni. Samband mitt við þá ljær daglegu lífi mínu dýpt og merkingu sem augu mín væru ella ekki opin fyrir. Þar eð vökuvitund okkar er afar takmörkuð leitast draumarnir við að miðla okkur einhverju sem við erum okkur ómeðvituð um en værum betur sett með að vita. Þeir örva þannig skapandi hugsun og greiða fyrir sjálfsþekkingu og þroska. Ég tel að gildi drauma verði ekki ofmetið.

  Árið 2007 ákvað ég að verða mér úti um réttindi til að vinna með drauma og útskrifaðist sem draumaþerapisti tveimur árum síðar frá Institute for Dream Studies í Charleston í Suður Karólínu.

  Af hverju ákvaðstu að senda ljóð í ljóðsamkeppni?

  „Ég var að glugga í blaðið yfir morgunkaffinu þegar ég rak augun í auglýsingu um samkeppnina. Eitthvað hitti í mark og ég reif hana út. Hún lá síðan á vinnuborðinu mínu í tvo daga áður en ég dró fram drög sem ég átti í möppu og til varð þetta ljóð. Ég ákvað að láta slag standa og senda það í keppnina. Ljóðið Triptych er samsett úr þremur ljóðmyndum sem kallast á. Sú fyrsta ber yfirskriftina “Sakramenti”, önnur nefnist “Lausnarorð” og sú þriðja “Opinberun”.

  Hvaða máli skiptir þig að fá verðlaun eins og þessi?

  „Þessi verðlaun hafa mikilvæga þýðingu fyrir mig. Þau gefa mér vísbendingu um að ég sé að nálgast langþráð markmið að einhverju leyti og eru mér hvatning til að halda nú áfram á þessari braut og sjá hvað úr verður.“