Fyrirlestrar og greinar

eftir Hallfríði Jakobs og Ragnheiðardóttur

Tenglar í efni síðunnar:

 • "En er hún fer..."
 • Táknmál tíða í íslenskum þjóðsögum og ævintýrum
 • Skemman og Skírnismál
 • Helgar tíðir
 • Gröndal og gróteskan
  "En er hún fer..."
  Hugleiðingar um Brísingamen Freyju


  erindi flutt á ráðstefnu sem haldin var á Leirubakka 19. maí 2017
  til heiðurs Davíð Erlingssyni áttræðum  Davíð í fjörunni á óðali sínu Broddadalsá


  "Ég ætla að tala um Brísingamen," sagði ég við Davíð þegar hann hringdi og bauð mér í afmælishófið sitt! "Það líst mér á," ansaði hann. "Mér finnst þú eigir að taka Brísingamen í botn!" Tilsvarið þótti mér mjög í anda Davíðs. Ég efast um að margir hugsuðir hafi komist nær botninum í viðfangsefnum sínum en hann. Ég tek þessi orð hans sem áskorun. En til þess að komast til botns í Brísingameni þarf ég að hafa Freyju með í för, því Brísingamen var eignað henni.
  FREYJA
  eftir Anders Zorn (1860-1920)


  Við höfum hér mynd af Freyju sem er nokkuð ljóslega innblásin af orðum Snorra: "En er hún fer, þá ekur hún köttum tveim og situr í reið." Þetta ræð ég af kattarhöfðunum sem prýða armana á sæti gyðjunnar. Freyja er hér hins vegar ekki að fara neitt, heldur situr hún í stól í hofi sínu eða skemmu. Förin er með öðrum orðum huglæg. Það er völvan Freyja sem er uppspretta andargiftar listamannsins og viðfangsefni.

  Árið sem ég útskrifaðist úr íslenskudeildinni gaf ástsælt skáld mér silfurhálsmen í draumi og lét silfurlyklahring fylgja með. Ég skildi það svo að mitt væri að finna lykilinn. Brísingamen Freyju kom mér strax í hug. Í M.A. ritgerðinni hafði ég tæpt á Gullveigu og Heiði í neðanmálsgrein og haft á orði að ef ég ætti eftir að skrifa doktorsritgerð myndi hún fjalla um þær. Ég hafði raunar engin slík áform í huga, en yfirlýsingin var vísbending um tökin sem þær stöllur höfðu náð á mér. Heiður er algengt heiti á völvum í fornum sögum og er á Völuspá að skilja að völvur hafi verið líkamningar Gullveigar í mannheimum. Þótt ég hafi ekki skilið það þá, kom þessi draumur inn í líf mitt líkt og til að minna mig á að ég ætti verk óunnið.

  Einu heillegu frásögnina af því hvernig Freyja öðlaðist menið er að finna í Sörlaþætti og hún hljóðar í hnotskurn svona: Freyja kemur að steini sem stendur opinn. Inni fyrir eru fjórir dvergar að smíða gullmen. Hún dregst að meninu, hana langar í það og hún býður fram gull og silfur og góða gripi. Dvergunum finnst hún að sama skapi hrífandi og vilja þá borgun eina að hún sofi sína nóttina hjá hverjum þeirra. Hún gefur sig og kemur til baka í skemmu sína með hnossið.

  Í aðdragandanum að för Freyju inn í steininn er lýst styrk hennar og óskoruðum yfirráðum yfir skemmunni: "Hún var bæði fögur og sterk, svo að það segja menn að ef hurðin var aftur og læst, að enginn maður mætti koma í skemmuna án vilja Freyju." Jafnframt er ást Óðins á henni undirstrikuð og gefið í skyn að honum hafi verið haldið utan við þessi vé þegar Freyja fór á stefnumót við sinn guð.

  Ég vek athygli á að Freyja gefur sig á vald náttúru sinni þá fjóra daga sem hún dvelur í steininum og uppsker eitthvað dýrmætt. Svo dýrmætt raunar, að þær örfáu glefsur sem fræðimönnum hefur auðnast að grafa upp um Brísingamen, utan Sörlaþáttar, fjalla um rán þess og sýna að það varð bitbein guða.

  Í Sörlaþætti er heiðin heimsmynd afhelguð í gróteskri frásögn og goðin dregin niður á veraldlegt plan. Freyju er þar lýst sem hóru. Einn fræðimann sá ég vísa í orðróm þess efnis að hún hefði selt meydóm sinn fyrir gullmen. Þátturinn var skráður á skinn af tveimur kaþólskum prestum og þarf ekki að fara í grafgötur um að Freyja féll ekki að þeirri kvenímynd sem kristin heimsmynd hélt á loft konum til eftirbreytni. Né sýnist atferli hennar hafa hugnast þeim sem dýrkuðu Óðin, því seiðurinn, sem hún er sögð hafa innleitt í ríki ása, var álitinn glæpur þegar í heiðni og voru seiðkonur þá oftast lamdar grjóti í hel. Enn í dag viðgengst í sumum samfélögum að konum sé hegnt með þessum hætti fyrir framhjáhald. Og hver var þá glæpur seiðkvenna? Jú, þær höfðu samneyti við önnur goðmögn en ríkjandi öfl aðhylltust.

  Átta árum eftir drauminn um skáldið og silfurmenið var mér falið að skrifa um Freyju fyrir táknfræðirit, og þá var það sem lykillinn kom upp í hendurnar á mér. Hann var fólginn í nafninu Brísingamen, orði sem tengir saman ýtrustu andstæður. Brísingur er eldsheiti og men er samhljóða indó-evrópsku rótinni men sem þýðir máni. Þar eð men þýðir hálsfesti, hálsbaugur á íslensku, hefur mönnum skotist yfir vísunina í mánann. Í Bjólfskviðu kemur við sögu Brosingamene sem er talið mögulegt að rekja megi nafnið Brísingamen til en mene er gríska orðið fyrir máni.
  Hringmyrkvi
  mynd send frá japansk-ameríska gervitunglinu Hinode
  4. jan. 2011.


  Þótt lítið fari fyrir Sól í norrænni goðafræði og goðsögulegt hlutverk hennar hafi verið yfirtekið af karlkyns guðum á langri leið, getur Snorri þess að hún hafi verið talin með ásynjum. Máni er sömuleiðis lítt áberandi í arfinum. Hjá 10. aldar skáldinu Guttormi Sindra er að finna kenninguna óskkván Mána og líta skýrendur (Finnur Jónsson) svo á að Máni sé þarna jötunn og óskabrúður hans "gýgur." Að öðru leyti þegir arfurinn um samneyti Mána við konur.

  Ég sá í sjónhending að sögnin um Freyju og dverga hlaut að eiga rætur í sólmyrkva. Eins og ég orðaði það svo skáldlega, vekur hún upp "mynd af sólinni sem gengur undir og gefst fereinum mána sem sökkvir sér í eldheitt skaut hennar svo rauðar glæðurnar blæða undan biksvörtum lim hans og mynda logandi djásnið." Himneskt samræði guðs og gyðju er dregið niður á jarðneskt plan í samræmi við spakmælið "svo á jörðu sem á himni."

  Eins og ég sé það, stendur Brísingamen fyrir hneigð til að samþætta það sem var sundur skilið, himin og jörð, anda og efni. Sem slíkt er það lykill að harmoníunni í sköpunarverkinu sem líkamnaðist í frumverunni Ymi, en nafn hennar þýðir tvíburi, skylt ymur sem er eins konar grunntónn í óði verunnar.

  Svissneski sálfræðingurinn Carl Jung bendir á að hin frumlæga hugmynd um tvíkynja uppruna mannsins hafi orðið að tengitákni fyrir skapandi einingu andstæðna sem stefnir í átt að heilleika. Og hér fór ég að skilja erindi draumsins sem hafði laðað mig inn á þessa braut. Hann leitaðist við að leiða mér fyrir sjónir að til þess að gera drauma mína um að skapa að veruleika, þyrfti ég að koma á samhljómi milli vitsmunanna, sem ég hafði hafið á stall, og hvatanna sem voru undir hælnum á mér, óvinir sem fyrir alla muni þurfti að hafa hemil á. Fyrir vikið tókst mér ekki að stýra þeim mér til framdráttar, eins og Freyju köttum sínum, heldur leyfði ég óttanum að ráða för.
  Silfurmen frá 800-1050


  Örlögin höguðu því svo að mér var fengin í hendur þessi mynd af fornu silfurmeni sem skyldi liggja til grundvallar texta mínum. Um líkama Freyju hringast ormurinn sem bítur í sporðinn á sér; við sjáum haus skepnunnar hægra megin við höfuð gyðjunnar. Á milli fóta, niðri við pilsfaldinn, er vísað í hyrndan mána sem kallaður er (til hægri). Örmum sínum vefur Freyja um þungaðan kvið. Móðurhlutverkið var þó ekki á hendi Freyju heldur var hún umfram allt völva, þunguð af hinu ókomna og óþekkta sem bíður þess að komast fram í dagsljósið.


  "volva or vulva... in partic., the womb, matrix of women and she-animals (syn. uterus)."

  Lewis og Short. 1879. A Latin Dictionary.
  Oxford at the Clarendon Press.


  Orðið völva er sýnilega dregið að latneska orðinu volva, vulva, sem þýðir leg. Á sama hátt er Delfí, þar sem hin víðfræga véfrétt hafði aðsetur, dregið af gríska orðinu delphus sem þýðir leg.

  Ég starði á víxl á myndirnar tvær, af Freyju umkringdri orminum og sólmyrkvanum, og sá í þeim sláandi samhverfu. Bæði sporðbíturinn og vafurloginn, sem ég ætla að eigi fyrirmynd í sólstrókunum sem hvirflast um mánaskífuna, umkringdu meyjarskemmuna og vörnuðu óverðugum inngöngu. Enduróma þar óskoruð yfirráð Freyju yfir skemmu sinni sem lýst er í Sörlaþætti.

  Af men eru leidd ensku orðin menstruation og menses sem standa fyrir blæðingar kvenna. Ég var þarna komin inn á slóð tíðablóðsins og átti ekki annars úrkosti en að elta það hnoða til uppsprettunnar. Linda Ellis Davidson vekur athygli á kynlegum skorti í norður-evrópskum bókmenntum, listum og alþýðuhefð á vitnisburði um tengsl mánans við vígslusiði kvenna í heiðni. Á öðrum menningarsvæðum er oft litið svo á að vaxandi, fullt og þverrandi tungl svari til þriggja æviskeiða konunnar, meyjar, konu og kerlingar.  En þar er hlaupið yfir fjórða fasann, nýtt tungl, þegar máninn hverfur af himni í þrjár til fjórar nætur, sem svarar til tímabilsins sem Freyja dvaldi hjá dvergum. Við segjum að sól og tungl séu þarna samstæð; á ensku er kallað að þau séu conjunct, þ.e. samtengd. Í Sörlaþætti segir að menið hafi verið "mjög fullgert" þegar Freyja kom að steininum. Ég skil það svo að það hafi verið nánast fullgert. Hringmótífið endurspeglast bæði í tíðahringnum og ferli mánans. Þetta er vísbending um að Freyja hafi farið í undirheimaför sína á nýju tungli, þessum síðasta myrka fasa mánans sem er jafnframt upphaf nýs hrings. Kemur það heim og saman við tilraunir með áhrif ljóss á tíðahringinn sem benda til að við kjöraðstæður ætti egglos að eiga sér stað á fullu tungli en blæðingar á nýju.  Hyrndi hjálmurinn er vísbending um að forfeður okkar hafi trúað að í gapinu milli niðs og nýs væri ósýnileg kraftuppspretta og að þetta hulduílát væri höfðinu æðra. Og held ég að þar séum við komin nærri Gullveigu. Veig þýðir bæði "kraftur" og "drykkur". Helgi Hálfdanarson telur að veig þýði "skál" og rekur til fhþ. bah-weiga. Með hliðsjón af merkingu orðsins völva, þ.e. leg, má telja líklegt að Gullveig sé persónugervingur fyrir hið helga gral og að krafturinn sem kemur fram í nafni hennar vísi í tár Freyju sem var "gull rautt" og skrauthvörf fyrir tíðablóð gyðjunnar.

  Í Völuspá er lýst ítrekuðum tilraunum til að fyrirkoma Gullveigu sem samkvæmt vitnisburði völvunnar lifir þó enn. Blæðingar eru náttúrukraftur sem ekki verður eytt en þarf að beina meðvitað í skapandi farveg. Frá þeim sjónarhóli séð bera þær í sér þróunarafl sem kona getur því aðeins léð brautargengi að hún sé í jákvæðu sambandi við þessa náttúru sem tengir hana við forsögulegan uppruna. Tíðablóðið er frumuppspretta. Fyrr en kona byrjar á blæðingum getur líf ekki komið undir. Þarna liggja rætur okkar, handan við upphaf tímans þar sem skil á milli sjálfs og annars eru upphafin. Á blæðingum ber kona sköpunarlindina í sér.

  Í heimsmynd Óðins víkur hneigðin til einingar fyrir sundurþykki. "Hann var illur og allir hans ættmenn, þá köllum vér hrímþursa. Og svo er sagt að þá er hann svaf fékk hann sveita." Þessa afneitun á Ymi leggur Snorri í munn Háum Í Gylfaginningu. Sveiti er skýrt sem "blóð" og að líkindum vísar svefninn í seiðinn sem gekk í berhögg við þá höfuðskyldu hetjunnar að halda vöku sinni. Sé litið til Delfí, þá starfaði véfréttin þar aðeins einn dag í mánuði sem bendir til að hún hafi tengst blæðingum hofgyðjunnar og eru til frásagnir af því að hofgyðjurnar hafi leyft hof-snákum að drekka fyrsta blóðdreitilinn úr leghálsinum. Virðist þar komin fyrirmyndin að frásögn Snorra á stuldi skáldamjaðarins. Óðinn svindlaði sér í ormslíki inn í bjargið til Gunnlaðar, svolgraði mjöðinn upp til síðasta dropa og ferjað hann í arnarham til Ásgarðs. Ofangreind afneitun á Ymi er því vísast írónía sem hittir Óðin sjálfan fyrir.
  úr Tarot of Northern Shadows


  Rúnakvæði frá 15. öld tengir þursinn, eins og þ-rúnin var kölluð, við blæðingar: "Þurs er kvenna kvöl / og kletta búi / og Varðrúnar ver..." Við sjáum þornið á armhring djöfulsins sem hér er lagður að jöfnu við þursinn.

  Á spilinu er þursinn holdgervingur ýtrustu andstæðna sem upp af vex þyrnum settur rósarstilkur. Myndin leiðir hugann að ævintýrinu um Þyrnirósu sem hefur verið túlkað sem vígslusaga. Þrettándu vísindakonunni var úthýst vegna þess að kóngurinn átti ekki nema tólf gulldiska. Gulldiskarnir vísa í sólarárið með sínum tólf mánuðum en þrettánda vísindakonan í tunglárið sem hafði 13 tungl og harmóneraði við tíðahring konunnar sem, ef hún er óþunguð, fer 13 sinnum á túr á ári.

  Konan var hrifin, og það með ofbeldi, út úr rytma sem er henni eðlislægur. "Hrímgrímnir heitir þurs / er þig hafa skal / fyr nágrindur neðan..." hótar Skírnir Gerði sem er umgirt vafurloga í jötunheimum og neitar að gefast Frey. Þegar hann býst til að rista henni þursrúnina til að virkja áhrínsorðin, lætur Gerður loks undan með svofelldum orðum: "Heill ver þú nú heldur, sveinn, og tak við hrímkálki fullum forns mjaðar." Hér virðist mér Gerður framselja völvuna í sér og afsala sér fullveldi yfir eigin líkama. Hún heitir því að unna Frey gamans í lundinum Barra. Viðskipti þeirra Skírnis bera keim af skírn til rétttrúnaðar sem er keyrð í gegn með hrottaskap og ofbeldi. Það sem sýnist hafa brunnið á körlum var að ná konum undan áhrifavaldi Mána sem virtist stýra tíðahringnum og vera valdur að blæðingum þeirra. Náið samband þeirra við þennan magnaða guð færði þeim ógnvekjandi vald sem þurfti fyrir alla muni að taka frá þeim. Og hingað erum við komin:
  Mike Pence and This Roomful of White Men
  Tried to Take on Reproductive Rights


  En eins og völvan sagði, þá lifir Gullveig, þótt enn sé unnið ötullega að því að útrýma henni. Og minningin um Brísingamen blasir hvarvetna við á kvenmannshálsi, og stundum karlmanns, þótt tengslin við frummyndina kunni að hafa rofnað um hríð. Pendúllinn þokast í átt að miðju.


  Helstu heimildir:

  Ellis Davidson, Hilda. 1998. Roles of the Northern Goddess. London/New York: Routledge.

  Gísli Sigurðsson, ritstj. 1994. Úr Mímisbrunni. Reykjavík: Mál og menning.

  – 1998. Eddukvæði. Reykjavík: Mál og menning.

  Guðbrandur Vigfússon. 1852. "Formáli." Íslenzkar þjóðsögur og ævintýri, II (1961). Bókaútgáfan Þjóðsaga.

  Guðni Jónsson, ritstj. 1976. "Sörlaþáttur." Fornaldar sögur Norðurlanda, I. Íslendingasagnaútgáfan.

  Hallfríður Jakobs og Ragnheiðardóttir. 2003. "Freyja." http://www.dreamsandtarot.is.

  – 2016. Quest for the Mead of Poetry: Menstrual Symbolism in Icelandic Folk and Fairy Tales. Asheville, North Carolina: Chiron Publications.

  Helgi Hálfdanarson. 2002. Maddaman með kýrhausinn. Mál og menning.

  Jung, Carl G. 1990. The Archetypes and the Collective Unconscious. R. F. C. Hull þýddi úr þýsku. Princeton: University Press.

  Knight, Chris. 1991. Blood Relations: Menstruation and the Origins of Culture. Yale University Press.

  Lewis, Charleton T. og Short, Charles. 1879. A Latin Dictionary. Oxford at the Clarendon Press.

  Neumann, Erich. 1954 . “On the Moon and Matriarchal Consciousness.” Hildegard Nagel þýddi úr þýsku. Spring: 83-100.

  Shuttle, Penelope og Redgrove, Peter. 1988. The Wise Wound: The Myths, Realities, and Meanings of Menstruation. New York: Grove Press.

  Simek, Rudolf. 1993. Hugtök og heiti í norrænni goðafræði. Ritstj. Heimir Pálsson, þýð. Ingunn Ásdísardóttir. Reykjavík: Heimskringla.

  Snorri Sturluson. "Hákonar saga góða." Heimskringla, I. Reykjavík, 1979.


  Táknmál tíða í íslenskum þjóðsögum og ævintýrum


  Erindi flutt á Túrdögum sem Femínistafélag Háskóla Íslands stóð fyrir
  14.-17. mars 2017.


  Nú var það alls ekki svo að ég settist niður einn góðan veðurdag og ákveddi að skrifa um blæðingar. Kveikjan að viðfangsefninu var draumur sem mig dreymdi árið 1995, stuttu eftir að ég lauk prófi í íslenskum bókmenntum. Segja má að draumurinn hafi leitt mig út af þeirri akademísku braut, sem ég hafði fetað af mikilli samviskusemi, og inn í skóginn þar sem sagt er að úlfurinn sitji fyrir okkur. En hér er ég komin heim í gamla skólann minn og gleðst yfir fá tækifæri til að taka þátt í þessari einstöku ráðstefnu. Draumur sem mig dreymdi fyrir tveimur nóttum er lýsandi fyrir hug minn til þess sem í vændum er: Ég er að bíta í epli... gult, safaríkt... og þótti mér á gott vita. Inn í þetta les ég að Túrdagarnir muni stuðla að frelsun konunnar úr álögunum sem á hana voru lögð í aldingarðinum í Drottins nafni. Henni er frjálst að bíta í eplið, og njóta þess. Hún á sig sjálf. Er við stjórnvölinn í eigin lífi.

  Mig langar til að hefja þetta erindi á að nefna tiltekin samkenni með draumum og blæðingum. Hvort tveggja er óháð vilja okkar. Hvort tveggja kemur til okkar óboðið og kallar á athygli. Þegar kona er á túr beinist athygli hennar að líkamanum. Sambandið á milli huga og líkama verður náið, en getur líka orðið strítt, ef viðhorf hennar til blæðinganna er af einhverjum orsökum neikvætt. Túr þýðir 'ferð', svo þegar sagt er að kona sé á túr er ýjað að því að hún sé ekki þar sem hún er stödd í tíma og rúmi heldur annars staðar, jafnvel í annarlegum stað.

  Þjóðsagan Kötludraumur er einkar ljóst dæmi um þetta. Katla gengur til skemmu sinnar að morgni dags og er ekki fyrr sest niður við sauma en á hana sígur svefn. Þarna sefur hún í fulla fjóra daga, líkt og umgirt töfrahring, sem heimilisfólkið megnar ekki að rjúfa. Kötlu dreymir að til hennar kemur kona að nafni Alvör sem hrífur hana með sér til síns heima, ferjar hana yfir foldar dreyra, sem samkvæmt orðanna hljóðan þýðir "blóð jarðar", og blátt áfram þvingar hana til að sofa hjá syni sínum, Kára. Hér er hvergi talað um blæðingar berum orðum heldur gefur myndmálið, samhengið og samanburður við aðrar sögur til kynna að bælt efni hafi leitað upp á yfirborðið í Kötludraumi.

  Kvenkenningin seima Gerður er notuð bæði um Alvöru og Kötlu en Gerður þýðir "hin umgirta" og seimir er úrelt orð fyrir orm eða slöngu.
  Silfurmen frá 800-1050


  Við höfum hér mynd af Freyju í hlutverki jarðargyðjunnar. Um líkama hennar hringast ormurinn sem bítur í sporðinn á sér; við sjáum haus skepnunnar hægra megin við höfuð gyðjunna. Á milli fóta, niðri við kjólfaldinn, sýnist mér vísað í mánasigðina; armar hennar umvefja þungaðan kvið. Eins og ég sé það, er Freyja þunguð af möguleikum, hinu ókomna og óþekkta. Það er þarna allt saman, og hlutverk okkar sem meðvitaðra vera er að hjálpa því fram í ljósið og gera það að veruleika.

  Fornleifauppgröftur, t.d. á Krít, hefur leitt í ljós náin tengsl á milli jarðargyðjunnar og slöngunnar sem táknmyndar fyrir legið og kvenlæga visku. Eins og legið, endurnýjar slangan sig með því að losa sig við gömlu húðina. Og sama gildir um mánann sem skerðist og kviknar nýr. Goðsöguleg tengsl á milli mánans og tíðahringsins fyrirfinnast vítt og breitt um hið byggða ból.

  Nafnið Alvör merkir "hin alsjáandi" og vísar veginn til völvunnar og Freyju sem, eins og segir í Ynglingasögu, var blótgyðja og kenndi fyrst með ásum seið. Kennsluhlutverk Freyju endurómar í Kötludraumi þar sem segir, að Alvör hafi kennt Kára syni Kötlu "dulvitur fræði."


  "volva or vulva... in partic., the womb, matrix of women and she-animals (syn. uterus)."

  Lewis og Short. 1879. A Latin Dictionary.
  Oxford at the Clarendon Press.


  Orðið völva er sýnilega dregið að latneska orðinu volva, vulva, sem þýðir "leg". Delfí, þar sem hin víðfræga véfrétt hafði aðsetur, er slíkt hið sama dregið af gríska orðinu delphus sem þýðir leg. Sú staðreynd að véfréttin starfaði aðeins einn dag í mánuði bendir til að hún hafi tengst blæðingum hofgyðjunnar. Séra Páll í Selárdal, einn lærðasti Íslendingur 17. aldar, vissi gerla að spádómsgáfa völvunnar tengdist kvenlægri náttúru hennar, eins og lesa má í riti hans Kennimark kölska: "Svo er skrifað Pythea í Delphis, hvar er var hið sérlegasta hof, hafi setið yfir tripode með útvíkkuðum lærleggjum og spáð svo með leyndarlimnum."
  Priestess of Delphi
  eftir John Collier (1850-1934)


  Breski málarinn John Collier hafði ólíka sýn á Pýþíu. Hún situr hér vissulega á þrífæti, og gullnum í þokkabót, með skál í hendi og sveipuð blóðrauðum slæðum. Við tökum eftir að fæturnir á stólnum hennar eru ljónslappir. Eins og alkunna er var kötturinn einkennisdýr Freyju, og það voru engir kettlingar sem tengdust þessum fornu gyðjum.

  Hér höfum aftur mynd af Freyju, sýnilega í transi:
  FREYJA
  eftir Anders Zorn (1860-1920)  “En er hún fer, þá ekur hún köttum tveim og situr í reið.”
  (Gylfaginning 24)


  Upplýstur líkami hennar gefur til kynna innri ljóma og slök stellingin sýnir að hún leyfir ljósinu að flæða óhindrað um sig. Höfuðið er aftur meira í skugga. Freyja er mjög svo rauðbirkin á þessari mynd, og ef við viljum fara með túlkunina út öfgar, getum við velt fyrir okkur rauða litnum sem lekur niður lærið innanvert. Við fætur hennar er svartur köttur með stingandi rauðar glyrnur og armarnir á stólnum hennar eru prýddir kattarhöfðum af stærri gerðinni. Það virðist nokkuð ljóst að mynd Anders Zorn er innblásin af orðum Snorra: "En er hún fer, þá ekur hún köttum tveim og situr í reið." En Freyja er hér ekki að fara neitt, heldur situr hún í stól í skemmu sinni eins Katla. Ferðin er með öðrum orðum huglæg.
  Stafadrottning
  úr Rider-Waite-Smith Tarot


  “Sá hún vítt og um vítt / of veröld hverja.”
  (Völuspá 29)


  Stafadrottningin í Tarot er að því er virðist runnin af sömu rótum og hugmyndir forfeðra okkar um völvur. Stafurinn var einkennistákn völvunnar og hann kallaðist gandur. Stafadrottningin situr hátt og sér vítt, sbr. það sem segir um völvuna Völuspá: "sá hún vítt og um vítt / of veröld hverja." Ljónsarmarnir á hásæti hennar vísa í sama veruleika og við sáum á mynd Zorn og við fætur hennar er sami svarti kötturinn. Að því leyti svipar þessari drottningu til lýsingar séra Páls að hún situr, svo notuð séu orð hans, "með útglennta lærleggi."

  Sjö manns fuðruðu upp á galdrabálum 17. aldar fyrir tilstilli Páls prófasts í Selárdal. Og verða þau endalok Alvarar í einni útgáfu sögunnar, að brenna upp til ösku. Af Kötlu er það aftur að segja að hún kemur til baka í skemmu sína, ófrísk eftir draumamann sinn Kára, sem hefur ekki bara barnað hana heldur líka skenkt henni dýra gripi, þar á meðal gullmen sem gegnir mikilvægu hlutverki í sögunni. Katla er hrjáð af sektarkennd og finnst hún hafa drýgt hór. Hún snýr baki við Alvöru, leggur allt sitt traust á eiginmann sinn Má og lætur hann hugsa fyrir sig. Sé til þess litið, að þegar í heiðni er þess getið að seiðkonur hafi verið grýttar í hel eða brenndar á báli, þarf okkur ekki að undra að Katla skyldi vilja slíta tengslin við Alvöru.

  Kötludraumur, eins og hann hefur varðveist, er talinn vera frá síðustu öldum fyrir siðaskipti, þegar kirkjuvaldið beitti sér með auknum þunga gegn þjóðlegum fornfræðum og þjóðsögum. Sagan teflir Kára Kárasyni fram sem miðlara á milli fornrar heimsmyndar og nýrrar. Er honum lýst sem spökum manni og dulvitrum. Hann var vel liðinn og lagði mörgum heil ráð og holl en jafnframt er látið í það skína að menn hafi umgengist hann af nokkurri varúð vegna kunnáttu hans. Hlutverk Kötlu í þessari sögu var að fæða "frelsara" í heim sem var að klofna frá arfleifð sinni. Hér urðu aldahvörf og með þeim fluttist valdið sem bjó í Alvöru yfir til karlsins.

  Ég var að skrifa um Freyju fyrir táknfræðirit þegar ég rataði óvænt inn á slóð tíðablóðsins og var forvitin að sjá hvernig fjallað væri um blæðingar í þjóðsögunum. Mikil varð undrun mín þegar ég fletti upp í atriðaskránni í safni Jóns Árnasonar og sá vísað í eina, og aðeins eina sögu sem fjallaði um tíðablóð í þessu sex binda safni. Á samri stundu rann upp fyrir mér hve hugsunarlaust ég hafði tekið þátt í þessum feluleik, eilíflega hrædd um að blóðblettur á bakhlutanum á mér kæmi upp um mig, rétt eins og það væri glæpur að vera á túr.

  Þetta var eiginlega bara mjög dramatískt augnablik. Þegar til þess var litið hve blæðingar eru mikilvægur þáttur í lífi kvenna, hlutu þær að vera samofnar sögu formæðra minna. Í leit að svari lagðist ég í djúpa greiningu á þessum kunnulegu sögum, sem ég hafði alist upp við, og komst að raun um að tíðir gyðjunnar seitla um sögur feðraveldisins í torræðum táknum.

  En það var þessi eina saga sem fjallar umbúðalaust um tíðablóðið. Hún kallast Gandreiðin og segir frá afburðagáfaðri prestskonu sem ásamt ellefu stallsystrum sínum fer á gandreið hverja jólanótt til að nema galdur hjá fjandanum í Svartaskóla. Að lokinni kennslustund, dregur hver og ein upp glas með tíðablóði sínu sem meistarinn drekkur í botn og var það kennslugjaldið. Náttúrulega komst upp um glæpinn og voru "prestskonunni goldin makleg málagjöld sinnar illsku."

  Við sjáum hér grilla í ranghverfuna á goðsögunni um Jesú og lærisveinana tólf, sem allir voru karlar, þótt ýmsir telji nú að María Magðalega hafi verið einn af lærisveinunum (hér hnjótum um takmarkanir tungumálsins) og nánasti samstarfsmaður hans, og jafnvel eiginkona. En sagan vísar líka veginn að stuldi Óðins á skáldamiðinum sem goðsagan hefur hafið til skýjanna sem einstaka hetjudáð. Til að komast að hinni "dýru veig" sem svo var kölluð, bregður Óðinn sér í ormslíki og smokrar sér á fölskum forsendum inn í Hnitbjörg til Gunnlaðar, sem hafði verið sett til gæslu mjaðarins. Hann liggur hjá henni í þrjár nætur og skyldi fá að drekka einn sopa af miðinum fyrir hverja nótt. En hann lætur sér ekki duga minna en að svolgra upp allan mjöðinn og ferjar hann í arnarham til Ásgarðs. Er dáðin hyllt með þessum orðum í Skáldskaparmálum Snorra-Eddu: "Því köllum vér skáldskap feng Óðins og fund hans og gjöf hans og drykk ásanna." Hvað með Gunnlöðu? spurði ég sjálfa mig hvumsa. Hvað varð um hana? Ég fletti í bókum mínum án árangurs. Eftir þennan afdrifaríka atburð hvarf Gunnlöð úr sögunni.

  Löngu síðar áttaði ég mig á að marglofuð hetjudáð Óðins var hliðstæð yfirtöku gríska guðsins Apollons á spásögninni í Delfí sem áður var helguð jarðargyðjunni Gaiu:
  Priestess of Delphi
  eftir John Collier (1850-1934)


  “Gunnlöð mér um gaf
  gullnum stóli á
  drykk hins dýra mjaðar.”

  (Hávamál 105)

  “Vel keypts litar
  hefi eg vel notið,
  fás er fróðum vant...”

  (Hávamál 107)


  "Gunnlöð mér um gaf / gullnum stóli á / drykk hins dýra mjaðar," er lýsing lögð Óðni í munn í Hávamálum. Í mynd Colliers situr hofgyðjan á gullnum stól og heldur á skál með drykknum. Nú eru til frásagnir af því að hofgyðjurnar í Delfí hafi leyft hof-snákum að drekka fyrsta blóðdreitilinn úr leghálsinum. Frá þessu er sagt í The Wise Wound: The Myths, Realities, and Meanings of Menstruation og draga höfundarnir þá ályktun að þessi athöfn hafi haft, svo notuð séu orð þeirra, "trúarlegan og að öllum líkindum shamanískan, þ.e., skapandi tilgang." Lýsingin varpar ljósi á ránsför Óðins og bendir til að Gunnlöð hafi verið hofgyðja á túr.

  Þegar Óðinn er sloppinn með fenginn úr undirheimum segir hann í sama ljóði: "Vel keypts litar / hefi ég vel notið / fás er fróðum vant." Orðið litur finnst mörgum torráðið í þessu sambandi en þegar ég rakst á tilvitnun í þekktan 17. aldar gullgerðarmann, Eirenaeus Philalethes, sem segir alkemistana búa yfir þekkingu til að vinna “hina konunglegu kórónu úr tíðablóði hóru,” fór myndin að skýrast. Markmið gullgerðarmannanna var að búa til yfirskilvitlegt töframeðal sem gekk ýmist undir nafninu steinn vitringanna, lífselexírinn eða allra meina bót. Steinn þessi var rauður, eins og litur uppleysiefnisins sem var notað við gerð hans og gullgerðarmennirnir kölluðu "Rauða hafið okkar." Uppleysiefnið nefndist tinctura á latínu en það þýðir einmitt "litur."

  Goðsögur eru þaulhugsað efni sem ætlað er að uppfræða líkt og guðsorði biblíunnar. Þjóðsögur og ævintýri eru aftur sprottin úr þjóðarsálinni og sýna gjarnan ranghverfuna á hinni opinberu kennisetningu og sálræn átök þegnanna við valdboð ríkjandi afla. Innsýn í goðsögurnar auðvelda því skilning á þessum sögum, og reyndar draumum okkar líka, því arfurinn lifir með okkur hið innra.

  Og ber mig þá að draumnum sem leiddi mig á vit blæðinga. Í þessum draumi var mér gefið silfurhálsmen af skáldi sem ég hafði skrifaði ritgerð um í náminu og hrifist af. Í ljóðum sínum verður skáldinu tíðrætt um þögnina, hið þögla, dulda, eldforna bak við allt... " Hvaða þögn er þetta sem hann er að tala um?" varpaði kennarinn fram í bekkinn. Okkur nemendur setti hljóð. Af visku sinni lét kennarinn þar við sitja. Svarið við þessu varð hver að finna fyrir sig. En með því að spyrja hafði hann sáð fræi. Síðar sá ég samhengi á milli þessara ljóðlína og þagnarinnar sem hjúpaði tíðablóðið, eldfornt og dulið.

  En skáldið í draumi mínum gaf mér ekki bara silfurhálsmen heldur líka silfurlyklahring. Ég skildi það svo að mitt væri að finna lykilinn. Brísingamen, einkennisgripur Freyju, kom strax í huga mér. Freyja talaði sterkt til mín, einkum í hlutverki sínu sem völva. Einu heillegu frásögnina af því hvernig hún öðlaðist Brísingamen er að finna í Sörlaþætti, sem var skráður á skinn í lok 14. aldar af tveimur kaþólskum prestum, en slitur úr fornum skáldskap benda til að hún eigi rætur í glataðri goðsögn. Og glötuð goðsögn vekur ævinlega grunsemdir um bælt efni.

  Í hnotskurn hljóðar lýsingin í uppskrift prestanna á þessa lund: Freyja kemur að steini sem stendur opinn. Inni fyrir eru fjórir dvergar að smíða gullmen. Freyja dregst að meninu, hana langar í það og hún býður fram gull og silfur og góða gripi. Dvergunum finnst hún að sama skapi hrífandi. Þeir gera henni skiljanlegt að þeir séu ekki féþurfi og vilja þá borgun eina að hún sofi sína nóttina hjá hverjum þeirra. Hún gefur sig og kemur til baka í skemmu sína með hnossið. (Og hér minni ég á gullmenið sem Katla kom með heim í skemmu sína eftir að hafa legið með huldumanninum Kára).

  Freyju er þarna lýst sem hóru. Einn fræðimann sá ég vísa í orðróm þess efnis að hún hefði selt meydóm sinn fyrir gullmen! Tilfinningaleg viðbrögð mín voru sterk. Mér þótti sem vegið væri að draumsýn minni sem hafði haft djúplæg áhrif á mig; svo tók reiðin yfir. Ég fann að þarna var eitthvað sem þurfti að leiðrétta. En styrkur Freyju og sjálfstæði koma líka fram í frásögn prestanna. Og það var morgunljóst að hún féll ekki að þeirri kvenímynd sem kristin heimsmynd hélt á loft konum til eftirbreytni.

  Það var svo átta árum síðar, þegar ég var að skrifa um Freyju eins og fyrr er nefnt, að lykillinn kom upp í hendurnar á mér. Hann var fólginn í nafninu Brísingamen, orði sem tengir saman ýtrustu andstæður. Brísingur er eldsheiti og men er samhljóða indó-evrópsku rótinni men sem þýðir 'máni'. Þar eð men þýðir hálsfesti, hálsbaugur á íslensku, hefur mönnum skotist yfir vísunina í mánann. Í hinni fornu Bjólfskviðu kemur við sögu Brosingamene sem talið er að mögulega megi rekja nafnið Brísingamen til en mene er gríska orðið fyrir ‘máni’. Úr þessum jarðvegi eru sprottin e. menstruation og menses sem standa fyrir blæðingar kvenna.

  Ég sá í sjónhending að sögnin um Freyju og dverga hlaut að eiga rætur í sólmyrkva:
  Hringmyrkvi
  mynd send frá japansk-ameríska gervitunglinu Hinode
  4. jan. 2011.


  Eins og ég orðaði það svo skáldlega, vekur hún upp "mynd af sólinni sem gengur undir og gefst fereinum mána sem sökkvir sér í eldheitt skaut hennar svo rauðar glæðurnar blæða undan biksvörtum lim hans og mynda logandi djásnið." (Og hér má skjóta því inn að gullmen Kötlu er á einum stað kallað brenndur baugur). Það var þessi mynd sem opnaði augu mín fyrir því að blæðingar formæðranna væru fólgnar í táknum. Himneskt samræði guðs og gyðju er dregið niður á jarðneskt plan í samræmi við spakmælið "svo á jörðu sem á himni." Samkvæmt Carl Jung stendur tengitákn af þessu tagi fyrir skapandi einingu andstæðna sem stefnir í átt að heilleika. Þetta má skilja svo að samræði hins upplýsta huga og myrkrar dulvitundar sé forsenda frumlegrar hugsunar sem færir mennskuna fram veginn. Af arfinum má ráða að blæðingar séu kjörinn tími fyrir konur til að opna sig fyrir skilaboðum frá æðra sjálfinu, sem virðist þekkja okkur betur en við gerum sjálf og vita hvað okkur er fyrir bestu.

  Hringmótífið endurspeglast bæði í tíðahringnum og ferli mánans. Í sögunni er þess getið að menið hafi verið nánast fullgert þegar Freyja kom að steininum sem bendir til að hún hafi farið í undirheimaför sína á nýju tungli, þessum síðasta myrka fasa mánans sem er jafnframt upphaf nýs hrings og varir í þrjá til fjóra daga. Þetta kemur heim og saman við tilraunir með áhrif ljóss á tíðahring kvenna sem benda til að við kjöraðstæður ætti egglos að eiga sér stað á fullu tungli en blæðingar á nýju. Freyja dvaldi í steininum hjá dvergum í fjórar nætur, og Katla jafnmargar í híbýlum Alvarar, en Óðinn lá þrjár nætur í Hnitbjörgum hjá Gunnlöðu. Og þrjár nætur tók það tröllin í þjóðsögunni Fossvallabóndinn að trylla bóndadóttur svo magnlega að hún átti ekki afturkvæmt í mannheima, eins og ég mun koma að síðar.

  Nú sýna rannsóknir að kynhvöt konunnar rís hvað hæst í kringum blæðingar. Sá háttur formæðra okkar að draga sig í hlé frá hjónasænginni á þessum tímapunkti bendir til að þær hafi fundið kynorku sinni annan farveg en hjónabandsstofnunin kvað á um. Almennt hefur verið talið að karlar hafi þröngvað einangrun upp á konur vegna þess að þær væru óhreinar, en þeirri skoðun vex fylgi að ritúal-einangrun sé runnin undan rótum kvenna sjálfra sem samstilltu sig hljóðfalli mánans og hurfu inn í skemmur sínar þegar máninn hvarf af himni, ýmist einar eða í hópum, og helguðu sig andlegum og skapandi verkefnum. Um þetta höfum við ótal dæmi í fornum sögum okkar. Frásögnin af Freyju í Sörlaþætti styður þessa kenningu en þar segir: "Hún átti sér eina skemmu. Hún var bæði fögur og sterk, svo að það segja menn að ef hurðin var aftur og læst, að enginn maður mætti koma í skemmuna án vilja Freyju."

  Úr þessum jarðvegi ætla ég að séu sprottin mótífin um orminn sem hringaði sig um meyjarskemmuna, um vafurlogann sem bálaði í kringum sali kvenna, og þyrnigerðið sem hóf sig hátt um Þyrnirósu. Það var í grunninn Freyja sem hetjurnar áttu við að etja þegar þær freistuðu þess að brjóta sér leið í gegnum þessar hindranir, og gat sigur lofsunginnar hetju þá leitt til óskapa.

  Í þjóðsögunni Fossvallabóndinn sem á að hafa gerst á 18. öldinni, beitir prestur rúnagaldri til að múra bóndadóttur inni í bergi hjá fjórum tröllum. Í þessari sögu og öðrum þar sem konur lenda í tröllahöndum, kemur þursinn okkur á spor blæðinganna.
  úr Tarot of Northern Shadows


  “"Þurs veldur kvenna kvillu;
  kátur verður fár af illu.“

  (Norskt rúnakvæði frá 12. öld)

  "Þurs er kvenna kvöl
  og kletta búi...“

  (Íslenskt rúnakvæði frá 15. öld)


  Í norsku rúnakvæði frá 12. öld segir um þursinn, en svo nefndist þ-rúnin sem sést á armhring djöfulsins á tarot spilinu hér að ofan: "Þurs veldur kvenna kvillu; kátur verður fár af illu." Í íslensku rúnakvæði frá 15. öld hljóðar lýsingin svona: "Þurs er kvenna kvöl / og kletta búi..." Höfundur tarot spilsins leggur þursinn að jöfnu við djöfulinn sem sjaldnast er langt undan þegar blæðingar eru annars vegar.  Hrímgrímnir heitir þurs,
  er þig hafa skal
  fyr nágrindur neðan...

  (Skírnismál 35)


  Fossvallabóndinn er afsprengi Skírnismála þar sem segir frá því að Skírnir, skósveinn frjósemisguðsins Freys, ríður í Jötunheima til að fá Gerðar (hinnar umgirtu) fyrir hönd húsbónda síns. Gerður neitar staðfastlega og stendur af sér gylliboð Skírnis og hótanir. Þegar um allt þrýtur, útmálar hann fyrir henni bölvunina sem hún á í vændum ef hún ekki gefi sig: "Hrímgrímnir heitir þurs / er þig hafa skal / fyr nágrindur neðan..." og hann býst til að rista henni þursrúnina. Þar með var vilji Gerðar brotinn á bak aftur.

  Þegar kona er á túr er hún í vetrarlandi að því leyti að hún er líffræðilega ófrjó. Freyja er kölluð vanabrúður í vísu eftir 12. aldar prest og er þar eflaust ýjað að samræði sem ekki leiddi til líffræðilegs getnaðar, sbr. sögnina að vana. Dóttir Fossvallabóndans, sem hinn lúterski klerkur byrgir inni í berginu, ber þess öll merki að vera fulltrúi Freyju Njarðardóttur. Það er naumast tilviljun að þjóðsagan setur prestssetrið Sauðanes í brennidepil sögunnar, en sauður er vanaður hrútur. Írónían var vopn kúgaðrar alþýðunnar gagnvart kirkjuvaldinu sem var fulltrúi refsiglaðs himnaföður og sá djöfulinn í hverju horni. Þannig var andlegu ástandi þjóðarinnar háttað á öld Fossvallabóndans, þeirri átjándu.

  Sögurnar sem við höfum skoðað, Kötludraumur, Gandreiðin, stuldur skáldamjaðarins, Skírnismál, Fossvallabóndinn, allar sýna þær karla taka sér herradóm, drottinvald, yfir náttúrukrafti sem er konum eðlislægur. Í dag eiga konur þess kost að kveða tíðanáttúru sína niður með pillu sem auðveldar þeim að vera samkeppnisfærar í menningu sem sér ekkert gildi í blæðingum. Á hinn bóginn kann sú vaxandi vitundarvakning sem nú á sér stað að verða þeim hvatning til að gangast við frumstæðri náttúru sinni og hafa að leiðarljósi einkunnarorðin "þekktu sjálfa/n þig" sem voru letruð yfir innganginum í Delfí. Í þessu er ugglaust hin æðsta menntun fólgin, því það sem við þekkjum ekki í sjálfum okkur leikur lausum hala í sköpunarverkingu. Við vörpum því út í heiminn og yfir á annað fólk, og firrum okkur þannig ábyrgð á orðum okkar og gerðum.

  Fossvallabóndinn ber því vitni að hin innri náttúra og hin ytri verða ekki í sundur slitnar. Þegar prestur hafði múrað bóndadóttur inni í hellinum, lagðist jörðin Fossvellir í eyði. Sé litið til þess hvernig komið er fyrir jörðinni okkar í dag, kann viðhorf hverrar konu til tíðanáttúru sinnar að skipta meira máli í hinu stóra samhengi en hún áttar sig á.


  Helstu heimildir:

  Edinger, Edward F. 1993. Anatomy of the Psyche: Alchemical Symbolism in Psychotherapy. Illinois: Open Court.

  Hallfríður Jakobs og Ragnheiðardóttir. 2003. "Freyja." http://www.dreamsandtarot.is.

  – 2004. "Helgar tíðir." Lesbók Morgunblaðsins, 3. apríl.

  – 2010. "Menstruation." The Book of Symbols: Reflections on Archetypal Images. Ritstj. Ami Ronnberg, 402-3. Köln: Taschen.

  – 2016. Quest for the Mead of Poetry: Menstrual Symbolism in Icelandic Folk and Fairy Tales. Asheville, North Carolina: Chiron Publications.

  Jung, Carl G. 1990. The Archetypes and the Collective Unconscious. R. F. C. Hull þýddi úr þýsku. Princeton: University Press.

  ‒ 1993. Psychology and Alchemy. R. F. C. Hull þýddi úr þýsku. Princeton: University Press.

  Knight, Chris. 1991. Blood Relations: Menstruation and the Origins of Culture. Yale University Press.

  Magnusson, Magnus. 1985. Viking: Hammer of the North. New York: Galahad Books.

  Matthías Viðar Sæmundsson. 1992. Galdrar á Íslandi: Íslensk galdrabók. Reykjavík: Almenna bókafélagið.

  Motz, Lotte. 1981. "Gerðr". Maal og Minne.

  Neumann, Erich. 1954 . “On the Moon and Matriarchal Consciousness.” Hildegard Nagel þýddi úr þýsku. Spring: 83-100.

  Páll Björnsson. 1976. Kennimark kölska (Character bestiae). Ritstj. Lýður Björnsson. Reykjavík: Ísafoldarprentsmiðja.

  Shuttle, Penelope og Redgrove, Peter. 1988. The Wise Wound: The Myths, Realities, and Meanings of Menstruation. New York: Grove Press.

  Simek, Rudolf. 1993. Hugtök og heiti í norrænni goðafræði. Ritstj. Heimir Pálsson, þýð. Ingunn Ásdísardóttir. Reykjavík: Heimskringla.


  Skemman og Skírnismál  Fyrirlestur um þetta efni var upprunalega fluttur 4. nóvember 2009
  á vegum námsbrautar í safnafræði við Háskóla Íslands
  í tengslum við leikhúsverkið Hnykill
  og síðan aftur í endurskoðaðri mynd
  12. mars 2010 hjá Prisma.
  Hér birtist hann í lítið eitt fyllri mynd en unnt var að koma til skila
  innan tímarammans sem gafst við það tækifæri.


  Þegar Hrund Gunnsteinsdóttir hafði samband við mig út af fyrirlestri um goðsögur og táknmyndir, skilgreindi hún hugmyndafræðina sem Prisma byggir á sem tvo ryþma, ryþma skapandi hugsunar annars vegar en rökhugsunar hins vegar. Markmiðið væri að sjá þessa tvo ryþma dansa saman í jafnvægi. Við erum nú smátt og smátt að vakna til vitundar um hversu menning okkar hefur hafið rökhugsunina á stall en gert aftur minna úr því sem við finnum bærast innra með okkur en eigum kannski erfitt með að orða eða rökstyðja.
  úr The Shining Tribe Tarot
  eftir Rachel Pollack


  Myndin sem við höfum hér fyrir framan okkur er tarot-spil eftir bandaríska rithöfundinn Rachel Pollack, úr stokki sem hún kallar Shining Tribe eða Skínandi ættbálkur. Spilið kallar hún Speaker of Rivers (eiginlega sá sem veitir fljótandi orku vatnsins í form og miðlar henni út í heim). Fyrir ykkur sem þekkið tarot svarar þetta spil til bikarakóngsins sem aftur er hliðstæða hjartakóngsins í hefðbundnum spilum. Við erum hér með öðrum orðum komin inn á umráðasvæði tilfinninganna. Í hefðbundnu tarot eru bikarar ekki aðeins tákn fyrir ást og tilfinningar heldur einnig ímyndunarafl og sköpun. Og svo er um árnar í spilum Rachelar. Þær eru táknmyndir fyrir ímyndunaraflið sem stundum rennur fram villt og frjálst en stundum bara seytlar, en hverfur aldrei alveg, jafnvel ekki í allra verstu kringumstæðum.

  Ef við viljum tjá reynslu vatnsins, segir Rachel, getum við ekki vænst þess að koma henni beint til skila í skýrum orðum. Við verðum að láta ímyndunaraflið miðla okkur skilaboðum þess á þess eigin tungumáli, sem eru myndhverfingar, goðsögur, gátur og sögur. Smáfiskarnir, hver með sínum lit, sem fylgja þeim stóra marglita, eiga að sýna að þótt við heyrum öll sömu orðin, snertir goðsagan misjafna strengi í hverju og einu okkar. Þetta ætla ég að biðja ykkur að hafa í huga varðandi umfjöllun mína hér í dag. Þótt ég vísi í heimildir sem hafa stutt eða aukið við skilning minn á efninu, byggist túlkun mín umfram allt á persónulegri upplifun minni á sögunum sem ég ætla að rýna í með ykkur. Það er rétt að taka það fram að nálgun mín er í grundvallaratriðum sálfræðileg. Ég lít svo á að í goðsögum búi lifandi og tímalaus veruleiki og að þær geti kennt okkur sitthvað um okkur sjálf og mannlegt atferli almennt. Eins og Rachel bendir á er upplifun okkar einum þræði persónuleg og helgast af því hvar við erum stödd og við hvað við erum að glíma. Það er því viðbúið að áherslur ykkar yrðu aðrar en mínar. En einmitt með því að skoða þessar sögur frá mörgum hliðum og sjónarhornum, erum við líkleg til að komast nær kjarna þeirra.

  Á sporði stórfisksins stendur letrað á ensku: "And on the way I told a story of such power." Þetta er tilvitnun í rabbía að nafni Nachman frá Bratslav sem var uppi á síðari hluta átjándu aldar og fram á þá nítjándu. Nachman þessi gaf beinar kennsluaðferðir upp á bátinn og sagði nemendum sínum þess í stað sögur. Í heild sinni hljóðar setningin á þessa leið: "Á leiðinni sagði ég svo magnaða sögu að allir sem á hlýddu fundu til iðrunar." Nachman áttaði sig á að táknsögur höfðu það umfram beinar útskýringar að geta hreyft við tilfinningum viðtakandans, sem væri þá líklegri til að flytja boðskap þeirra inn í líf sitt.  Þegar ég "googlaði" Nachman frá Bratslav, komst ég að raun um að sagan sem hér er vísað til heitir Týnda prinsessan. Í hnotskurn er inntak hennar á þá leið að kóngurinn, faðir prinsessunnar, hafði reiðst dóttur sinni og þeytt því út úr sér í bræði að réttast væri að hinn illi tæki hana á brott. Að morgni næsta dags var prinsessan horfin en faðirinn sat eftir óhuggandi í sárum. Þegar undirkonungurinn sá sorg húsbónda síns, lagði hann upp í leit að stúlkunni. Undirkonungurinn leitaði í mörg mörg ár. Leiðum hans og prinsessunnar bar að vísu tvívegis saman en þegar kom að því örlagaríka augnabliki að hann hefði getað frelsað hana og flutt hana heim í konungsríkið, lét hann leiðast í freistni og féll á prófrauninni sem fyrir hann hafði verið lögð. Sagan upplýsir þó að honum muni á endanum takast að frelsa hana. Hvernig sú frelsun fer fram fáum við hins vegar ekki að vita heldur er okkur í sögulok sagt að þetta muni taka sinn tíma og að hann þurfi á allri sinni visku og gáfum að halda.

  Nú getum við spurt okkur hvers vegna þeir sem hlýddu á söguna fundu til iðrunar. Að mínum dómi liggur svarið í því, að kóngurinn, faðir prinsessunnar, er tákngervingur fyrir samfélagsvitundina sem sjálfsvitund (ego) þegnanna er mótuð af. Gildin sem kóngurinn stendur fyrir verða þess vegna ríkjandi þáttur í sálarlífi hvers einstaklings sem lýtur valdi hans. Það sem áheyrendur Nachmans skildu, var að þeir voru samsekir kónginum sem hafði hrakið dóttur sína á brott fyrir að vera ekki eins og hugur hans. Einnig þeir höfðu gert útlægan hinn kvenlæga þátt í persónuleika sínum sem prinsessan er tákngervingur fyrir. Hlutverk þeirra er að finna prinsessuna í sjálfum sér og leysa hana úr fjötrum. Lausnina lætur Nachman liggja á milli hluta, hana verður hver að finna fyrir sig.

  Hefði Nachman útskýrt fyrir nemendum sínum hvernig maðurinn hefur á þróunarferli sínum firrst kvenlæga náttúru, má telja frekar ólíklegt að sú staðreyndarfærsla hefði hreyft við tilfinningum þeirra og knúð þá til að finna hinn týnda part í persónuleika sínum og sálarlífi. Ég þarf ekki að taka það fram að kvenlæg náttúra varðar ekki konur einar heldur er hún fyrir hendi í báðum kynjum.

  Virðum fyrir okkur myndina sem prýðir bókarkápuna á sögum Nachmans. Ég nefndi áðan tengsl bikarsins sem táknmyndar við tilfinningar, ímyndunarafl og sköpunargáfu. Þessa þætti er okkur tamt að tengja hinu kvenlæga i eðli okkar, móttækileika sem ílátið endurspeglar. Og móttækileiki er forsenda þess að sögur eins og Týnda prinsessan nái að hreyfa við okkur og ummynda viðhorf okkar til sjálfra okkar og heimsins. Við getum raunar sagt að tilfinningarnar séu eldsneytið sem knýr okkur áfram í leit að sjálfsþekkingu og andlegum þroska.
  úr The Shining Tribe Tarot
  eftir Rachel Pollack


  Lítum rétt sem snöggvast aftur á spil Rachelar, Speaker of Rivers. Skálin full af ljósi í neðra horninu til hægri er að sögn höfundar táknmynd fyrir kraft goðsögunnar sem er þess umkomin að færa okkur undur og hnoss úr formlausri ólgu dulvitundarinnar. Í efra horninu til vinstri eru byggingar sem minna okkur á að raunveruleikaheimur menningarinnar á upptök sín í árflaumi ímyndunaraflsins.

  Ég ætla í þessu spjalli að fjalla um tvær goðsögur úr arfi okkar sem hafa haft djúp áhrif á mig. Þessar sögur hafa hjálpað mér til skilnings á sjálfri mér og þær hafa skerpt sýn mína á menninguna sem hefur mótað mig. Hina fyrri er að finna í Sörlaþætti í Fornaldarsögum Norðurlanda þar sem segir frá því hvernig Freyja, gyðja ástar og frjósemi, eignaðist Brísingamen en hina síðari í Skírnismálum þar sem lýst er átökum Skírnis, skósveins sólar- og frjósemisguðsins Freys, og Gerðar Gymisdóttur sem sendiboði guðsins beinlínis kúgar til að gefast húsbónda sínum. Báðar lýsa þessar sögur för hetjunnar í annan heim og komu hennar með hnossið til baka og hefur þeim þó hlotnast býsna ójafn sess í menningararfinum. Skírnismálum hefur verið haldið á loft og þess skemmst að minnast að kvæðið var sviðsett í Ráðhúsi Reykjavíkur á vetrasólhvörfum en reynsla Freyju er sem rökkvuð, blygðunarfull minning sem sjaldan heyrist flíkað.

  Þið kannist án efa öll við kviðlinginn sem lögmaðurinn og kristniboðinn Hjalti Skeggjason kastaði fram á alþingi árið 999: "Vil ek eigi goð geyja, grey þykki mér Freyja." Hjalti vill ekki lasta goðin en stillir sig ekki um að úthrópa Freyju sem tík. Lýsing Snorra Sturlusonar (1179-1241) á Freyju í Gylfaginningu hljómar ósköp blátt áfram og eðlilega í eyrum okkar nútímafólks: "Henni líkaði vel mansöngur. Á hana er gott að heita til ásta." Á þrettándu öld fólu þessi orð þó í sér aðra og viðsjálli merkingu en við leggjum í þau nú, því að samkvæmt Grágás, lögbók sem hér var í gildi fram til 1271, varðaði það skóggang ef maður orti mansöng til konu. Og í sögu Jóns helga, sem var biskup á tólftu öld, stendur skrifað að biskup hafi sterklega bannað þann leik "að í dansi skyldi maður kveða til konu blautleg kvæði og regileg (lostafull) og kona til manns mansöngsvísur." Af þessu má vera ljóst að Freyja bjó yfir krafti sem talsmenn kristninnar töldu að samfélaginu stæði ógn af. Ef til vill er það svo dæmigert fyrir okkar karllægu menningu að athygli fræðimanna virðist fremur hafa beinst að ráninu á meni gyðjunnar en tilurð þess.

  Upphafleg kveikja að þessum fyrirlestri var leikverkið Hnykill sem var sett upp hér fyrr í vetur. Þarna ferðaðist leikhúsgesturinn einn síns liðs í gegnum fjórtán rými í völundarhúsi undirvitundarinnar en verkið sjálft byggðist í grundvallaratriðum á tveimur táknmyndum, kabbalíska lífstrénu og mandölunni (eða mandala eins og það heitir á sanskrít). Á þessu magnaða ferðalagi gilti að vera opinn fyrir undrinu og leyfa því að orka á sig. Áhorfandinn var virkur þátttakandi í sýningarferlinu og gat átt þess kost að koma úr för sinni með nýja sýn á sjálfan sig og heiminn.
  kabbalíska lífstréð


  Ég greip töluna 14 á lofti og mun nú, eins og þá, nota tarot-tromp númer 14 sem útgangspunkt í spjalli mínu. Og þar eð tarot kemur talsvert við sögu ætla ég að fjalla lítillega um samband tarot og kabbalíska lífstrésins áður en við sláumst í för með hetjunum tveimur, Freyju og Skírni, yfir hyldýpið sem liggur á milli sephirah númer sex á trénu sem kallast fegurð og tengist sólinni (auðkennt hér með gulum lit) og sephirah númer níu sem kallast grundvöllur og tengist mánanum (auðkennt með fjólubláum lit). Tromp númer 14 er á brautinni sem tengir þessi tvö sephirot eins og hringirnir tíu sem þið sjáið á trénu kallast (et. sephirah). Við munum síðan skoða mandöluna og hlutverkið sem hún gegndi fyrir formæður okkar eins og lesa má út úr fornum sögum.
  The Gill Tarot


  Ef við flytjum lífstréð yfir á mannslíkamann, lítur dæmið svona út. Fegurðin er í hjartastað en grundvöllurinn myndi svara til æxlunarfæranna og þeirrar orkustöðvar sem kallast rótarbotn.

  Tarot-spilastokkurinn og kabbalíska lífstréð hafa orðið óaðskiljanleg fyrirbæri fyrir þá sem leggja stund á tarot af nokkurri alvöru. Eins og rúnirnar í hugum forfeðra okkar voru bókstafirnir í kabbalískri dulspekihefð gæddir magni. Samkvæmt elsta riti kabbala, Sefer Yetsirah (Book of Formation), var heimurinn skapaður með tíu tölustöfum og tuttugu og tveimur bókstöfum. Tarot hefur tuttugu og tvö tromp og hver sort tíu númeruð spil. Þetta þótti mönnum sláandi samsvörun.

  Um miðja 19. öld þróaði franskur dulspekingur að nafni Éliphas Lévi fullkomnara kerfi samsvarana á milli tarot og kabbala en lærisveinn hans Paul Christian innleiddi aftur egypskt myndmál og áhrif í tarot. Hugmyndina um að í tarot væri fólginn heimullegur vísdómur má rekja aftur til 1781, þegar svissneskur mótmælendaprestur og dulspekingur að nafni Antoine Court de Gébelin kvaðst hafa uppgötvað að kenningar egypska guðsins Thoth, sem einnig gekk undir nafninu Hermes Trismegistus, væri að finna í heimi hér og væru þær faldar í hinu lítt háleita spili les tarots. Árið 1888 varð svo til í Bretlandi launregla sem gekk undir nafninu "Hermetic Order of the Golden Dawn". Þessi regla notaði tarot og kabbalíska lífstréð sem grundvallarplan fyrir samþættingu margvíslegra fræða - eins og kabbala, stjörnuspeki, ný-platónisma, kristna dulspeki, hugmyndafræði Frímúrara, miðalda-töfra, goðafræði o.m.fl. Í anda þeirrar hefðar nýti ég mér þessar táknmyndir til að varpa ljósi á goðsögurnar sem við skoðum í dag.

  Ríkust áhrif á nútímatarot má rekja til spilastokks sem var gefinn út hjá Rider í London árið 1909 og tveir meðlimir fyrrgreindrar reglu voru höfundar að, menntamaðurinn og magusinn Arthur Edward Waite og listakonan Pamela Colman Smith. Sá aragrúi spila sem síðan hefur litið dagsins ljós er að meira eða minna leyti grundvallaður á þessum stokki. Spilið sem við leggjum út af hér, tromp númer 14 - Temperance, er einmitt úr þessum stokki.
  temperance
  úr Rider-Waite spilastokknum


  Svissneski sálfræðingurinn Carl Jung gerði skýran greinarmun á myndhverfingu (metafóru) sem er umorðun á fyrirbærum sem eru okkur kunn og tákni (symbol). Táknið, segir Jung, er besta mögulega lýsing eða framsetning á einhverju sem er tiltölulega ókunnugt en sem við vitum engu síður að er til eða göngum út frá að sé til. Táknið ber í sér ýtrustu andstæður, s.s. ljóss og myrkurs, hins rökræna og hins órökræna. Áhrif þess eru heilandi að því leyti að það stuðlar að samþættingu andstæðra þátta í persónuleika manneskjunnar. Þegar andstæðurnar koma saman í sálarlífi einstaklings verður hann fyrir djúplægum og varanlegum áhrifum. Slíkri sameiningu má líkja við getnað sem elur af sér nýjar aðstæður og nýja meðvitaða afstöðu. Þannig litu gullgerðarmenn miðalda líka á táknið og kölluðu það coniunctio eða "giftingu" (coniunctio þýðir að sameina, tengja saman).

  Tarot-spilin eru táknmyndir. Svo notuð sé skilgreining Jungs, eru trompin tuttugu og tvö eða "launmál hin meiri" eins og þau eru kölluð, besta mögulega framsetning höfunda þeirra á erkitýpum en svo kallaði Jung ásköpuð hegðunarmynstur sem eru sameiginleg öllum mönnum og eiga rætur í sameiginlegri dulvitund mannkynsins. Jung leit á tarot-spilin, eins og tákn almennt, sem brú á milli vitundar og dulvitundar, tæki til að komast í samband við innri orku og meðfæddar gáfur sem við kunnum að hafa bælt vegna þess að þær stangast á við það sem okkur hefur verið innrætt eða hafa ekki enn litið dagsins ljós og þarfnast meðvitaðrar samvinnu okkar til að verða að veruleika.

  Hvernig þýðum við temperance á íslensku? Hófsemi er orðið sem fyrst kemur í hug. Temperance ferðast eftir miðstofni trésins en hann stendur fyrir frumefnið loft og er mitt á milli andstæðuparanna á hægri og vinstri stofni þess sem standa annars vegar fyrir eld (sá hægri) en hins vegar vatn. Jörð finnum við við rætur trésins í Malkuth, konungdæminu. Þetta voru frumefnin fjögur (eldur, vatn, loft, jörð) sem menn til forna töldu að lægju til grundvallar heiminum. Og þar eð maðurinn bar heiminn í sér í smækkaðri mynd, var litið á þessi fjögur frumefni sem tákn fyrir skapgerðareiginleika hans eða temperament.

  Stígurinn sem liggur inn á milli blárra fjalla í fjarska stefnir á geislandi kórónuna sem trónir á toppi trésins. Þetta er hinn rómaði millivegur sem mun skila okkur skírðum af grómi til uppsprettunnar. Annað nafn á Temperance er Alkemistinn og helst sú nafngift í hendur við upprunalega merkingu orðsins temperance sem er "að blanda saman", t.d. vatni við vín til að tempra styrkleika vínandans. Þessi merking kemur fram í verknaði engilsins sem blandar saman orku með því að hella úr öðrum bikarnum í hinn. Á sumum spilum er annar bikarinn silfur en hinn gull, sem er rökrétt, því að silfur tengist mánanum og dulvitundinni en gullið sólinni og vitundinni en sjálfsþekking og þroski ganga út á að gera hið ómeðvitaða meðvitað, að tengja það sjálfsvitundinni og gera það að lifandi veruleika. Til að gera langa sögu stutta, getum við sagt að ef við drögum tarot-tromp númer 14 kalli það eftir að við vinnum meðvitað að því að koma á samræmi milli ólíkra þátta í persónuleika okkar til að við megum finna innra jafnvægi og rótfestu í sjálfum okkur. Í englinum ímyndast frumefnin fjögur í fullkomnu jafnvægi; vængirnir eru tákn fyrir loft, þríhyrningurinn á brjósti hans fyrir eld, hann stendur með annan fótinn í vatni en hinn á jörð. Hebreski stafurinn sem tengist spilinu kallast Samech sem þýðir "hæll" (sbr. tjaldhæll). Með öðrum orðum, festing sem heldur okkur stöðugum í vindbyljum lífsins.

  Persónan á þessu spili er Míkael stríðsmaður guðs og leiðtogi himneskra herja gegn myrkraöflunum. Eins og segir í Biblíunni varpaði Míkael drekanum rauða, hinum gamla höggormi sem heitir djöfull og Satan, ofan af himni og niður á jörðina. Míkael er kallaður engill reiðinnar og bið ég ykkur að hafa þessa lýsingu í huga þegar við rýnum í Skírnismál hér á eftir. Samkvæmt hefðbundinni túlkun stuðlar Míkael að réttlæti og er vegvísandi sálna sem leita guðlegrar hugljómunar. Þessi merking helst í hendur við hlutverk hans sem alkemista og vafalaust hefur verið litið á Skírni og framgöngu hans í Skírnismálum sem fyrirmynd dauðlegra manna um hvernig skyldi skíra sig af soranum sem rauði drekinn spúði um jörðina. "Vei sé jörðunni og hafinu, því að djöfullinn er stiginn niður til yðar í miklum móð, því að hann veit að hann hefur nauman tíma." (Opinberun Jóhannesar 12:2). Í þessu samhengi er vert að hafa í huga að Gerður Gymisdóttir, sem Skírnir á í átökum við, er jafnan talin vera persónugervingur Jarðar, sumir kalla hana jarðar- og mánagyðju, en Gymir var sjávarguð og persónugervingur hafsins. Þau feðgin eru sem sé fulltrúar fyrir þá andsnúnu náttúru sem er úthrópuð í Opinberunarbókinni.

  En áður en ég sný mér að Skírnismálum ætla ég að víkja að frásögninni af Freyju og dvergum þar sem rakið er hvernig Freyja eignaðist Brísingamen. Sagan er sviðsett í mannheimum. Óðinn er konungur yfir Ásgarði sem er höfuðborg í Asíu og er Freyja sögð vera frilla hans. Frásögnin einkennist af grótesku háði enda sagan skráð á kristnum tíma þótt ljóst þyki að hún eigi rætur í fornum jarðvegi. Ást Óðins á Freyju er undirstrikuð í upphafi frásagnarinnar:

  Óðinn unni mikið Freyju, enda var hún allra kvenna fegurst í þann tíma. Hún átti sér eina skemmu. Hún var bæði fögur og sterk, svo að það segja menn, að ef hurðin var aftur og læst, að enginn maður mætti koma í skemmuna án vilja Freyju.

  Út úr þessari knöppu lýsingu má lesa að Óðinn hafi nauðugur viljugur orðið að halda aftur af ástarþrá sinni þegar Freyja lokaði sig af í skemmunni. Það hvílir sem sé bannhelgi á skemmunni undir ákveðnum kringumstæðum og það sem er bannað hefur vitaskuld alveg sérstakt aðdráttarafl. Það er jafnframt ljóst að bannið var háð vilja Freyju. Hér skulum við halda því til haga að þótt Óðinn hafi í þessari kristnu útleggingu á goðsögninni hrapað niður á mennskt plan var hann höfuðguð í norrænni heiðni og fyrirmynd sólarhetjunnar sem svífst einskis til að komast yfir hnossið sem hún hefur augastað á. Um þetta eru Skírnismál ljós vitnisburður. Í heimsmynd Óðins helgar tilgangurinn meðalið. Sem goðmögn eru Freyja og Óðinn persónugervingar fyrir öfl sem eru að verki í okkur mannfólkinu, konum jafnt sem körlum.

  Í beinu framhaldi af þessari lýsingu er greint frá för Freyju inn í bergið til dverga og endurkomu hennar inn í ljósheiminn með Brísingamen:

  Hún kemur að steini sem stendur opinn. Inni fyrir eru fjórir dvergar að smíða gullmen. Hún dregst að meninu, hana langar í það og hún býður fram gull og silfur og góða gripi. Dvergunum finnst hún að sama skapi hrífandi. Þeir gera henni skiljanlegt að þá skorti ekki gull og vilja þá borgun eina að hún sofi sína nóttina hjá hverjum þeirra. Hún gefur sig og kemur til baka með hnossið (endursögn mín).
  Freyja
  málverk eftir Anders Zorn (1860-1920) - {{PD-Art}}


  Þessi mynd af Freyju eftir Anders Zorn skýrir að mínu viti bannhelgina sem hvílir á skemmunni. Í Gylfaginningu segir Snorri um Freyju: "Þegar hún fer þá ekur hún köttum tveim og situr í reið (vagni)." Hægindastóll gyðjunnar á mynd Zorn er ljós vísun í vagninn og útskornir kettirnir á örmunum í dráttardýrin. Hér sjáum við Freyju í draumkenndu ástandi en eins og alkunna er var Freyja völva og kenndi með ásum seið. Svartur kötturinn við fætur hennar er einkennisdýr hinnar vísu konu og sem fágætlega sjálfstætt dýr undirstrikar hann sjálfstæði Freyju sem skín út úr textanum. Freyja er sem sé um kyrrt í skemmuni en fer hvergi í bókstaflegum skilningi, heldur er för hennar inn í bergið til dverga af huglægum toga. Að þessum veruleika Freyju átti Óðinn ekki aðgang og eins og ráða má af framhaldi sögunnar var hann æfur af afbrýðisemi og skipaði Loka að stela af henni meninu.

  Ólíkt hinni dæmigerðu sólarhetju sem menning okkar hefur haldið á loft sem fyrirmynd, er Freyja ekki að leita að neinu sérstöku þegar hún sér eitthvað sem heillar hana. Hún opnar sig sjálfviljug fyrir undrinu, verður fyrir hugljómun og kemur úr undirheimaför sinni með gersemi sem hún var síðar rænd í margvíslegri mynd. Brísingamen varð að bitbeini milli guða og fræðimenn greinir á um merkinguna sem í tákninu felst.

  Dag einn sat ég djúpt sokkin yfir texta um Freyju sem ég var að vinna fyrir uppflettirit um tákn og þá, skyndilega, kom lykillinn að Brísingameni upp í hendurnar á mér. Þetta var hugljómun. Á því augnabliki gat ég lifað mig inn í geðshræringuna sem ég ímynda mér að hafi komið yfir Freyju í fullnægingarblossanum í steininum.

  Hver var þá hugljómun Freyju? Hvaða viska var það sem Brísingamen færði henni?

  Ég tilfæri hér örstutt brot úr grein sem ég birti í Lesbók Morgunblaðsins árið 2004 undir yfirskriftinni "Helgar tíðir":

  Brísingur er eldsheiti en men er samhljóða indó-evrópsku rótinni men sem þýðir máni. Af sömu rót er runnið latneska orðið mens sem á merkingarlega skylt við þann óð sem sungið er um í Völuspá og við köllum sál. Ævintýri Freyju vekur upp mynd af sólinni sem gengur undir og gefst "fereinum" mána sem sökkvir sér í eldheitt skaut hennar svo rauðar glæðurnar blæða undan biksvörtum lim hans og mynda logandi djásnið.

  Séð í þessu ljósi er Brísingamen táknrænt fyrir heilagt brúðkaup sólar og mána eins og alkemistarnir settu það fram í ritum sínum, myndmál sem á sér samsvörun í sólmyrkva á himni. Heilandi orka sameiningarinnar er undirstrikuð af tölunni fjórir sem er algilt tákn fyrir heilleika, eins og ráða má m.a. af fjórum kvartilum mánans og höfuðáttunum fjórum.

  Af men eru dregin ensku orðin menstruation og menses sem höfð eru um blæðingar kvenna. Máninn hafði töframátt og það höfðu konur einnig þegar þær voru á blæðingum en þær tengdust jafnan nýju tungli, þegar sól og máni eru samtengd sem kallað er (sbr. coniunctio alkemistanna) og nóttin dimm. Hér þurfum við að vera okkur meðvituð um að táknið lýtur ekki sögulegum tíma heldur ber í sér hvort tveggja augnablik og eilífð. Það sem Freyja höndlar á augabragði í sögunni er ferli sem hefur runnið smátt og smátt upp fyrir manneskjunni í árdaga þegar hún var að feta sín fyrstu skref frá dýri til manns. Við getum ímyndað okkur að þarna, skyndilega, hafi brotin raðast saman í heillega mynd.

  Í dvergatali Völuspár fara fremstir Nýi og Niði (við notum ný og nið um vaxandi og þverrandi tungl). Af þessu má vera ljóst að í hugum formæðra okkar og feðra voru náin tengsl á milli dverga og mánans, á milli mánans og þess sem manneskjan skynjaði í sér en var henni þó hulinn leyndardómur. Máninn var þarna uppi en hann var líka að verki hérna niðri. Máninn var tímamælir sem hjálpaði fólki að ná áttum í heimi sínum og skapa reglu. Ég minni á að sephirah númer níu á lífstrénu kallast grundvöllur og tengist mána. Af náttúrulegum orsökum var það konan sem lagði þennan grundvöll að mannlegu samfélagi. Tíðahringur hennar hélst í hendur við hljóðfall mánans.
  æðsta prestynjan
  úr Rider-Waite spilastokknum


  kabbalíska lífstréð


  Við skulum í þessu samhengi líta á tarot-tromp númer tvö, æðstu prestynjuna sem er staðsett ofarlega á miðstofni trésins, á milli kórónunnar og sephirah númer sex sem eins og fyrr getur kallast fegurð og tengist sól.

  Höfuðbúnaður hennar er vísun í mánann, sem er upphafinn, og jafnframt í kórónuna á toppi trésins, en við fætur hennar er mánasigðin sem í táknrænum skilningi stendur fyrir dauða og endurfæðingu. Sama lögmál sjáum við endurspeglast í dvergsheitunum Niði og Nýi. Máninn var áminning um dauðann sem er samofinn jarðlífinu en bar jafnframt í sér fyrirheit um eilíft líf sem Kristur fullkomnaði með píslardauða sínum. Á slæðunni sem er strekkt á milli súlnanna á bak við hana sér móta fyrir lífstrénu. Sjálf myndar hún miðstofn trésins en pálmatré hægri og vinstri stofninn og sólgul aldin með blóðrauðum granateplafræum sephirotin. Sephirah númer sex, hjarta trésins, er falið á bak við krossinn á brjósti hennar og númer níu á bak við ferkantaða steinstöpulinn sem hún situr á og sýnir undirstöðuna. Vatnið sem flæðir frá henni er lífsvatnið sem nærir rætur okkar sem jörðina byggjum. Hún er uppsprettan sem okkur er lífsnauðsyn að vera í tengslum við. Prestynjan á þessari mynd er samsett úr egypsku gyðjunni Isisi og Maríu mey. Þetta undirstrikar hlutverk hennar sem er að sameina og samþætta andstæðurnar sem súlurnar sitt til hvorrar handar henni gefa til kynna, myrkur og ljós, heiðni og kristni, tregðu og framsókn. Og við getum bætt andstæðuparinu hold og andi hér við.
  æðsta prestynjan
  úr Tarot of Northern Shadows


  Í Tarot of Northern Shadows fáum við gerólíka útfærslu á æðstu prestynjunni og hún sýnir að mínum dómi hugarfarsbreytingu sem orðið hefur á þeim hundrað árum sem liðin eru síðan Rider-Waite-Smith stokkurinn kom út. Þarna höfum við Freyju, bjarta sem sól, eins og ráða má af fé-rúninni á silfurlitum skildi hennar en svo heitir fyrsta rúnin, F, í rúnastafrófinu. Hyrndur hjálmur og skjöldur varlkyrjunnar eru vísun í mánann. Það sem þetta spil segir okkur er að Freyja ber í sér hvort tveggja orku sólar og mána. Hún er með öðrum orðum heil í sjálfri sér. Samkvæmt goðsögunni átti Freyja valsham og kötturinn var einkennisdýr hennar. Þarna sjáum við enn hvernig andstæður líkamnast í prestynjunni. Um hálsinn ber hún gullmen samsett úr djásnum himinsins. Þar sem var krossinn á æðstu prestyjunni á Rider-Waite-Smith spilinu er sex arma stjarna í hjartastað á nöktum líkama Freyju en sex arma stjarnan, hexagramið, er tákn fyrir samruna hins kvenlæga og karllæga þríhyrnings í nautn (sá er vísar upp stendur fyrir eld en hinn sem vísar niður fyrir vatn).
  Algleymi heilagrar Teresu
  eftir Giovanni Lorenzo Bernini

  sjá
 • ARAS: Archive for Research in Archetypal Symbolism

 • Fræg er höggmynd Berninis af algleymi heilagrar Teresu frá Ávila (1515-1582) sem er innblásin af lýsingu Teresu sjálfrar á dulrænni reynslu hennar. Líkt og Freyja á mynd Anders Zorn er fyrirmyndin hér í algleymisástandi. Myndin hefur á sér heiðið yfirbragð að því leyti að engillinn sem kveikir nautnabál nunnunnar minnir fremur á guðinn Eros en engla kristinnar hugmyndafræði. Teresa var mikilhæfur frumkvöðull og afkastamikill rithöfundur sem í skjóli klausturmúra leiðst að lýsa ást sinni á guði með erótískum hætti. Freyja hefur hins vegar verið niðruð af kristnum scribentum fyrir erótíska upplifun sína í steininum og hafa sumir fræðimenn og skýrendur látið að því liggja að hún hafi selt meydóm sinn fyrir gullmen.  Hér sjáum við svo myndir af náttúrufyrirbærinu sem Brísingamen að mínum dómi á rætur í og langar mig til að deila með ykkur lýsingu sjónarvottar á sólmyrkva sem ég rakst á í tímaritinu Sky & Telescope:

  Ekkert jafnast fyllilega á við þá reynslu að sjá almyrkva á sól. Hvort heldur það er kolsvört kringla mánans með draugalega, perluhvíta kórónuna í bakgrunni, sólstrókarnir sem skipa sér eins og rúbínfesti umhverfis mánaröndina eða tilkomumikill demantshringurinn sem brýst fram undan djúpri mánadældinni, þá greipist myndin af sólmyrkva að eilífu í huga áhorfandans. (Edwin L. Aguirre: "Imaging a Solar Eclipse")

  Við getum rétt ímyndað okkur hve mögnuð áhrif þetta himneska sjónarspil hafði á fólk í árdaga.

  Mér býður í grun að hér finnum við einnig fyrirmyndina að vafurloganum sem umkringir bústaði meyja í fornum sögum. Og ber okkur þá að mandölunni. Mandala er eins og áður sagði sanskrít og þýðir hringur. Mandölur eru á meðal elstu trúartákna mannkyns sem rekja má allt aftur til fornsteinaldar og þær fyrirfinnast með öllum þjóðum og á öllum menningarsvæðum heims.

  Umfjöllun um mandöluna og heilandi hlutverk hennar er að finna víða í verkum Jungs og gefur hann fjölmörg dæmi um hvernig hún sprettur fram spontant í draumum og teikningum skjólstæðinga hans. Í þerapíu kemur mandalan einkum fram í tengslum við kaótískt sálarástand. Hún gegnir þeim tilgangi að koma skipulagi á óregluna, þótt þetta sé aldrei meðvitað áform. Mandalan tjáir ævinlega skipulag, jafnvægi og heilleika. Og hún hefur jákvæð og sefjandi áhrif.

  Austurlenska mandalan, einkum sú tíbeska, er aftur á móti háþróað tæki til íhugunar. Tilgangur hennar er að glæða einbeitingu með því að þrengja sjónsviðið og einskorða það við miðjuna þar sem jafnan er að finna trúarlega fígúru af æðstu gráðu, sjálfan Síva eða Búdda. Hún er yfirleitt byggð upp af þremur hringjum, svörtum eða dökkbláum, sem ætlað er að loka á það sem er fyrir utan og halda saman því sem er fyrir innan. Miðjan er umlukin klausturgarði sem sýnir einangrun í helgum véum og einbeitingu. Venjulegast er að jaðar mandölunnar sé eldur, eldur ástríðna sem leiða til vítispínsla.

  Hvaða merkingu eigum við þá að leggja í vafurlogann sem umkringir meyjarskemmuna í fornum arfi okkar? Er hann til marks um ólgandi ástríður karlhetjanna sem freista þess að ríða gegnum eldvegginn og vinna meyna, eins og við höfum dæmi um í Skírnismálum? Sýnir hann ólma kynorku konunnar sem beinir kynhvöt sinni inn á við í leit að andlegri upphafningu? Eða stendur hann kannski fyrir hvort tveggja? Lýsing Snorra Sturlusonar á Freyju styður hið síðarnefnda.

  Hún giftist þeim manni er Óður heitir (sbr. coniunctio alkemistanna). Dóttir þeirra heitir Hnoss. Hún er svo fögur að af hennar nafni eru hnossir kallaðar það er fagurt er og gersemlegt. Óður fór í braut langar leiðir en Freyja grætur eftir, en tár hennar er gull rautt. Freyja á mörg nöfn, en sú er sök til þess að hún gaf sér ýmis heiti er hún fór með ókunnum þjóðum að leita Óðs.

  Óður er sannkallaður huldumaður í goðsögunni og ekkert um hann vitað annað en nafnið. Óður þýðir skáldskapur og má ráða af lýsingarorðinu óður að skáldskapurinn sé innblásinn af villtum (ótömdum) anda. Við sjáum þetta í Hulduljóði Jónasar Hallgrímssonar sem vakið er af huldunni í brjósti skáldsins og hefst á þessum orðum: "Skáld er ég ei, en huldukonan kallar." Samkvæmt sálarfræði Jungs væri huldukonan sem skáldið á ástafund með anima Jónasar, en svo kallar Jung hinn kvenlæga mótpart karlsins sem er honum meira eða minna ómeðvitaður en aftur animus hinn karllæga mótpart konunnar. Músur eða listagyðjur skálda og listamanna af karlkyni eru okkur vel kunnar úr vestrænum menningararfi en hljótum við ekki að staldra við og spyrja hvers vegna við eigum ekki sambærilega hefð hvað konur varðar? Hvaðan kemur konum skáldlegur innblástur? Ef við lesum goðsögurnar með opnum augum, blasir við að Óður, maki og elskhugi Freyju, hefur á einhverju skeiði horfið undir yfirborðið og umbreyst í hinn illa. Hann hefur með öðrum orðum ekki verið "uppi á borðinu" í þjóðfélagslegri umræðu um sköpun og menningu svo notað sé orðalag sem nú bylur á okkur í tengslum við kröfuna um gagnsætt ferli.

  Lýsing Snorra gefur til kynna að Freyja heyri kall Óðs og hún leitar hans um ókunn lönd grátandi tárum úr rauðu gulli. Í Völspá þar sem segir frá sköpun hinna fyrstu manna, Asks og Emblu, er óður sálin eða, eins og Sigurður Nordal kemst að orði, "guðsneistinn í manninum sem verður fyrir áhrifum æðri afla." Og takið þá eftir að kvenkynsorðið sál hefur yfirtekið hinn andlega merkingarþátt orðsins óður. Að mínum dómi er Óður hinn guðdómlegi brúðgumi, animus Freyju og skáldlegur innblástur. Hann er hliðstæða guðsins Síva í miðju austurlensku mandölunnar.

  Einn fræðimaður gerir athugasemd við að Snorri skuli ekki skýra "hvernig Freyja sé bæði heima og á flakki í leit að Óði." Svarið höfum við þegar séð í mynd Anders Zorn. Mótsögnin skýrist af þeirri einföldu staðreynd að Freyja var á túr, á ferðalgi um sínar innri lendur.

  Og víkur þá sögunni að Skírnismálum og tarot-trompi númer 14, hófseminni, spili sem sýnir Míkael erkiengil og er kennt við gullgerðarlist. Algengt er að líta á Skírnismál sem skáldlega útlistun á heilögu brúðkaupi sólarguðsins Freys og jarðar- og mánagyðjunnar Gerðar. Ég ætla hins vegar að skoða ljóðið frá sjónarhóli gullgerðarlistarinnar. Heitið Skírnir hefur verið skýrt sem "hinn bjarti" en hlutverk Skírnis í kvæðinu sýnir svo vart verður um villst að hann er "sá sem skírir." Í æðsta skilningi fól gullgerðarlistin í sér leit að hinu andlega gulli en það gat reynst þrautin þyngri að finna frumefnið, prima materia, sem vinna átti gullið úr. Hvert er þá frumefnið sem Skírnir vinnur með? Við skulum nú grafast fyrir um það.

  Sagan hefst á því að Freyr sest í sæti Óðins, Hliðskjálf, þaðan sem sjá mátti um heima alla og sér hann þá í jötunheimum fagra mey ganga frá skála föður síns til skemmu. Þessi sýn hrífur Frey aftur til árdaga og hann er gripinn óslökkvandi þrá eftir konunni. Hann kallar hana álfröðul og svo stafar af henni ljóma að "armar lýstu en af þaðan allt loft og lögur." Gallinn á gjöf Njarðar er bara sá að konan er forboðinn ávöxtur, tabú. "Ása og álfa það vill engi maður að við samt séim," kvartar hann við Skírni. Skósveinninn tekst þá á hendur bónorðsför í jötunheima ef Freyr láni honum sverð sitt og hest sem muni bera hann í gegnum vafurlogann sem umkringir skemmu Gerðar.

  Í þessu samhengi er vert að velta fyrir sér merkingu orðsins mær. Upprunalega var þetta hugtak haft um konu sem var heil í sjálfri sér, sem hélt sínum krafti fyrir sig og helgaði sig sínum persónulegu ástríðum. Lýsingarorðið mær þýðir "skær, bjartur". Þetta eru orð sem við notum um sólina sem er óneitanlega kvenkyns í tungumáli okkar og vitund og vekja upp sýnina af Gerði sem blasir við Frey úr Hliðskjálf. Í hugum okkar nútímafólks þýðir mær "hrein mey" og hrein mey "sú sem hefur ekki haft kynmök við karlmann". Nýlega rakst ég á frásögn í Morgunblaðinu (5. sept. sl.) af ungri konu sem í bernsku var dýrkuð sem Kumari-gyðja í Nepal, eða þar til hún byrjaði á blæðingum. Kumari-gyðjur eru álitnar holdtekjur gyðjunnar Taleju en Kumari þýðir "hrein mey". Þarna er litið svo á að með blæðingunum taki óhreinleikinn sér bólfestu í ungum stúlkum.

  Jung fann í textum gullgerðarmannanna samsvörun við kenningar sínar um þróun einstaklingsvitundar. Hann hefur lýst frumefninu sem gullið var unnið úr svo:

  Það er verðlaust sem aur og það má finna hvar sem er, vandinn er bara sá að enginn þekkir það; [...] það hefur "þúsund heiti". Og það sem verst er, verkið getur ekki hafist án þess. [...] Frumefnð ber í sér eðli Satúrnusar og hinn illi Satúrnus er bústaður djöfulsins. Að sama skapi getur það líka verið eitthvað sem þykir fyrirlitlegast af öllu, er hafnað, "fleygt í götuna", "kastað á haugana", "fundið í skítnum" (Alchemical Studies par. 209).

  Varla verður fundin trúverðugri lýsing á viðhorfi okkar til tíðablóðsins. Ekkert er jafn fyrirlitið og falið og áreiðanlega hefur ekkert fyrirbæri undir sólinni hlotið viðlíka fjölda felunafna. Ég nefni sem dæmi tár Freyju sem var "gull rautt". Og sé rýnt í arfinn sjáum við tengsl blæðinganna við Satúrnus og satan staðfest. Í Skírnismálum er hinn illi klæddur í gervi jötunsins og höfuðóvinar ása, Gymis, sem sagður er faðir Gerðar. Má þá í leiðinni geta þess að í fornum skáldskap er að finna kenningu þar sem Máni er persóna af jötnaættum og er talið að sú hugmynd kunni að eiga rætur í glataðri goðsögn.

  Gerður þýðir "hin umgirta". Ekki einasta er skemma hennar umlukin vafurloga, heldur liggur líka um hana skíðgarður og eru ólmir hundar bundnir fyrir hliði. Ég lít svo á að sem erkitýpa sé Gerður fulltrúi fyrir konu á blæðingum. Það gegnir í raun furðu hve lítið hefur verið fjallað um þennan mikilvæga þátt í lífi kvenna, nema þá helst í hálfkæringi og hálfkveðnum vísum.

  Að konur dragi sig í hlé frá umheiminum meðan á blæðingum stendur hefur tíðkast frá ómunatíð um gjörvallt byggt ból og gerir sumstaðar enn. Þessi einangrun hefur löngum verið rakin til þvingunar frá karlsins hendi vegna óhreinleika konunnar. Nú vex þeirri skoðun hins vegar fylgi að hún eigi rætur í helgisiðum kvenna sem í öndverðu námu hljóðfallið á milli sinnar innri veru og mánans sem þverr inn í myrkrið og vex. Þetta er sá veruleika sem lesa má út úr sagnaarfi okkar.

  Og víkur þá sögunni að Skírni og sendiför hans. Þegar hann hefur komist klakklaust yfir fjöll og firnindi til Gymisgarða hittir hann fyrir "féhirði" sem situr á haugi. Haugur er grafhýsi sem í leynast gripir er látnir tóku með sér yfirum. Haugurinn getur því veitt ómetanlega innsýn í líf forfeðranna og hjálpað okkur nútímafólki að brúa bilið á milli nútíðar og fortíðar. Og svo er um Skírnismál. Þau glæða skilning á því hvers vegna við erum stödd þar sem við erum í dag. Haugurinn er við hliðið að bústað Gerðar. Þetta má skilja sem vísbendingu um að Skírnir sé að fara inn í fortíðina. Við höfum áður drepið á að heitir fyrsta rúnin í rúnastafrófínu en rúnastafrófið töldu menn að fæli í sér skipulag heimsins líkt og gilti um hebreska stafrófið í kabbala. Fé-rúnin vísar til frjósemisaflanna með Freyju í forsæti (þótt mönnum sé raunar tamara að tileinka hana Frey!) og forstaða hennar í rúnastafrófinu er táknræn fyrir upphaf og undirstöðu heimsmyndarinnar sem það endurspeglar. Lykilorð í íslenska rúnakvæðinu sem fjallar um -rúnina er aurum.

  Aurum er latína og þýðir 'rauðagull'. Ber okkur þá enn að tári Freyju sem var "gull rautt". Af aurum er leitt íslenska orðið aur og Aurboða hét móðir Gerðar og var hún bergrisaættar. Síðari hluti nafnsins Aurboða er talið að sé dreginn af nafnorðinu boði sem þýðir 'brotsjór'. Af þessu má draga þá ályktun að Aurboða sé táknmynd fyrir "fyrstu flóðölduna" eins og Kínverjar kalla blæðingar konunnar. Eins og ætterni Aurboðu vottar eru blæðingarnar náttúrukraftur sem maðurinn hefur ekki vald yfir, þótt hann hafi fundið upp á ýmsu til að reyna að stemma stigu við þeim, eins og til að mynda kóngurinn faðir Þyrnirósu sem lét eyðileggja allar snældur í ríkinu og kom það þó fyrir ekki. Hið nýjasta í þessum efnum er pillan Seasonable sem á að tryggja að konur fari ekki á túr oftar en fjórum sinnum á ári.

  Í myndhvörfunum "fyrsta flóðaldan" geymist minningin um að með meðvitundinni um blæðingar konunnar breyttist kyrrstaða í hreyfingu og mannkyninu var hrundið úr paradís dýrslegs meðvitundarleysis. Það var þarna sem grundvöllur að andlegri gullgerðarlist var lagður. Og hana ástunduðu konur í skemmum sínum, stundum einar en stundum margar saman í hóp, því að eins og alkunna er fylgir tíðahringur kvenna sem lifa í nánu samfélagi hver við aðra sama hljóðfalli, og arfurinn ber því vitni að í fyrndinni samræmdist það hljóðfall kvartilaskiptum mánans.
  úr The Shining Tribe Tarot
  eftir Rachel Pollack


  "Sú sem býður fram gull" er ein skýring sem komið hefur fram á nafni Aurboðu og er hún rakin til skyldleika sagnarinnar bjóða og nafnorðsins boði. Þessi merking fellur vel að móttökunum sem Gerður veitir Skírni, því óðar en hún verður komu hans vör segir hún við ambátt sína: "Inn bið þú hann ganga í okkarn sal og drekka hinn mæra mjöð." Ég minni á að mær þýðir 'skær, bjartur' og bendi á skálina fulla af ljósi á spili Rachelar, kraftuppsprettu sem færir okkur undur og hnoss úr formlausri ólgu dulvitundarinnar. Gerður sver sig í móðurættina að því leyti að hún býr yfir krafti sem hefur erfst í kvenlegg frá kynslóð til kynslóðar og forfeður okkar jöfnuðu til gulls. (Fyrir þau sem eru kunnug Völuspá minni ég á Gullveigu sem var lögð spjótum og þríbrennd í höll Óðins, og lifir hún þó enn!). Þegar Skírnir svo í lok kvæðisins hótar að rista Gerði bölrúnir ef hún ekki gefist sólarguðinum afsalar hún sér bikarnum og sjálfstæðinu með þegar hún segir: "Heill ver þú nú heldur, sveinn, og tak við hrímkálki fullum forns mjaðar." Bikarinn og Gerður eru eitt.
  bikaraásinn
  úr Rider-Waite spilastokknum


  Í tarot stendur bikarinn sem fyrr segir fyrir ást og tilfinningar, ímyndunarafl og sköpun. Myndin sýnir hið helga gral sem riddarar arþúrssagnanna leituðu að og hefur nú fangað ímyndunarafl okkar nútímafólks sem þráum að tengjast þessari orku í sjálfum okkur. Í Arþúrshefðinni er gralið kaleikurinn sem Jesús notaði í síðustu kvöldmáltíðinni og Jósef frá Arimaþeu safnaði síðan blóði Krists í og hafði með sér til Englands. Skírnismál bera því hins vegar vitni að þetta helga tákn á rætur í miklu eldri hefð.
  sverðaásinn
  úr Rider-Waite spilastokknum


  Skírnir er aftur á móti sverðberinn og sverðið er tengt huganum, rökvísi, greind. Andstætt bikarnum sem sameinar ber sverðið í sér sundrandi kraft sem skilur hluti og fyrirbæri að. Slík aðgreining er vissulega forsenda rökvíss skilnings. En eins og Skírnismál bera með sér er árásargirni samofin sverðinu og því sem það stendur fyrir. Í tarot gefur sverðaásinn í skyn að leiðin upp í kórónu lífstrésins og andlega uppsprettu liggi í gegnum hugann. Á aðra hönd höfum við ólífugrein sem tákn fyrir sigur en á hina pálmagrein sem sýnir þjáninguna sem er hin hliðin á sigrinum og honum óhjákvæmilega samofin. Eins og Skírnismál berlega sýna og ástand heimsins vottar, höfum við sem tegund farið offari á leið okkar að þessu marki.

  Til að ná Gerði undan áhrifavaldi mánans og gera hana undirgefna sólarguðinum Frey reynir Skírnir fyrst að freista hennar með ellefu gulleplum. Í gegnum þetta gylliboð skín í freistinguna í Edensgarðinum þegar Eva lét fallerast og dauðleikinn kom til sögunnar. Í goðsögunni geymir Iðunn eiginkona Braga, guðs skáldskapar og orðlistar, gullepli í eski sínu og viðhalda þau eilífri æsku goðanna. Iðunn er sýnd sem viljalaust tæki í þjónustu guðanna, sem æskubrunnur þeirra og innblástur. Þetta er ekki hlutverk sem freistar Gerðar. Með því að hafna gulleplunum fellst hún á dauðleika sinn andstætt íbúum Ásgarðs sem eiga varanleika veldis síns undir Iðunnareplunum kominn. Í þessu liggur styrkur hennar. Hún veit að þróunarhjólið heldur áfram að snúast.

  Því næst býður Skírnir fram hring sem brenndur var með Baldri syni Óðins og af drjúpa átta jafnþungir níundu hverja nótt. Hér er reynt að toppa samninginn sem Freyja gerði við dverga til að eignast Brísingamen. Gullhringarnir eru jafnmargir nóttunum sem gæti verið vísbending um að þeir tengist gangi sólar. En í Gymisgörðum er enginn skortur á gulli og Gerður hafnar þessu boði.

  Þá grípur Skírnir til sverðsins og hótar að gera hana höfðinu styttri ef hún láti sér ekki segjast. En Gerður óttast ekki dauðann og kveðst aldrei munu þola ánauð af hálfu nokkurs manns. Hér erum við minnt á afhöfðun Medúsu hinnar grísku, sem eins og Gerður var dóttir sjávarguðs, en upp af blóði hennar spratt hinn vængjaði fákur, Pegasus, táknmynd skáldlegs innblásturs. Dauði, ummyndun, skáldskapur og sköpun eru þemu samofin hinni myrku hlið kvenlegrar náttúru.

  Þegar Gerður neitar staðfastlega að gefa sig grípur Skírnir til vandarins og kveðst munu temja hana til að láta að vilja sínum. Hvernig sú tamning skal fara fram hljóðar í hnotskurn svona: "Þar skaltu ganga sem karlar líta þig aldrei augum. Á eyðiþúfu skaltu dúsa, horfa burt úr heimi, glápa til heljar. Matur sé þér leiðari en gljáandi ormurinn mönnum. Verðir þú að undursjónum þegar út kemur, hrímþursinn glápi á þig, hvaðeina stari á þig... gapi þú grindum frá." Hér umhverfist sjálfkjörin einangrun Gerðar innan skíðgarðsins í ánauð. Grindurnar sem voru landamæri hennar og vörn skulu ljúkast um hana nauðuga. Paradísin sem karlinn átti ekki aðgang að, meyjarskemman, umturnast úr véum í fangelsi.

  Myndin sem Skírnir dregur upp fyrir Gerði ber sláandi svip af frásögnum Sir James Frazers í The Golden Bough á forboðum tengdum kynþroska og blæðingum stúlkna í frumstæðum samfélögum. Þarna sjáum við mennskar systur Gerðar lokaðar í dimmum og loftlausum búrum, allt upp í sjö ár. Þær mega ekki koma fyrir augu karla því það gæti fært hinum síðarnefndu ógæfu og jafnvel valdið þeim dauða. Þær mega ekki snerta jörðina, ekki horfa á heiminn, ekki sólina, stundum þurfa þær að fasta eða mataræði þeirra er afar takmarkað því að það sem þær láta ofan í sig hefur áhrif á tegundina alla. Í hreinsunarskyni mega þær þola að vera pískaðar með vendi án þess að æmta. Og við getum gert okkur í hugarlund hver "undursjón" indíánastúlka í Guiana hefur verið þegar hún kom út eftir að hafa hírst í hengirúmi undir rjáfri í kofa sínum í mánuð, þar sem hún var útsett fyrir tiltekna tegund af maurum - og það er tekið fram að þeir hafi verið stórir og bit þeirra sársaukafull, auk þess sem hún gat verið látin fasta nótt og dag allan þann tíma sem hún hafðist við í hengirúminu og var því beinagrindin ein þegar niður kom. Þetta er raunveruleikinn en ekki goðsögn. Jafnvel þótt Frazer haldi því fram að þessi tabú eigi að tryggja öryggi stúlkunnar ekki síður en umheimsins, sýna Skírnismál að karlinn hefur tekið sér það hlutverk að lemja illskuna úr konunni með "tamsvendi".

  Við viljum öll vinna gull úr því sem innra með okkur býr. Vandi okkar er hins vegar sá að efnið sem hefur erfst til okkar sýnir ferlið einhliða og undantekningarlaust frá karllægu sjónarhorni. Gullgerðarlistin var vettvangur karla, í goðsögum jafnt sem raunveruleikanum. Konum gafst ekki frelsi til að ummynda og fága sinn Óð á eigin forsendum heldur var þeim þröngvað til að laga sig að karllægu mynstri feðraveldisins.

  Þegar hér er komið sögu tekur Skírnir að gala Gerði galdra sem eiga að kalla yfir hana losta og þjáningar. Í gegnum þessar hótanir bergmálar bölvunin sem drottinn guð lagði á konuna í Edensgarðinum. Nú er það svo, að rannsóknir sýna að kynhvöt konunnar rís hæst í kringum blæðingar og við egglos en hagar sér með ólíkum hætti í hvoru tilviki. Í hinu síðara hneigist hún til að vera móttækileg og ástrík en í hinu fyrra áköf og krefjandi og líklegri til að hafa frumkvæði. Í fyrndinni veittu formæður okkar þeirri óhömdu orku sem blæðingunum fylgir í skapandi farveg í véum sínum en nú er tíðin önnur. Enda býður Skírnir Gerði að fá sér sæti áður en lengra verður haldið. Jötnagarðar skulu verða hennar helvíti þar sem djöflar munu þjaka hana og þrúga og skal hún ekki eiga annarra kosta völ en að dragnast dag hvern til hallar hrímþursans, sem hér er vitaskuld persónugervingur mánans sem konan hafði heilagt og skapandi samband við. Í þessu liggur vandi kvenna. Hér er viskubrunnur þeirra og sköpunarlind en kraftuppspretta þeirra hefur verið afskræmd og helguð hinum illa með þeim afleiðingum að þær geta átt erfitt með að nálgast skáldskapinn, músíkina, í sjálfum sér. Og Skírnir tilkynnir Gerði að grátur skuli koma í stað gleði og "skaltu," segir hann "leiða tregann með tárum."

  Og Skírnir færist enn í aukana. Hún skal draga fram lífið um aldur og ævi með þríhöfða þursi og ekki eiga annarra manna kost. Og hann bregður töfrasprotanum á loft, eys úr skálum reiðinnar yfir hina "firinillu mey" og ákallar sköpunarverkið til vitnis um að hann fyrirbjóði, fyrirbanni að hún skuli fá manns notið.

  Tabú við kynlífi meðan á blæðingum stendur er þekkt fyrirbæri og því rækilega gerð skil í biblíunni. Hér leggur Skírnir fyrst girnd á konuna og bannar henni síðan að veita kynorkunni útrás, hvort heldur er andlega eða líkamlega. Sálarmaki konunnar í þessum fasa frjósemishringsins hefur umturnast í hinn illa:

  Hrímgrímnir heitir þurs,
  er þig hafa skal
  fyr nágrindur neðan.

  Og nú býst hann til að rista henni rúnir: "Þurs ríst eg þér og þrjá stafi, ergi, æði og óþola." Hann kveðst þó geta rist þær af aftur fallist hún á að gefast Frey. Eins og skýrist af fornu rúnakvæði, "Þurs veldur kvenna kvillu; kátur verður fár af illu," tengist þursrúnin, þornið blæðingum konunnar. Þetta er vendipunkturinn. Sem fyrr segir bregst Gerður við þessu útspili Skírnis með: "Heill ver þú nú heldur, sveinn, og tak við hrímkálki fullum forns mjaðar." Í gegnum uppgjöf hennar óma orð Krists á krossinum: "tak þennan kaleik frá mér!" Og hún fellst á að unna Frey gamans í lundinum Barra að níu nóttum liðnum.
  coniunctio
  myndskreyting við ljóðið Sol og Luna
  úr Rosarium philosophorum


  Við sjáum hér myndskreytingu við ljóðið Sol og Luna úr víðfrægu riti gullgerðarlistarinnar, Rosarium philosophorum. Sólin er hér, eins og þið sjáið, í yfirskipaðri stöðu og karlkyns en máninn kvenkyns. Eins og ykkur er eflaust kunnugt er málfræðilegt kyn þessara fyrirbæra í rómönskum tungumálum öndvert við það sem er í germönskum málum. Þetta sýnir að kyngreining sólar og mána er menningarbundin en ekki náttúrulögmál. Sem orka eru þessi fyrirbæri handan kyngreiningar. Á neðri myndinni sjáum við getnaðinn sem hlýst af samrunanum. Öndvert við dótturina Hnoss sem Freyja gat með Óði er hið táknræna afkvæmi hér karlkyns.

  Í Ynglingasögu, þar sem saga og goðsaga renna í einn farveg, er Freyr sagður dróttinn Svía. Kona hans hét Gerður Gymisdóttir og áttu þau soninn Fjölni.

  Eins og áður sagði hafa Skírnismál verið túlkuð sem skáldleg útfærsla á heilögu brúðkaupi sólarguðsins og jarðarinnar sem hann frjóvgar að vori. Að því hefur verið leitt getum að ljóðið hafi verið ætlað sem helgileikur og skyldi flutt á vetrarsólhvörfum þegar sólarguðinn er þrotinn að kröftum og einungis brúðkaup hans og Gerðar getur snúið ferlinu við. Þessi túlkun lítur fram hjá hrottalegri undirokun kvenkyns persónu af hálfu karlkyns persónu sem er erindreki sólarguðsins og þar af leiðandi sá sem hefur sögusamúðina með sér í þessu valdatafli. Sumir hafa kallað kvæðið ástarsögu. Í dag myndum við túlka inntak þess sem andlegt ofbeldi. Í ljósi styrks Gerðar, staðfestu og sjálfstæðis virðist allur sá aragrúi sagna um björgun hjálparvana kvenna úr greipum jötna fölsun ein á sögu mannsandans, þótt á hinn bóginn sýni þessar sögur jafnframt afleiðingar bælingarinnar og ótta kvenna við kraftinn sem gerir tilkall til þeirra.

  Ef Freyr og Gerður standa fyrir Sól og Jörð, eru þau jafnframt fulltrúar fyrir öfl sem búa í okkur mannfólkinu. Samskipti þeirra endurspegla þá mynd sem þessi öfl hafa tekið á sig í mannlegum samskiptum á jarðnesku plani. Og ennfremur, ef Gerður er fulltrúi Jarðar, afhjúpar ljóðið vægðarlaus og tortímandi yfirráð mannsins yfir náttúrunni.
  máninn
  úr Rider-Waite spilastokknum


  sólin
  úr Rider-Waite spilastokknum


  Í hnotskurn getum við sagt að máninn færi okkur dýrmæta gjöf sem er ímyndunarafl, sköpunarkraftur og tilfinning fyrir leyndardómi sem gefur lífinu lit og dýpt en sólin skýra sýn og rökvísi. Mig langar í lokin að gera orð Williams Blake (1757-1827) að mínum en hann hélt því fram að ekki bæri að gera rökvísinni hærra undir höfði en ímyndunaraflinu.
  bikaratvisturinn
  úr Rider-Waite spilastokknum


  Við endum á að bregða upp bikaratvistinum þar sem hið kvenlæga og hið karllæga standa andspænis hvort öðru sem jafningjar og upp af sambandinu rís stafur Merkúríusar, táknmynd sem læknastéttin hefur gert að auðkenni sínu og boðar heilun.


  Helstu heimildir:

  Amberstone, Ruth Ann og Wald. The Tarot School Correspondence Course.

 • The Tarot School

  Eberhard, Wolfram. A Dictionary of Chinese Symbols: Hidden Symbols in Chinese Life and Thought. Þýtt úr þýsku af G. L. Campbell. Routledge, 1986.

  Frazer, Sir James G. The Golden Bough: A Study in Magic and Religion, I, stytt útgáfa. New York, 1958.

  Guðni Jónsson, ritstj. "Sörla þáttr." Fornaldar sögur Norðurlanda, I. Reykjavík, 1976.

  Hallfríður Jakobsdóttir-Ragnheiðardóttir. "Helgar tíðir". Lesbók Morgunblaðsins, 3. apríl 2004.

 • Helgar tíðir

  Jung, C. G. Alchemical Studies., CW. 13 (1967). Þýtt úr þýsku af R. F. C. Hull. Princeton, N.J. 1983.

  Jung, C. G. The Archetypes and the Collective Unconscious, CW. 9, I (1959). Þýtt úr þýsku af Ralph Mannheim. Princeton, N.J., 1991.

  Neumann, Erich. "On the Moon and Matriarchal Consciousness." Þýtt úr þýsku af Hildegard Nagel. Spring, 1954.

  MacCulloch, John Arnott. The Mythology of All Races, II, 125 ("In this passage Snorri does not explain how Freyja both remains at home and wanders in search of Od."), Boston, 1930.

  Matthías Viðar Sæmundsson. Galdrar á Íslandi: Íslensk galdrabók. Reykjavík, 1992.

  Moon, Beverly, ritstj. "The Ecstasy of Saint Teresa" í An Encyclopedia of Archetypal Symbolism, I. Shambala, 1997.

 • ARAS: Archive for Research in Archetypal Symbolism

  Pollack, Rachel. The Shining Tribe Tarot: Awakening the Universal Spirit. Llewellyn, 2001.

  Pollack, Rachel. Tarot Wisdom: Spiritual Teachings and Deeper Meanings. Llewellyn, 2008.

 • Rachel Pollack

  Sigurður Nordal. Völuspá. Reykjavík, 1952.

  Simek, Rudolf. Hugtök og heiti í norrænni goðafræði. Ritstj. Heimir Pálsson; ísl. þýðing Ingunn Ásdísardóttir. Reykjavík, 1993.

  "Skírnismál" í Eddukvæði, Gísli Sigurðsson sá um útg. Reykjavík, 1998.

  "Skírnismál" í Eddu kvæði, I, Ólafur Briem annaðist útg. Reykjavík, 1985.

  Weideger, Paula. Menstruation and Menopause: The Physiology and Psychology, the Myth and the Reality. New York, 1976.
  Illustrations from the Gill Tarot and Rider-Waite Tarot Deck®,
  known also as the Rider Tarot and Waite Tarot,
  reproduced by permission of U.S. Games Systems, Inc., Stamford, CT 06902 USA.
  Copyrights © 1991 and 1971 respectively by U.S. Games Systems, Inc.
  Further reproduction prohibited.
  The Rider-Waite Tarot Deck® is a registered trademark of U.S. Games Systems, Inc.
  Illustrations from Tarot of Northern Shadows reproduced by permission of the company © 1997 AGM AGMuller Urania, Switzerland.
  Further reproduction prohibited.
  Myndir úr The Shining Tribe Tarot
  birtar með góðfúslegu leyfi höfundar.  Helgar tíðir


  grein birt í Lesbók Morgunblaðsins
  3. apríl 2004


  "Vel keypts litar hefi eg vel notið," eru orð lögð Óðni í munn þegar hann hefur legið þrjár nætur með Gunnlöðu í undirheimum og haft á brott með sér skáldamjöðinn sem henni hafði verið falið að gæta. (1) Svo hljóðar í hnotskurn sögnin af ráni hins "dýra mjaðar". Æ síðan hefur stuldur Óðins verið lofsunginn sem grundvallardáð og "því köllum vér skáldskapinn feng Óðins og fund og drykk hans og gjöf hans og drykk ásanna," segir Snorri Sturluson. En hvað með Gunnlöðu, þráspurði ég sjálfa mig. Af hverju hverfur hún gersamlega úr sögunni? Þetta stóð í mér.

  Í Völuspá er sögð athyglisverð saga af Gullveigu sem var lögð spjótum og margbrennd í höll Óðins, en þó lifir hún enn. Veig þýðir hvort tveggja 'drykkur' og 'kraftur' sem bendir til að Gullveig sé persónugerving fyrir kröftugan safa sem er gulls ígildi. Mætti þá sýnast nærtækt að tengja hana hinum "dýra miði". Holdgerving hennar í mannheimum er völvan Heiður, úthrópuð sem angan illrar brúðar og er þar bersýnilega vísað til frjósemis- og ástargyðjunnar Freyju sem var lærimóðir Óðins og kenndi honum seið.

  Hver var þessi leyndardómsfulla Gullveig sem ýmist er talin fórnarlamb eða orsök fyrsta "fólkvígs í heimi"? Fyrir hvað stendur hún? Svarið tel ég að sé að finna í Brísingameni Freyju sem felur í sér táknmynd af samræði sólar og mána. Nafngiftirnar Gullveig og Heiður, sem báðar tengjast Freyju, eru sveipaðar ljóma sem undirstrika samsömun hennar við sólina. Hvað Mána varðar lifir sú trú enn meðal frumstæðra að hann sé valdur að blæðingum konunnar. Gullveig hin ódauðlega væri þá persónugerving fyrir eilífa framrás tíðablóðsins sem hvorki spjót né eldur fá stöðvað.

  Þessi opinberun leiddi af sér aðra: hrópandi þögnina sem ríkir um svo mikilvægan þátt í lífi hverrar konu sem blæðingarnar eru. Í þjóðsagnasafni Jóns Árnasonar er að finna eina sögn sem fjallar umbúðalaust um þetta efni og ber hún yfirskriftina Gandreiðin. Hér er sagt frá tólf prestfrúm sem fara gandreið í Svartskóla hverja jólanótt að nema galdur hjá fjandanum. Þegar kemur að því að greiða kennslugjaldið tekur hver og ein upp hjá sér glas með tíðablóði sínu en kölski sýpur úr og skilar svo glösunum aftur. Þegar upp kemst um eina lærimeyna og þá sem skaraði fram úr í fræðunum er hún ekki tekin neinum vettlingatökum fremur en Gullveig forðum, heldur eru henni "goldin makleg málagjöld sinnar illsku." Gandreiðin endurspeglar viðleitni kvenna til að endurheimta náttúrulega gáfu tengda blæðingum þeirra sem hefur verið afskræmd og frá þeim tekin með hræðsluáróðri og bælingu,

  Goðsögur eru sálarspegill þess samfélags sem þær eru sprottnar úr. Að tíðablóð skuli þar ekki nefnt sínu rétta nafni á eflaust rætur í bannhelgi sem tengdist ótta frumstæðrar vitundar við að kalla yfir sig blóð frumverunnar Ymis eða Aurgelmis. Í dag stöndum við frammi fyrir þeim öndverða háska að rofna frá náttúrulegum uppruna okkar. Goðsögurnar glæða skilning okkar á því hvaðan við komum og hvert við stefnum. Og þær geta jafnframt hjálpað okkur að ná tengslum við hvatir okkar og tilfinningar, því að gyðjur þeirra og guðir eru lifandi öfl í sálarlífi okkar enn í dag þótt í nýjum búningi sé.

  Freyja


  Freyja
  silfurmen frá 800-1050
  í eigu Statens historiska museum í Stokkhólmi


  Freyja umvefur þungaðan kvið sinn örmum. Þemað endurtekur sig í Miðgarðsormi sem hringar sig utan um líkama gyðjunnar og myndar umgjörð mensins. Um hálsinn ber hún sitt nafntogaða Brísingamen. Eins og slangan sem endurnýjar sig með því að kasta gamla hamnum er Brísingamen tákn fyrir eilífa hringrás dauða og endurnýjunar. Hringar og men tengjast innsæi völvunnar í Völuspá. Freyja er formóðir völva. Af henni námu æsir hinn helga seið sem opnaði hlið hulinna heima.

  Í leit sinni með ókunnum þjóðum að eiginmanni sínum, Óði, er hún orkan sem knýr okkur áfram í sársaukafullri leit að ást og uppfyllingu sköpunargáfu okkar. Yfirgefin, grætur hún tárum úr rauðu gulli. Um Óð er ekkert vitað annað en nafnið. Það þýðir í senn skáldskapur og þær áköfu hræringar sem hann er sprottinn úr. Dóttir þeirra nefnist Hnoss.

  Hún ekur í vagni sem er dreginn af tveimur köttum. Og hún er líka tvírætt tákn þar sem saman fara heilandi kraftur hvíta kattarins sem er kenndur við sól og ókennileiki hins svarta sem tengist mána og landi dáinna. Óhrædd gefur hún sig kattareðlinu á vald, lætur það leiða sig inn á myrka stigu hins ókunna og ber þaðan gersemar inn í heim ljóssins. Kötturinn er sjálfstæð skepna. Hún bendir okkur á að treysta honum. Ratvísi hans er óbrigðul, hann veit hvert halda skal.

  Sögnin af tilurð Brísingamens er lýsandi fyrir hlutverk hennar sem miðlara. Hún kemur að steini sem stendur opinn. Inni fyrir eru fjórir dvergar að smíða gullmen. Hún dregst að meninu, hana langar í það og hún býður fram gull og silfur og góða gripi. Dvergunum finnst hún að sama skapi hrífandi. Þeir gera henni skiljanlegt að þá skorti ekki gull og vilja þá borgun eina að hún sofi sína nóttina hjá hverjum þeirra. Hún gefur sig og kemur til baka með hnossið.

  Brísingur er eldsheiti en men er samhljóða indó-evrópsku rótinni men sem þýðir 'máni'. Af sömu rót er runnið latneska orðið mens sem á merkingarlega skylt við þann óð sem sungið er um í Völuspá og við köllum sál. (3) Ævintýri Freyju vekur upp mynd af sólinni sem gengur undir og gefst "fereinum" mána sem sökkvir sér í eldheitt skaut hennar svo rauðar glæðurnar blæða undan biksvörtum lim hans og mynda logandi djásnið. Séð í þessu ljósi er Brísingamen táknrænt fyrir heilagt brúðkaup (4) Freyju og Óðs sem á sér samsvörun í sólmyrkva á himni. Heilandi orka sameiningarinnar er undirstrikuð af tölunni fjórir sem er algilt tákn fyrir heilleika.

  Máninn hafði töframátt og það höfðu konur einnig þegar þær voru á blæðingum en þær tengdust jafnan nýju tungli, þegar sól og máni eru samtengd sem kallað er og nóttin dimm. Tíðablóð gyðjunnar seytlar í feluorðum og hálfkveðnum vísum um goðsagnir feðraveldisins. Í þjóðsögum síðari tíma hefur gullin uppspretta hennar umbreyst í staðnaðan pytt, sem vekur ugg og laðar í senn. Í því djúpi liggur fólginn lykill að sköpunarkrafti kvenna og sjálfi.

  Undirheimaför Freyju, sem hefðin hefur túlkað sem birtingarmynd lostasemi og græðgi, er táknræn fyrir andlegan getnað sem boðar ummyndun og endurfæðingu. Hún sýnir aðdráttarafl undirvitundarinnar sem knýr á og konuna sem náttúrulegan miðil á milli hins óborna og heims vitundar og ljóss.

  Blæðingar


  Kona á blæðingum
  máluð tréskurðarmynd
  eftir óþekktan 18. aldar listamann
  frá Suður-Indlandi


  Tilkomumikil hálsfestin á nöktum líkama hennar er sýnilega meira en skrautið eitt. Í táknmáli sem tengist blæðingum verður hálsinn gjarnan staðgengill fyrir ósýnilegan leghálsinn. Hér skírskota útlínur djásnsins til innri kynfæra hennar og helgidóms en sólstafirnir umhverfis hálsinn til frumlægrar, lífgefandi orku tíðablóðsins.

  Laufið sem bylgjast líkt og gróskumikill haddur út frá blóminu yfir höfði hennar, kveikir tilfinningu fyrir andlegri vídd blæðinganna og blæðandi skautinu sem uppsprettu grósku og gnægðar. Verkið vekur okkur til skilnings á að blómgun konunnar á rætur í jarðvegi tíðablóðsins. Það afhjúpar það sem henni hefur verið kennt að fela: blóðið sem fossar út skauti hennar. Lífgefandi orku þess hefur menning okkar gert útlæga og hrakið inn í uggvekjandi óbyggðir sálarlífsins.

  Kynngimagn tíðablóðsins vakti tvíræðar tilfinningar í brjósti mannsins. Á aðra hönd var það talið hafa lækningarmátt og gróðrarmegin auk þess að vera kröftugur ástardrykkur en á hina var það álitið óhreint og mengandi. Og sama gilti um konuna meðan hún var á blæðingum. Hvaðeina sem hún komst í snertingu við var álitið mengað og eyðileggingu undirorpið. Og með því að hún var óhrein í augum umheimsins var henni hætt við að slitna úr tengslum við sköpunarlind sína.

  Í frumstæðri heimsmynd var því trúað að barnsfóstur væri "mótað úr blóðinu sem hættir að flæða meðan á þungun stendur." (Neumann [1991]: 31) Í því ljósi séð fela blæðingar í sér dauða og upplausn formgerðar og mynda frjósaman jarðveg fyrir nýtt skeið og nýja möguleika. Þær bera í sér þróunarkraft sem goðsögur gefa okkur tilefni til að ætla að hafi þrýst manneskjunni út úr meðvitundarleysi dýrslegrar náttúru.

  Blæðingarnar tjá sig á myndmáli drauma. Orka þeirra íklæðist gjarnan gervi reiðskjótans, einkum hestsins sem rennur fram eins og ólm og hraðskreið aldan. Eiginmaður Sólar nefndist Glenur en það er hestsheiti. Í þessum jarðvegi liggja rætur Freyju-Mardallar (5) sem sökkti sér í rauðgullinn sæ og leitaði brúðguma síns Óðs, en Óður er í senn tákn fyrir þær ástríðufullu hræringar sem eru hráefni skáldskapar og hið fullgerða verk, sjálft ljóðið. Um þetta sungu skáldin og kölluðu tíðablóð gyðjunnar tár.

  Tónninn sem sleginn er við fyrstu blæðingar ungrar stúlku endurómar í hvert sinn sem ferlið endurtekur sig. Hann getur orðið henni lykill að ómkviðu verunnar eða stuðlað að ósamhljómi hennar við eigið sjálf. Í fjölmörgum ættbálkasamfélögum eru viðhafðir sérstakir helgisiðir þegar stúlka stendur á þessum miklivægu mótum barns og konu. Oft þjóna þeir þeim tilgangi að "móta" hana fyrir hefðbundið hlutverk eiginkonu og móður en í öðrum tilvikum er tekið mið af andlegum þörfum hennar sem einstaklings. Er hún þá látin vera ein með sjálfri sér, stundum í kofa úti í skógi, svo að mikilvægur draumur eða sýn sem kynni að vísa henni veginn eigi greiðan aðgang að henni. Við þessar aðstæður getur hún líka öðlast tiltekinn verndaranda, eða dýrafylgju sem miðlar henni krafti sínum og eiginleikum. Hún gæti verið kölluð til að verða læknir eða shamani, en í öðrum samfélögum og hjá öðrum einstaklingum kemur slík köllun ekki fyrr en við tíðahvörf. (Høst: 4). Sú trú hefur verið lífseig að þegar kona hættir á blæðingum beri hún hið vísa blóð í æðum sínum. Nornaveiðar miðalda, sem beindust að öldnum jafnt sem ungum konum, hafa verið raktar til óttans við þetta blóð. (Grahn: 262; Shuttle og Redgrove: 6. kafli)

  Sá siður að konan færi afsíðis meðan hún var á blæðingum, hvort heldur í sérstakan kofa eða myrkan kima hússins, hefur verið tíðkaður um víða veröld frá ómunatíð. Myrkur var lykilatriði, því að á þessu skeiði frjósemishringsins er hún hrifin inn í röklausan heim handan vitundarmarka, læst í dularfull armlög við svartan mána. Hér kemst hún í snertingu við kveikjuna að ljóðinu sem er innblásið af hennar sanna sjálfi, er hún eins og hún getur fullkomnust orðið. Þetta er gjöf sem gerir kröfu til að hún sé þegin. Viðhorf menningarinnar, mótað af arfi fortíðar, gerir nútímakonunni erfitt um vik að svara erótísku ákalli sköpunarlindar sinnar og meðfæddrar gáfu. Ef hún bælir þessa gjöf og forsmáir, ríður hún óskáldlegri tuskunni og blessun umhverfist í bölvun.

  Völva


  Sýrlenska gyðjan Atargatis
  (Dea Syria)
  Museo Nazionale delle Terme í Róm


  "Svo er skrifað Pythea í Delfis, hvar er var hið sérlegasta hof, hafi setið yfir tripode með útvíkkuðum lærleggjum og spáð svo með leyndarlimnum." Þannig lýsir séra Páll Björnsson hofgyðjunni Pýþíu í bók sinni Character Bestiæ (bls. 23). Ég reyni að lifa mig inn í hatrið í sál hans. Hlusta á guðinn í brjósti hans kveða upp sinn dóm: Brenna hana, brenna hana! Það er meðalið sem dugir til að skíra jörðina af þessum óhreinindum, þessum sora!

  Sjö manns fuðruðu upp á bálinu fyrir tilstilli séra Páls sem var talinn einn lærðasti Íslendingur 17. aldar. Python er eitt þeirra nafna yfir þjóna satans sem prófasturinn tínir upp úr heilagri ritningu en það "merkir belg eða flösku meðal hebreskra og þá djöfla, sem af leyndum pörtum mannsins líkama gáfu andsvar." (Sama rit og bls.) Eitri þessu spúðu púkarnir einkum úr "kvenmannsins leyndarlim". Gróteskar lýsingar séra Páls kunna að varpa ljósi á hvers vegna konur eiga í svo stríðu sambandi við blæðandi legið í sér.

  Lítum á Python, en svo hét slangan sem guðinn Apolló drap í Delfí til að ná véfréttinni sem hún réði yfir á vald sitt. Upprunalega var slanga þessi nafnlaus og kvenkyns en öðlaðist síðar nafn og varð karlkyns. Náttúran var spegill sem gerði frumstæðu fólki kleift að glöggva sig á atferli sínu og innri hræringum. Í henni leitaði það að samsvörun við kvenlíkamann til að finna lykil að leyndardómsfullri starfsemi hans. Og það hefur séð tiltekin samkenni með slöngunni sem eyðir drjúgum líftíma sínum í jörð, falin, líkt og legið í líkama konunnar. Hvort tveggja slangan og legið endurnýjar sig, yngir sig upp, með því að losa sig við gömlu húðina. Líku gegnir um mánann sem skerðist og kviknar nýr. Þess vegna urðu slangan og máninn samtvinnuð í hugum fólks og hvort tveggja tengt blæðingum kvenna.

  Eins og konan dró sig í hlé þegar hún var á blæðingum og gafst á vald draumum sínum og sýnum, skríður slangan í jörð og leggst í dvala og máni hverfur inn í skugga sinn á himni. Og eins og völvan sækir visku sína inn í annan heim var slangan talin kunna skil á öllum leyndardómum jarðarinnar, enda jafnan sú sem gætir töframeðalsins í ævintýrunum.

  Völvan var kölluð Heiður eins og fram kemur í Völuspá og fornum sögnum. Orðið ber með sér birtu og tign en vísar jafnframt til villtrar lyngi vaxinnar heiðarinnar með vötn sín full af undri. Sagnir segja að völvan hafi borið staf. Hann var kallaður gandur og er þess vegna gæddur táknrænni merkingu. Völur er líka heiti yfir staf og hefur þar verið leitað að uppruna orðsins völva. Stafur er gróið veldistákn sem okkur er tamt að tengja við hinn karllega getnaðarlim. Ekki þarf að fara í grafgötur um að vald hefur völvan haft og það mikið. Og eins og fram kemur í orðum séra Páls um Pýþíu hefur konan lim ekki síður en karlinn. Munurinn er sá að hann er raunverulegur leyndarlimur, falinn í helgum véum hennar. Ógn og lotningu hefur sá hulduheimur vakið í brjóstum þeirra sem ekki höfðu af honum beina reynslu. Sumir tala um öfund.

  Völva hefur verið rakið til latnesku sagnarinnar volvere 'snúa, velta' (4) en af henni er leitt volva, vulva sem upprunalega þýðir 'leg' en færðist síðar yfir á ytri sköp konunnar. Sögnin volvere er notuð um snúning himintungla á braut sinni og einnig um hringferli atburða, árstíða o.s.frv. og tengist þannig bæði tunglmánuði og tíðum kvenna, og hún vísar líka til bugðóttrar hreyfingar slöngunnar. Enn fremur er hún notuð um öldótt eða ákaft rennsli og eru sagnirnar vella, velta(st) (byltast fram), valla (vella, sjóða) runnar af sömu rót. Allt bendir það til að völva eigi rætur í launhelgum konunnar sem er á bullandi túr.

  Eins og volvere hefur orðið túr í sér fólgið hringferli og því skylt er sögnin að turna sem, eins og volvere, gefur til kynna umsnúning. Þar með er því gefið undir fótinn að þegar konan er á mánaðarlegu "ferðalagi" sínu sjái hún hluti og fyrirbæri frá sjónarhorni sem er öndvert venjubundinni sýn. Hún losnar úr viðjum takmarkaðs rökheimsins og kemur til baka með dýran fróðleik í farteskinu. Hnossin, Gersemin, það er hún sjálf endurborin.

  Það heyrist haft í flimtingum að konan sé öfug og snúin þegar hún er á túr. Hún er utan við sig og henni er hættara en ella við slysum. Hún er skapstirð og pirruð. Það er togað í hana innan frá en hún þarf að standa sig í mannheimum og streitist gegn þessu innra ákalli sem hún veit ekki hvaðan kemur né hvert erindi á við hana. Einhvers staðar djúpt inni í sér veit hún það eitt að umfram allt má hún ekki feta í fótspor Evu sem dirfðist að fylgja sinni innri rödd og gerði mannkynið þar með útlægt úr paradís meðvitundarleysisins. En nú er björg í sjónmáli. Lyfjaframleiðendur eru að markaðssetja pillu sem á að bjarga henni frá sjálfri sér. Með Seasonable þarf hún ekki að fara á túr nema fjórum sinnum á ári! Þetta eru heiðarleg vísindi. Nú verður hún loksins til friðs á heimilinu, atvinnurekendur fá stöðugri vinnukraft og lyfjafyrirtæki munu moka til sín auði. Á meðan hleðst upp í hellum og afkimum undirheima gullið rauða sem náttúran ætlaði til andlegrar framþróunar mannkynsins. Þar blundar þessi orka í strangri vörslu forynja sem við óttumst, meðal hinna ósnertanlegu sem við fyrirlítum.


  Tilvísanir:

  1) Hávamál, v. 107.

  2) Viðtekin skilgreinining á Gunnlöðu er 'sú sem laðar til orrustu' en gunnur þýðir 'orrusta, bardagi'. Hitt kann að skipta máli í samhengi hlutanna að gunnur er skylt gandur sem var heiti á spástaf völvunnar. Í ritskýringum er fólkvíg ýmist talið eiga við víg Gullveigar eða svo litið á að dráp hennar hafi leitt til orrustu.

  3) Af ie. men er leitt lat. mensis og gr. men 'mánuður' og mene 'máni'. Í hinu fornenska söguljóði Bjólfskviðu kemur við sögu Brosingamene sem er jafnan nefnt í sama orði og Brísingamen Freyju. Úr þessum jarðvegi eru sprottin ensku orðin menstruation og menses sem standa fyrir blæðingar kvenna. (Webster's New World Dictionary, 1978).

  Í grein sinni "On the Moon and Matriarchal Consciousness" hrekur jungíski sálfræðingurinn Erich Neumann "viðleitni" orðsifjafræðinnar til að aðgreina "mána"-rótina men frá latneska orðinu mens sem stendur fyrir andann (spirit) og stilla þeim upp sem andstæðum. Neumann rekur hvort tveggja merkingarsviðið aftur til sömu frumrótar í sanskrít, mati-h, sem annars vegar þýðir 'hugsun, ásetningur' en hins vegar 'mæling, vitneskja, fróðleikur', og hann hnykkir á því að sú margþætta merking sem þaðan hefur kvíslast eigi sér eina óskipta rót. Sú rót sé "mána-andinn" og jarðvegur hennar hjartað. (Spring 1954, bls. 84-85; 90).

  "Óð gaf Hænir," segir í Völuspá (v. 18) þar sem greint er frá sköpun mannsins. Í útskýringum á þessu vísuorði telur Sigurður Nordal orðið óðr "samsvara alveg" latneska orðinu mens og hann skýrir það svo: "Óðr er 'guðsneistinn' í manninum, sem verður fyrir áhrifum æðri afla... Því heitir skáldskapur óðr, og því er skáldamjöðurinn varðveittur í Óðreri (Óð-hræri)." (Völuspá, bls. 73).

  4) Heilagt brúðkaup (hieros gamos) er sálræn formgerð (erkitýpa) sem stuðlar að skapandi einingu andstæðna og myndar þannig brú á milli undirvitundar og hins meðvitaða huga. (Jung: 174)

  5) Döll er 'hin bjarta, sú sem ljómar'. Mar þýðir hvort tveggja 'hestur' og 'sjór', þá skylt fær. marra 'mýri, fen, for' og fleiri orðum áþekkrar merkingar, enda er það talið ólíklegt "að orðstofninn hafi í öndverðu átt við sjó eða úthaf." (Ásgeir Blöndal. Íslensk orðsifjabók. Rvk. 1989) Líkingin við tíðablóð er auðsæ í þessari merkingu orðsins.

  6) Lotte Motz telur að völva sé skylt indó-evrópsku rótinni uel- sem er samstofna latnesku sögninni volvere. ("Sister in the cave." ANF 95 [1980]: 180) Helga Kress tekur í sama streng í bók sinni Máttugar meyjar og telur að merkingin 'velta, snúa' vísi til leiðslunnar sem völvan fellur í, hæfileika hennar til að sjá yfir í annan heim. Hún bendir jafnframt á það í aftanmálsgrein að orðið kunni einnig "að standa í einhverju sambandi við e. vulva sem merkir ytri sköp kvenna." (1993: 35)


  Heimildir:

  Ásgeir Blöndal. Íslensk orðsifjabók. Reykjavík, 1989.

  Encyclopædia Britannica. University of Chicago, 1984.

  Encyclopedia of Taboos: "Menstruation." Oxford, 2000.

  Grahn, Judy. Blood, Bread and Roses: How Menstruation Created the World. Boston, 1993.

  Guðni Jónsson, ritstj. "Sörla þáttr." Fornaldar sögur Norðurlanda, I. Reykjavík, 1976.

  Høst, Annette. "Blessed by the Moon: Initiation into Womanhood." Á vefsíðu Scandinavian Center for Shamanic Studies - http://www.shamanism.dk/.

  Jung, C. G. The Archetypes and the Collective Unconscious, CW. 9, I (1959). Þýtt úr þýsku af Ralph Mannheim. Princeton, N.J., 1991.

  Neumann, Erich. "On the Moon and Matriarchal Consciousness." Þýtt úr þýsku af Hildegard Nagel. Spring, 1954.

  Neumann, Erich. The Great Mother (1955). Þýtt úr þýsku af Ralph Mannheim. Princeton, N.J., 1991.

  Oxford Latin Dictionary. Ritstj. P.G.W. Glare. Oxford, 1982.

  Páll Björnsson. Kennimark kölska (Character Bestiæ). Útg. annaðist Lýður Björnsson. Reykjavík, 1976.

  Shuttle, Penelope og Peter Regrove. The Wise Wound: The Myths, Realities, and Meanings of Menstruation (1978). New York, 1986.

  Sigurður Nordal. Völuspá. Reykjavík, 1952.

  Snorri Sturluson. Edda. Ritstj. Guðni Jónsson. Reykjavík, 1935.

  Von Franz, Marie-Louise. The Cat: A Tale of Feminine Redemption. Toronto, 1999.

  Weideger, Paula. Menstruation and Menopause: The Physiology and Psychology, the Myth and the Reality. New York, 1976.


  Gröndal og gróteskan


  tilraun til túlkunar á Gandreið Benedikts Sveinbjarnarsonar Gröndals


  grein birt í Tímariti Máls og menningar 3:94
  Grótesk lífssýn - frá karnivalmenningu miðalda til rómantíkur

  Í ritgerð sinni "Um vísindi, skáldskap og listir á miðöldum" fjallar Benedikt Gröndal um svokölluð "mysteria", en því nafni nefndust "guðrækileg leikrit" sem nutu mikill vinsælda á miðöldum. "Urðu þau svo almenn," segir Benedikt, "að loddarar léku þau í fjalabúðum á torgum úti." (1) Leikjunum lýsir hann með svofelldum hætti: "Oft var það að 'mysteria' þessi voru látin fara fram á þrem stöðum í einu, í helvíti, á jörðinni og í himnaríki, og var leiksviðið þá með þremur pöllum. Efni leikritanna var stundum skáldlegt, en það gat eigi notið sín, því meðferðin lýsti fákænsku og smekkleysi; öllu var hrúgað saman án hugsunar og reglu, veraldlegu og andlegu, guðlegu og óguðlegu, og aldrei mátti fífl vanta til að fremja allskyns skrípalæti, þó leikritið væri alvarlegt og efnið tekið úr heilagri ritningu" (R.III/85). Þetta smekklausa leikhús markaðstorgsins, eins og Benedikt kallar það, á engu síður ættir að rekja til sömu róta og skopleikur hans sjálfs sem hér er til umfjöllunar, nefnilega ævafornrar heimspeki hins gróteska raunsæis. Hvað blómlegasta útrás fékk þessi eldforna lífssýn í karnivalmenningu miðalda en öðlaðist síðar aukna félagslega dýpt er hún var hafin til vegs í bókmenntum endurreisnar. Ber þar hæst verk François Rabelais sem, að sögn Mikhails Bakhtíns, voru uppgötvuð og hyllt af forkólfum rómantíkurinnar, án þess þó að þeir næðu að skilja þau til fulls.

  Grótesk lífssýn einkennist af andófi gegn öllu sem er endanlegt og fágað, gegn hvers kyns opinberum sannleika og tilbúnum lausnum á sviði hugsunar og heimsskoðunar. Það var því að vonum að alþýðumenning evrópskra miðalda sem grundvallaðist á þessari heimspeki drægi að sér athygli rómantíkeranna sem voru að brjótast út úr formfestu nýklassíkur. En það sem varð utangarðs í rannsóknum Herders og annarra kenningasmiða stefnunnar, segir Bakhtín, var markaðstorgið og hláturmenningin. Áhugi þeirra beindist fyrst og fremst að goðafræðinni, alþýðukveðskapnum og epíkinni. (2)

  Á síðari hluta 18. aldar brutust út deilur í Þýskalandi um Harlekín, þjóninn og elskhugann kátbroslega sem var ein aðalfígúran í fastmótuðu persónusafni ítölsku gamanleikjanna, commedia dell'arte. Þótti Harlekín ómissandi þátttakandi í öllum leiksýningum þessa tíma, jafnvel þeim sem voru af alvarlegra taginu. Þessu vildu forsprakkar klassísismans ekki una og kröfðust þess að hann yrði gerður útlægur úr virðulegu leikhúsi alvarleikans. Leikritaskáldið og gagnrýnandinn Gotthold E. Lessing, sem varð fyrstur þarlendra til að hrista af sér viðjar klassísismans og beina sjónum landa sinna að "óbeisluðum lífsþrótti og sköpunarkrafti" Shakespears, (3) dró taum Harlekíns í þessum deilum, og svo gerði einnig Justus nokkur Möser í ritgerð sem hann kallaði "Harlekín, eða vörn fyrir hið grótesk-kómiska" (Harlekin, oder die Verteidung des Grotesk-Komischen). Sagði Möser að þessi gróteski karakter væri hluti af sérstökum heimi sem hefði sitt eigið lögmæta skipulag og sinn eigin mælikvarða á fullkomleika sem lyti ekki estetík hins fagra og háleita. En glámskyggni höfundarins kemur meðal annars fram í því að hann leit á heim Harlekíns, commedia dell'arte, sem andstæðu hins "lágkúrulega" leikhúss markaðstorgsins. (R/35)

  Ekkert var svo háleitt í heimi gróteskunnar að það ætti sér ekki sína skoplegu hlið. "Skrípalæti" neðri aflanna (les diableries) í mysteríuleikjunum sem Benedikt gerir að umfjöllunarefni voru dæmigerð birtingarmynd hins gróteska raunsæis, einn þáttur í margslungnu andsvari alþýðumenningarinnar við drungalegum alvarleika miðaldakirkjunnar. Gróteskt raunsæi er í hnotskurn andsvar við opinberri menningu. Það heldur fram þeirri hlið mannlegs veruleika sem ríkjandi öfl leitast við að bæla niður og breiða yfir. Í ströngum trúaraga miðalda fengu menn létt af sér hömlunum í karnivali markaðstorgsins sem var eins konar umsnúinn heimur, skopstæling á venjubundnum heimi hversdagslífsins, sem menn lifðu í dögum og jafnvel vikum saman. Grundvallaratriði í karnivalmenningunni var afnám allrar stigskiptingar. Í heimi hennar voru allir jafnir, háir sem lágir, ungir og aldnir, samskipti manna af öllum stéttum einkenndust af fullkomlega óheftum kumpánleika og frelsi undan velsæmisreglum hins venjubundna lífs. Þessi frjálslega afstaða og jafnræði breiddi sig yfir allt og alla og af sjálfu leiddi að gildi, hugsanir og fyrirbæri, sem samkvæmt stigskiptri opinberri heimssýn voru skýrt aðskilin og ósamrýmanleg, þeim var "hrúgað saman", eins og Benedikt kallar það. Hið helga var tengt hinu vanhelga, hið háleita hinu lágkúrulega, hið viskufulla hinu heimska o.s.frv. Þungamiðja karnivalsins var aftignunin sem fólst í að draga hið háleita, andlega, niður í neðri hluta líkamsstarfseminnar. - Það var því varla vona að "fíflið mætti vanta", því að lykilhlutverk þess var einmitt að flytja allt háleitt látæði sem laut að viðhöfn og helgisiðum yfir á hið efnislega svið (R/20) - Í aftignuninni afhjúpast "gleðiríkt afstæði" karnivalmenningarinnar, hún er vitnisburður þess að allt er í heiminum hverfult, að endanlegur sannleiki er enginn til.

  Kjarninn í heimspeki gróteskunnar er vömbin. Hún var sigurtákn mannsins í ógnvekjandi veröld, líkamleg gröf sem gleypir heiminn og eyðileggur jafnframt því sem úrgangur hennar hefur í sér fólgið frjómagn sem stuðlar að nýju og frjósamara lífi. Táknræn merking vambarinnar er því ævinlega tvíþætt, hún stendur fyrir hvort tveggja í senn, líf og dauða. Í gróteskum heimi er hin "mikrókosmíska" hringrás spegilmynd þeirrar "makrókosmísku", vömbin hliðstæða hinnar sem kennd er við móður jörð, grafarinnar sem gleypir hinn dauða, er aftur frjóvgar heiminn með leifum sínum og býr í haginn fyrir nýtt líf og frjórra. Grótesk lífssýn er þess vegna í eðli sínu "útópísk", hún gerir ráð fyrir æ gróskumeira mannlífi á jörðu. Samvæmt heimspeki hins gróteska raunsæis er raunveruleg framtíð mannkynsins beinlínis fólgin í neðri hluta líkamsstarfseminnar - meltingu, getnaði - sem ber í sér frjómagn og tryggir því ódauðleika. Af sjálfu leiðir að úrgangurinn verður í þessari heimsmynd jákvætt efni og gleðiríkt og kynfærin kóróna mannsins. Eins er um dauðann, hann er á sinn hátt jákvæður og ævinlega þungaður nýju lífi, hann er ekki einstaklingsbundinn, heldur er hér allt samtvinnað í eina órofa lífskeðju, maður, náttúra og hin kosmísku öfl. Í lifandi karnivalmenningu var hláturinn þess vegna ævinlega tvíræður, hann var ekki eintómt spott og niðurrif eins og verða vill í nútímasatírunni, heldur var hann jafnframt þrunginn gleðiríkri sigurvímu, í honum var fóglin hvort tveggja aftignun og endurnýjun, hann jarðar og endurlífgar. Hann beinist að öllu og öllum, þeim sem hlær jafnt sem öðrum, því að allir eru seldir undir sama lögmál ófullkomleikans, fyrir öllum liggur að deyja og endurnýjast. Hláturmarkið er hin kómíska hlið heimsins alls.

  Með klassísismanum er hinn fágaði líkami, "líkt og skírður af öllu grómi fæðingar og þróunar" (R/25), hafinn til vegs. Einstaklingsbundinn og einangraður líkami sem er skýrt aðskilinn frá öllum öðrum líkömum. Þótt þessa viðhorfs hafi verið farið að gæta á endurreisnartímanum þá lifði hin gróteska lífssýn áfram í listrænni og hugmyndafræðilegri vitund tímans, segir Bakhtín. Hvað sem leið allri aðgreiningu og sundrun klippti endurreisnarraunsæið aldrei á "naflastrenginn sem tengdi líkamann við fjósamt móðurlíf jarðar" (R/23). Á sautjándu öld og fyrri hluta þeirrar átjándu, þegar klassísisminn ríkti á öllum sviðum lista og bókmennta, var gróteskan á hinn bóginn gerð útlæg úr æðri bókmenntum. Það er á þessu skeiði sem smátt og smátt fer að þrengja að hinni lifandi karnivalmenningu. Ríkið seilist í æ ríkara mæli inn á umráðasvæði hátíðahalda og skrúðgangan leysir markaðstorgið af hólmi, eða hátíðahöldin flytjast inn á heimilin og verða hluti af einkalífi fjölskyldunnar. Hinn frelsandi karnivalandi sem horfði með slíkri bjartsýni til framtíðar umbreyttist smátt og smátt í ósköp venjulegt hátíðaskap. Hátíðin hætti nánast alveg að vera annað líf fólksins, tímabilsbundin endurfæðing þess og endurnýjun. En Bakhtín undirstrikar orðið "nánast", vegna þess að frumorsök karnivalsins verður að hans dómi aldrei með öllu upprætt. (R/33-34)

  Gróteskan erfist því til rómantíkur sem hreinræktuð bókmenntahefð að segja má. Þar sem miðalda- og endurreisnar-gróteskan var í lifandi tengslum við alþýðumenninguna og þess vegna sammannleg upplifun, varð hún í meðförum for-rómantíkur og rómantíkur tjáning huglægrar, persónubundinnar heimssýnar. Hún varð að "einstaklingsbundnu karnivali" sem markaðist af sterkri einangrunartilfinningu. (R/37)

  Í rómantískri grótesku verður róttæk umbreyting á tvíræðum hlátri karnivalmenningarinnar. Jákvætt endurnýjunarafl hans hopar nánast alfarið fyrir köldum húmor þar sem niðurrifið situr í fyrirrúmi. Eins er um myndmálið. Kynfæri, át, drykkja og saurlát eru ekki lengur hlaðin hinni heimspekilegu aukamerkingu, heldur flyst merking þessarar starfsemi yfir á hið einstaklingsbundna plan og snýst upp í léttúð og groddaskap.

  Sú umbreyting sem varð á hlátrinum - að hann skyldi glata endurnýjunarmættinum - leiddi til þess að heimur rómantískrar grótesku varð með vissum hætti ógnvekjandi veröld. Okkar eigin heimur verður ókennilegur, segir Bakhtín, hið kunnuglega birtist okkur sem eitthvað framandlegt og truflandi. Alþýðumenningin umhverfði öllu sem þrúgaði og skelfdi í skopleg skrímsli sem hún sigraðist á með hlátri, en myndmál rómatískrar grótesku endurspeglar yfirleitt ótta við heiminn og miðar að því að miðla þessum ótta til lesandans. (R/38-39) Með öðrum orðum, rómantísk gróteska er nóttinni og myrkrinu vígð, alþýðugróteska einkennist af birtu. Hún er hátíð vorsins, sólarupprásarinnar, morgunsins. (R/41)

  Nýjungin sem kom fram með rómatíkinni var "uppgötvun hinnar huglægu veru með allri sinni dýpt, margbreytileika og óþrjótandi lindum", eins og Bakhtín orðar það, uppgötvun hins "ófullgerða innri heims" sem miðalda- og endurreisnar-gróteskunni var með öllu ókunnugt um. (R/44) Brautryðjandaverk á þessu sviði er Tristram Shandi eftir Laurence Sterne þar sem heimssýn Rabelais og Cervantesar er flutt með "sérkennilegum" hætti yfir á huglægt tungumál hins nýja tíma. (R/36-37) Þessi uppgötvun rómantíkeranna er að mati Bakhtíns lýsandi dæmi um hið listræna og leitandi afl sem grótesk aðferð hefur í sér fólgið.

  Breytt viðhorf tímans til hins efnislega og líkamans lýsir sér glöggt í því að nítjánda öldin hneigðist til að líta á verk Rabelais - sem og annarra endurreisnarhöfunda - sem talandi dæmi um viðreisn holdsins andspænis hreinlífisinnrætingu miðalda, en útópískan anda hins holdlega myndmáls, sem hjá Rabelais fléttaðist svo snilldarlega saman við hið félagslega og sögulega, sást mönnum yfir.

  Þrátt fyrir þessa úrkynjun gróteskunnar í aldanna rás, lifir þó minningin um hina máttugu heild, segir Bakhtín, og í bestu verkum rómantíkurinnar er þessi minning endurvakin. Goethe mun hafa sýnt táknmáli karnivalsins mikinn áhuga og tókst að flétta þá heimspekilegu sögusýn sem að baki því býr saman við sögulega framþróun í verkum sínum. (R/103) Í ritgerð Ingvars Stefánssonar, "Gröndal og Gandreiðin", sem fylgir þeirri útgáfu leikritsins sem hér er stuðst við, kemur það fram að Benedikt hafi verið hvað hrifnastur af Goethe allra skálda og þótt þeir séu ólíkir um margt, sé einhver skyldleiki með skopi þeirra þegar til ádeiluháðsins kemur. (4)


  Tildrög Gandreiðarinnar

  Gandreiðin sem í anda karnivalískrar tvöfeldni ber undirtitilinn "sorgarleikr í mörgum þáttum" var prentuð í Kaupmannahöfn árið 1866. Leikritið er 40 blaðsíður að lengd í átta blaða broti og skiptist niður í átta þætti. Höfundarnafns er hvergi getið í verkinu en að sögn Ingvars Stefánssonar mun það hafa orðið opinbert ári síðar "að Benedikt Gröndal Sveinbjarnarson væri höfundurinn". (IS/44) Samkvæmt ritgerð Ingvars voru tildrög verksins í stuttu máli þessi: Þann 23. júlí 1865 birtist nafnlaus grein í Folkets Avis og 12. október sama ár "Reykjavíkurbréf" í Fædrelandet, þar sem í báðum tilvikum var veist að Jóni Sigurðssyni fyrir framgöngu hans í svonefndu fjárhagsmáli. Hafði Jón barist gegn því á alþingi sumarið 1865 að frumvarp til laga um nýtt fyrirkomulag á fjárhagssambandi Íslands og konungsríkisins yrði að lögum. Með þessu nýja fyrirkomulagi skyldi lokið afskiptum ríkisþingsins af fjárlögum Íslands og alþingi fengin í hendur meðferð þessara mála. Skyldi Ísland fá ákveðna upphæð til ráðstöfunar úr ríkissjóði á ári hverju. Jón taldi að vísu fjárhagsaðskilnað Íslendingum mikilsverðan, en hann vildi "reikningsuppgjör milli landanna á sögulegum grundvelli, þannig að Danir stæðu Íslendingum skil á andvirði seldra konungs- og stólsjarða ásamt bótum fyrir tjón af völdum einokunarverslunarinnar með háu árlegu gjaldi þeim til handa" (IS/55). Urðu endalok þau að frumvarpið var fellt með naumum meirihluta. Kröfur Jóns eru taldar hlægilega yfirdrifnar í Reykjavíkurbréfinu og afgreiðsla málsins hörmuð. Böndin bárust að Gísla Brynjúlfssyni sem bréfritara og kannaðist hann við það opinberlega átta árum síðar. Jóni Sigurðssyni neitaði Fædrelandet hins vegar um rúm til andsvara. Samkvæmt rigerð Ingvars var einungis vitað um þrjá Íslendinga í Höfn sem samsinntu Gísla Brynjúlfssyni, þá Oddgeir Stephensen, Grím Thomsen og Eirík Jónsson.

  Ádeilu sína samdi Benedikt fyrst og fremst í því skyni að rassskella andstæðinga Jóns Sigurðssonar sem á þessum tíma var náinn vinur hans og sá maður sem hann dáði hvað mest, en jafnframt fékk hann í skjóli skopsins veitt óhefta útrás gremju sinni í garð Dana - og þá ekki síst þarlendra blaðamanna sem hann lét ekki af að lasta ævina á enda - og skandínavismans sem, með röngu að hans dómi, taldi sig vera handhafa hins fornnorræna anda eða beinlínis "hin endurfædda fornöld sjálf" (R.III/118).


  Gandreiðin í ljósi grótesk-karnivalískrar hugmyndafræði

  Þótt Benedikt Gröndal hafi verið "sá Íslendingur samtíma síns, sem fyndnastur gat verið," var skopskyni hans "að því leyti áfátt, að það náði ekki til hans sjálfs", segir Ingvar Stefánsson. (IS/52) Þarf heldur enginn að velkjast í vafa um það að höfundur Gandreiðarinnar setur sig ofar þeim persónum sem hann dregur hér sundur og saman í háði. Gandreiðin er einhliða ádeila, höfundur hennar er sá sem sannleikann hefur í höndum sér.

  Af lýsingu Benedikts á sjálfum sér barnungum mætti ætla að gróteska hafi verið honum í blóð borin: "Af náttúru var ég fúll og einrænn, nokkuð hneigður til grófyrða... ég fékkst við að smíða, eins og börn gera; þá kom lektor einu sinni og spurði: 'hvað ertú að smíða deingu minn?' 'Ég er að smíða hlandfor' sagði ég með innilegri fýlu..." (5)

  Í grótesku myndmáli er eins og að líkum lætur höfuðáhersla lögð á þá líkamshluta sem opna sig fyrir heiminum, hluta sem heimurinn fer inn um sem fæða og skilar sér út úr sem úrgangur. Í Gandreiðinni verður þetta þema hvað ágengast í tengslum við skáldskap Ögmundar dytts sem höfundur setur sig hvergi úr færi við að "niðra".

  Um skáldskap þeirra Gísla Brynjúlfssonar og Eiríks Jónssonar, sem engum duldist að væru fyrirmyndir að höfuðpersónum leiksins, þeim Gunnari helmingi og Ögmundi dytt, er fjallað í grein sem helguð er hinum síðarnefnda í nóvemberhefti Sunnanfara frá árinu 1896. Þar segir svo:

  Það var tíska í Höfn á yngri árum Eiríks meðal þeirra sem mest feingust við fornritin, að stæla stýlsmátann á þeim, og vildu þeir rita málið að öllu leiti eins og það er á fornritunum. Sumir þeirra fóru svo langt í þessu að þeir sóttust eftir óvanalegum og þungskildum orðum og orðatiltækjum og líktu eftir því; gerðu þeir það meðfram að gamni sínu. Mest ber á þessu hjá Gísla Brynjúlfssyni og Eiríki Jónssyni. Báðir rituðu einkennilegan stýl og er málið hjá þeim ramíslenskt og kjarngott, en skrúfað og torskilið. Þetta hefur verið kölluð tirfni og er það myndað af torf, en eigi vitum vjer hvernig það er til komið, nema svo sje, að svo hafi þótt sem þeir ristu torf úr fornmálinu. Þeir ortu eftir fornkvæðunum svo myrkt og torskiljanlega að miklu er verra að skilja sumt það er þeir kváðu en fornskáldin. Eiríkur er vel hagorður og ljet oft fjúka í kviðlingum á yngri árum. (6)

  "Torfa" er það nafn sem Benedikt mun upphaflega hafa valið verki sínu, og má af því ráða hverja skoðun hann hefur haft á þessari öfgafullu fornaldardýrkun landa sinna. "Nú á dögum skilja [...] fáir fornmálið", segir hann í ritgerðinni "Nokkrar greinir um skáldskap" (R.III/40), og er það ein ástæða þess að hann telur fornan brag úrelt skáldskaparform sem eigi ekki rétt á sér í nútímanum.

  Það er því meinleg pilla sem Eiríki er send í goðahofsatriðinu svokölluðu þar sem Þórskenningin "melludólgur" verður að gróteskum orðaleik. Ögmundi er þarna stillt upp andspænis tyrfni af því tagi sem tvímenningarnir ástunduðu í kveðskap sínum og hann kann ekki skil á einföldustu kenningum:

  Ögmundr: fyrirgefið þér, herra Óðinn, ef ég hef styggt yðr - meinið þér ég skrúfi mellur?

  Þórr: Nei, heyrið þann andskota! Hann stingr mér þar sneið fyrir það, að Eyvindr skáldaspillir kallaði mig mellu-dólg.

  Óðinn: Svo sagði Eyvindr:

  Bárum Ullr of alla...

  Ögmundr: Það veit guð almáttugr, að ég ætlaði ekki að styggja yðr - verið þér jesúaðr, Þórr... Ég vissi ekkert af, að Þórr var kallaðr mellu-dólgr. (12)

  Í Gandreiðinni er Óðinn ekki vel vinveittur Ögmundi og neitar honum um svo mikið sem dropa af Suttungamiði. Í upphafi sögu er Ögmundur svo á rassinum að hann hefur ekki ráð á að éta annað en maðkað flesk á mykjuhaugum úti við Valhöll. Nótt eina þegar hann sem oftar reið "skrúfstykkja-Skírni" til Valhallar fékk hann slíka "skyrsótt á mykjuhaugnum að Óðinn kom út með kúst og dreif [hann] á brott því enginn þoldi við í Valhöll" (10). "Lostætið" á mykjuhaugnum er hér auðvitað táknrænt fyrir hina úreltu "dönsku tungu" sem Eiríkur gleypir hráa og beitir í skáldskap sínum og skrifum með þessum hroðalegu afleiðingum, ásigkomulag og ætterni fæðunnar - flesksins - er vísbending um það. Með því að vísa ævinlega til "danskrar tungu" þar sem fornmálið er í brennidepli í tengslum við orðfæri Ögmundar nær höfundur stundum fram óborganlegri margræðni í textanum og hæfir þá bæði Eirík og Dani í einu og sama högginu.

  Í goðahofinu er það hin boðleiðin sem er í brennidepli, Ögmundi verður bumbult. "Þú munt kannski vera of mikið skáld," segir Óðinn þá, "þú munt hafa slokað í þig svo mikið af Suttungamiði, að þér liggr við spýju." En bætir svo við, og þá auðvitað á dönsku: "Nej, min Dreng, det var tyndt Öl du drak, drollen splitte mig" (13)! Ekki eru viðtökurnar betri í Helvíti: "Það er auðheyrt að þú hefr verið einhvers staðar aftarlega, þegar Óðinn spjó Suttungamiðinum" (20), segir djöfullinn, þegar Ögmundur hefur skemmt selskapnum í neðra með skopstælingu á kvæði eftir Hallgrím Pétursson, sem ort er út af heilagri ritningu. Hér er aftignunin orðin víðtækari og nær til þeirra listar sem hefur verið haldin göfugust með þjóðinni og talin er hafa risið hvað hæst með Hallgrími.

  Hafi Benedikt verið viðkvæmur fyrir sinni eigin persónu gat hann alltént skopast að því sem honum var "heilagt". Goðið sem hann dýrkaði mest, "sá hinn einasti kennari sem skáldin hafa" (R.III/133), verður dæmigerð karnivalísk persóna í þessum leik. Óðinn er dreginn með skoplegum hætti niður á mannlegt plan, svo breysklegt, að við liggur að líkja megi honum við Hróbjart brennivínsberserk sem skýtur upp kolli í stiftamtmannsveislunni undir lok leiksins. Líkamlegar þarfir hans eru mjög í brennidepli og málfar hann jaðrar við slangur, ívafið fornum endingum og kryddað með dönskum og latneskum slettum. Hann setur upp hálfpela fyrir goðasvarið og berst við að halda logandi í vindilstubbi sem einhver "Skandínav" - böndin berast að Ögmundi (7) - hafði skilið eftir sig í Valhöll. Hann les dönsku blöðin í rúminu á morgnana á meðan hann er að drekka "kaffeð" sitt. Hann er tæpur í maga og illa haldinn af kveisu eftir bauna-át - sem hér er án efa tvíræðrar merkingar, enda er látið að því liggja að kveisan herji á goðið í kjölfarið á komu Ögmundar. Sér til heilsubótar falast hann eftir því við Frigg hvort ekki sé eftir lögg á bitterflöskunni "síðan í gær". Hann sprangar líka um á nærbuxunum í Valhöll, og þótt hann sé skáldaguð er hann ekki undanþeginn frumstæðustu þörfum frekar en dauðlegt mannkynið, við fáum að vita að Óðinn notar "theologisk collegia" frá Magnúsi Eiríkssyni (Frater) fyrir "folia tergendi". Samfara þeirri afhjúpun kemur á daginn að kynni sín af Lúter hefur Bragi af þessu "þarfaþingi" föður síns á Valhallarkamrinum. Er þessi uppákoma ekki síst skondin fyrir þá sök, að flogið hefur sú fiskisaga að andinn hafi komið yfir meistara Lúter undir sömu kringumstæðum

  Ekki verður betur séð en aftignunin hjá Benedikt birtist hér í sinni heimspekilegu dýpt. Með því að aftigna skáldskapinn og skáldskaparguðinn á þann hátt sem hann gerir, er hann í raun að jarða forna skáldskaparmálið sem menn voru svo fastheldnir á, og þá ekki einungis þeir einstklingar sem hann hefur hér að skotspæni, heldur má ráða af ritgerð hans "Nokkrar greinir um skálskap" að fleiri hafi aðhyllst fornmálið. Benedikt vill jarða skáldskaparmálið til þess að það megi endurnýjast og laga sig að breyttum anda tímans.

  Í "Svari til Norðra", þar sem Benedikt sendir Sveini Skúlasyni óblíðar kveðjur fyrir ritdóm um kvæðakver sitt, kemur í hnotskurn fram skoðun hans á þeirri dómgreindarlausu fornaldardýrkun sem lá í tíðarandanum að hans mati: "Ef hann [ritstjórinn] hefði fundið kvæðið á bókfelli, gamalt og maðksmogið - ætli vitleysan hefði þá ekki orðið að vizku" (R.III/64)? Í beiskjuorðum skáldsins höfum við augljósa hliðstæðu við myndmálið í Valhallarför Ögmundar.

  Skáldskapurinn hlýtur að lúta lögmáli dauða og endurfæðingar eins og allt annað í heiminum. Þessa skoðun setur Benedikt fram berum orðum í ritgerðinni sem vitnað er til hér að framan: "Tíminn, málið og þeir menn sem þá eru uppi, er allt óaðgreinanlega sameinað hvað öðru". Þótt fornmálið sé fagurt og tignarlegt þá er það ónothæft, segir hann, til að tjá reynslu samtímans í óbreyttri mynd. "Andi tímans breytist; nýjar hugmyndir birtast; og nýjar hugmyndir þurfa nýtt mál, eða þá umbreytingu á málinu, sem þeim er hæfileg" (R.III/40).

  Málfræðingarnir eru að mati Benedikts þrándur í götu nauðsynlegrar þróunar málsins. Þetta eru "lifandi steingervingar", segir hann, sem vilja verja allt fornt og taka allt gott og gilt sem fornt er. Með þessu marki sé íslenskukennslan í Lærða skólanum brennd, hún sé öll innifalin í réttritunarreglum og dauðyflislegu "málfræðibulli", en um anda og líf málsins sé ekki hirt. Afleiðing þessarar eintrjáningslegu stefnu er það sem Benedkit kallar "skáldleg fyrirmunun", eða eins og Óðinn segir við Ögmund í goðahofsþættinum: "Þín málfræðislegu rassaköst munu halda þér í eilífri forskrúfan" (14). Þessi véfrétt skáldaguðsins kemur sem svar við spurningu Ögmundar sem er hlaðin miðmyndarsögnum með endingunni "-ask", en svo hafði Eiríkur ritað passívar og reflexívar myndir í fornnorrænni orðabók sinni, sem höfundur Gandreiðarinnar setur sig hvergi úr færi við að draga dár að. Vildi Eiríkur með þessu "sýna hinar eldri og upprunalegu myndir, enda þótt handrit og útgáfur hafi endinguna -az, eða oftar -ast" (IS/105).

  Í sjöunda atriði leiksins sem fer fram í veislu hjá stiftamtmanni er Ögmundi boðin að kvæðislaunum "beufsteik með joðakássu frá restaurateur Friðriksen" (34). Halldór Friðriksson var að sönnu sá sem matreiddi réttritunarreglurnar og málfræðisbullið" ofan í nemendur Lærða skólans og gefur að líta sýnishorn af ívitnaðri krás hans í tilvitnuninni í Sunnanfara hér að framan. Benedikt hafði ímugust á "andskotans joðinu" sem og viðleitni til framburðarstafsetningar almennt: "Vér sjáum þessa tilraun hjá Norðmönnum," segir hann í grein sinni um Friðþjófssögu - ("Dyremaal" var afsprengið af þeirri tilraun að mati Ólafs Gunnlaugssonar og sýnist Benedikt taka heilshugar undir þá skoðun hans (R.IV/483)) - "og það er kunnugt að Fjölnir gerði þessa tilraun, en var hrakinn niður undir allar hellur, og það lítur svo út sem Halldór Friðriksson taki sér þetta nærri." (R.III/126-7) Sýnishorn af einhvers konar viðleitni Norðmannsins Georgs A. Krohg í þessa veru fáum við í kveðskap Baldurs í Valhallarþættinum sem hefst á þessum merkingarþrungnu orðum:

  "Hann er vorden ruglet í rimet..." (33)

  Höfuðpersónur leiksins eru eins og fyrr segir þeir Gunnar helmingur og Ögmundur dyttur, sem af orðum Gunnars helmings má ráða að sé ekki nema hálfur maður: "Vert' ekki að glotta svona, Ögmundr, því þú skalt vita, að ég er ekki kallaðr Gunnarr helmingr fyrir það, að ég sé þorskhelmingr eða þyrsklingshelmingr, heldr af því að ég er helmingi meiri en þú, Mundi, sem ekki hefr nema eitt auga og einn fót" (10).

  Pör voru einkennandi fyrir hugsunarhátt karnivalsins. Frægasta dæmið úr bókmenntasögunni eru vafalaust þeir Don Kíkóti og Sancho Panza, þar sem mætast þröngsýnn alvarleiki hugsjónamannsins og gleðirikur efnisleiki átvaglsins (panza = ístra). Var ýmist að pörin voru valin með tilliti til andstæðna, eins og í ofangreindu dæmi, eða líkinda, þá sem eins konar tvífara- eða tvíburaþema. (D/126). Tvímenningarnir í Gandreiðinni eiga vísast rætur að rekja til þessarar hefðar og koma samsemd þeirra og líkindi einna gleggst fram í því að Ögmundur verður ævinlega eins og bergmál af Gunnari þegar "ævistarf" þeirra, Njálu og Tristramssögu, ber á góma. Þetta bergmál er það sem síðast ómar af hans munni er báðir "stíga á stokk" og heita því að "ganga fyrir ætternisstapa" þegar ávöxtur erfiðisins loksins líti dagsins ljós. Viðbrögð Lúcifers við þessum sjálfsmorðshugleiðinum - "það verður þá varla á morgun" - hljóta að teljast óborganlega kómískur úrdráttur í samhengi leiksins, og veruleikans einnig, því að verk þessara manna þóttu vilja dragast með ólíkindum á langinn.

  Tvíræðni orða er viðbrugðið í þessum leik eins og þetta dæmi úr fyrsta þætti er til vitnis um:

  Ögmundr: Nú það er pólitíkin - ja ég hef líka sjálfr nokkurs konar pólitískar skrúfur í höfðinu - ég hef nýlega fórnfært Frey skrúfstykki, sem ég fékk upp á krít hjá Vestrgarði, því Vestrgarði þykir heldr en ekki koma til mín fyrir það, að allar líkur eru til, að ég muni nú bráðum komask upp á að kveða að í sanskrítartungunni og ég síðan muni geta eyðilagt Finn Magnússon, sem ekkert skildi í sanskrít; en Freyr lét mig vita, að Skírnir stæði mér til boða hvenær sem ég vildi til að skrúfa hann á pínubekkinn með mínum pólitísku skrúfstykkjum. (9)

  Undir yfirborðsmerkingu textans leynist önnur merking og meinlegri. Eiríkur Jónsson var á þessum tíma ritstjóri Skírnis og píningartólin sem sendiboði guðsins er hér beittur, skrúfstykkin, eru vísun í málskrúfur ritstjórans. Með því að setja Ögmund í nám í sanskrítartungunni og láta hann etja kappi við rúnaþekkingu Finns Magnússonar, sem stendur auðvitað nútímanum nær, er höfundur vísast að hnykkja á "forskrúfun" Ögmundar. Í framhaldi af öllu þessu hlýtur það að teljast fullkomlega rökrétt að Ögmundur skuli "ganga í hof og frétta goðin".

  Kjarni bókmennta sem eru karnivalískar í þess orðs fyllstu merkingu er sannleiksleitin. Í menippísku háðsádeilunni sem er ein megingrein á meiði karnivalískra bókmennta, kennd við Menippos frá Gadara (3. öld f.Kr.), stíga hetjurnar ýmist upp til himins, niður til heljar eða þvælast um ókunn og draumkennd landsvæði í leit að hinstu svörum. Sviðsetning Benedikts er mjög í þessum anda eins og nafngift þáttanna gefur til kynna - "Úti á víðavangi", "Í helvíti", "Á Sprengisandi, "Í Valhöll", "Úti á víðavangi erlendis í niðamyrkri" svo dæmi séu tekin. Erindi Ögmundar við goðin er á hinn bóginn harla léttvægt í samanburðinum, enda gengur Gandreiðin ekki út á það að leita svara við brennandi spurningum. Þau hefur höfundurinn öll á reiðum höndum þegar í upphafi eins og fyrr er vikið að.

  Í goðahofsþættinum kemur hinn karnivalíski öfugsnúningur fram í misræminu á milli kumpánlegs mútímamálfars guðanna og upphafinnar fyrnsku Ögmundar:

  Ögmundur dyttr: Heilir Æsir, heilar Ásynjr, heil sú in fjölnýta fold!

  Óðinn: Vert' ekki að því arna, Mundi, ég held ég þekki þig! Þú þarft ekki að vera að skrúfa þig upp með glósr úr Sigrdrífumálum til þess að heilsa okkur hérna. (12)

  Eins og við fengum sýnishorn af í "melludólgs"-tilvitnuninni hér að framan er þetta atriði - sem og reyndar leikritið allt - gegnsýrt af guðlasti og bölvi.

  Benedikt var að náttúru hneigður til grófyrða sem fyrr segir, "en ekki til að bölva, því að það heyrðum við ekki fyrir okkur haft; það lærði ég ekki fyrr en í skólanum, og svo seinna af kvenfólki í Reykjavík." (R.IV/275) Hvort tveggja er þetta, guðlastið og bölvið, hins vegar samgróið munnsöfnuði gróteskunnar. Hvorugt tengist í upphafi hlátrinum, en þar sem orðbragð af þessu tagi braut í bága við norm opinberrar orðræðu - eins og uppeldi Benedikt er reyndar lifandi vitnisburður um - var það gert útlægt og þess vegna tekið upp í kumpánlegt orðfæri markaðstorgsins. Það var í andrúmslofti karnivalsins sem þetta hvort tveggja vígðist hlátrinum og tvíræðninni. (R/17)

  Danskan fær herfilega útreið í þessum leik. Að mati Óðins er hún ekki talandi nema við dóna. Enn sem fyrr sýnist hér leikið á tvíræðni orðanna:

  Ögmundr: Þér talið þá dönsku, herra Óðinn!

  Óðinn: Það geri ég ekki nema við dóna.

  Ögmundr: Ja, ég játa það, ég er dauðlegr maðr, en ég vonask eftir að þér sýnið mér þann heiðr að talask við mig á íslenzku. (13)

  Eðli sínu trúr virðist mér Ögmundur taka orðið "dóni" í úreltri merkingu. Upphaflega hefur það haft sambærilegan merkingarblæ og samnefni þess, "rusti" eða "ruddi", það er óheflaður almúgamaður til aðgreiningar frá "fáguðum" aðlinum. (8) Í Dægradvöl segir Benedikt um skólapilta á Bessastöðum, að þeir hafi ekki sparað þá fremur en nú "að tildra sér upp yfir almúgann, þótt þeir sjálfir væri af honum og upp á hann komnir, og kalla hvern ólærðan mann 'dóna'" (R.IV/327). Ber þetta umrædda orð nokkuð oft fyrir augu í skrifum Benedikts og virðist af þeim mega ráða að ofangreindur merkingarblær hafi legið í tíðarandanum. Andstæðurnar sem Ögmundur sýnist hafa í huga eru þó frumlægari og forneskjulegri, eða "dauðlegur maður"/"ódauðlegir guðir" - sem gefur því þá jafnframt undir fótinn að íslenskan sé "ódauðleg tunga" en danskan hafi á hinn bóginn hrapað niður á hið dauðlega plan.

  Í Valhallarþættinum biður Óðinn Braga um að fletta upp orðinu "kveisa" í orðabók fornfræðafélagsins hinni minni. "Það get ég ekki, faðir minn," svarar Bragi, "ég skil ekki dönsku" (29). Þótt pillan sé sjálfsagt einkum ætluð Eiríki Jónssyni, má einnig lesa út úr henni vísun í úrkynjun dönskunnar. Hinn norræni guð skáldskapar og málsnilldar er hættur að skilja tungu Dana. Er þetta þó mildin ein hjá þeirri útreið sem danskur skáldskapur fær í Helvítisþættinum þar sem hann er freklega niðraður og kenndur við leir og þýðingar af dönskum bókum bendlaðar við innblástur Andskotans sem eins og geta má nærri vísar í gróteskri hefð til andans sem úr óæðri endanum kemur.

  Svo vikið sé aftur að orðabókinni sem höfð er að skotspæni í Valhallarþættinum þá vann Eiríkur Jónsson að Oldnordisk Ordbog sem fyrr er getið á samningstíma Gandreiðarinnar. Þótt verkið sé í texta Benedikts auðkennt sem orðabók fornfræðafélagsins "hin minni", mun það engu síður hafa verið meira að vöxtum en latnesk-íslensk orðabók hans sjálfs, Clavis poëtica, sem var gefin út af fornfræðafélaginu um svipað leyti. Þótti Gröndal nafnið eitt á orðabók Eiríks jaðra við landráð, að ekki sé minnst á aðra vankanta sem hann fann á verkinu. Það sem menn streittust við að kalla fornnorrænu, það er að segja "danska tungu", var að mati hans ekkert annað en íslenska. Hámark óhæfunnar fólst þó í því að í orðabók Eiríks voru þau uppflettiorð sem ekki fundust í fornritum auðkennd með I. Fannst honum það lítil bót, eins og segir hjá Ingvari Stefánssyni, þótt tekið væri fram í formálanum að þetta bæri ekki að taka svo að þau orð sem ekki væru þannig auðkennd væru horfin úr lifandi íslensku máli. Menn læsu ekki formála að orðabókum, sagði hann. (IS/98)

  Hvað neyðarlegust er atlagan að dönskunni og Danskinum í atriði sem kallast "Hjá Plógi". Hér fáum við sýnishorn af tvíræða oflofinu sem er dæmigert stílbragð fyrir bókmenntir af þessu tagi. Þegar við heyrum sagt um Dani: "Yðar hágáfuðu landar eru sú hin málfræðislegasta þjóð sem til er í veröldinni" (17), þurfum við ekki lengi að velkjast í vafa um hvaða skilning beri að leggja í lofsyrðin. Eins og svo víða má sjá samsvörun á milli Gandreiðarinnar og ritgerðar Benedikts um Friðþjófssögu. Af ritgerðinni má ráða að Benedikt finnst "óspillt" tungan veita Íslendingum andlega yfirburði meðal skandinavískra þjóða, hún geri þeim einum - hugsanlega þó einnig Norðmönnum - kleift að höndla hinn norræna anda sem var svo mjög hampað af fylgjendum skandínavismans. Eða "hver getur borið á móti því," spyr Benedikt, "nema þeir, sem ekki hirða um neinn sannleik, að andinn fer þegar málið spillist?" Og það þarf ekki að spyrja að því að danskan er að mati höfundarins gjörspillt mál, hún "hefur misst hneigingaraflið," og "stendur nú sem stofnað tré stirð og dauð á jörðunne" (R.III/118). Það er þessi vægðarlausi dómur sem skín í gegnum fleðulæti Ögmundar í garð Dana. Vísunin í Bíleams Ösnu ber vott um andríki Benedikts og sýnir að hann er fundvís á pillurnar, eða hvað er andlausara en "asninn" í víðtækustu merkingu þess orðs?

  Ögmundr: "Herra Plógr! Afkvæmi Plógs svarta! þér eruð verndaðir af guðlegri hendi, og ég hef nú verið vitni til þess kraftaverks, sem ég aldrei hefði trúað, að verða mundi á þessari skrúfstykkja-jörð... en þetta er kraftaverk, sem ég ætlaði að tala um, það er sú hin forundrunarlega repetitio af Bíleams ösnu, sem talaði það sem hún sjálf ekki skildi, og eins hafði þér nú líka talað íslenzku...

  Já, það þurfti ekkert minna en kraftaverk til að Dani talaði íslensku, því að eins og stendur í fyrrnefndri grein, "[þeir] geta aldrei lært eitt íslenzkt orð" (R.III/119).

  Fyrirmyndin að Plógi þeim sem hér fær svo háðulega útreið var einn ötulasti talsmaður skandínavismans Parmo Carl Ploug sem að auki hafði unnið sér það til "ófrægðar" að vera ritstjóri Fædrelandet, blaðsins sem hafnaði svargrein Jóns Sigurðssonar við nafnlausu skammarbréfi Gísla Brynjúlfssonar.

  Upphaf þáttarins "Hjá Plógi" á sér augljósa fyrirmynd í "samræðunum á þröskuldinum" sem svo eru kallaðar. Þetta bókmenntaform á rætur að rekja til sókratískra samræðna sem voru útbreidd bókmenntagrein í fornöld og skipa mikilvægan sess í sögu karnivalískra bókmennta líkt og menippíska háðsádeila sem fyrr er getið.

  Plógr (fyrir innan dyrnar): Hverr andskotinn er úti?

  Gunnarr helmingr (fyrir utan dyrnar): Það erum við.

  Plógr (fyrir innan dyrnar): Hvaða við?

  Gunnarr (fyrir utan dyrnar): Við báðir.

  Plógr (fyrir innan dyrnar): Hverr fjandinn er þetta?

  Gunnarr (fyrir utan dyrnar): Það erum við Gunnarr helmingr og Ögmundr dyttr, sem kenndr er við skrúfstykkja-Skírni.

  Plógr (fyrir innan dyrnar): Ég þekki ekki þessa peja, hvað viljið þið?

  Gunnarr (fyrir utan dyrnar): Skandínavismus.

  Plógr (fyrir innan dyrnar): Ég er raunar á nærbuxunum, en nú skal ég ljúka upp - Længe var Nordens - (lýkur upp).(15)

  Þröskuldsþemað var algengt í menippísku háðsádeilunni og miðaldabókmenntum einnig, hvort sem þær voru af alvarlegum eða skoplegum toga, og sérlega mun það hafa verið vinsælt í bókmenntum siðbótarinnar. Var þá ýmist að hetjan leitaði inngöngu í heim guða á Olympus eða bóndinn þráttaði við hið "gullna" hlið himnaríkis, eins og við eigum kjördæmi um í okkar eigin bókmenntum. Einnig gátu samræður þessar farið fram á þröskuldi undirheima sem gegndu mikilvægu hlutverki i "menippeunni" eins og menippíska háðsádeilan er jafnan kölluð. (D/111, 116)

  Frá þessum sjónarhóli séð fær skanínavisminn á sig skoplegan blæ "djöfullegra" trúarbragði, enda ber hann naumast nokkurn tíma á góma án þess að hann sé bendlaður við fjandann. "Þú þarft ekki annað, Gunnarr, en að ljúka upp Svövu í formálanum, þá munu djöflar koma" (24), svarar Djöfsi liðsbón tvímenninganna í Helvíti. "Gísli var alltaf að pólitísera", segir Benedikt í Dægradvöl, og "ætlaði að ofbjóða öllu með sinni evrópeisku pólitík". (R.IV/403, 479) Trúr þessari áráttu sinni og Benedikt til sárrar armæðu hafði Gísli lagt gjörvallan formálann að ljóðasafninu Svövu undir þetta brennandi áhugamál sitt, en þeir höfðu staðið saman að útgáfu þess ásamt Jóni Thoroddsen. Nær Benedikt sér niðri á tiltækinu með því að láta Frater, leiðsögumann þeirra félaga í neðra, svipta þessa eldlegu ritsmíð öllum áhrifamætti. Púkana, sem áttu að fara í formálann í Svövu og þjóna Gunnari í pólitísku "trúboði" hans á vegum skandínavismans, fangar guðsmaðurinn í biblíu sína eins og flugur.

  "Lúcifer", skýrir Óðinn út fyrir Baldri, "er vinr Skandínavanna, so la la, en er þó kallaðr djöfull og andskoti af öllum þeim, sem trúa á Hvítakrist" (29). Þessi nafngift frelsarans leiðir hugann að viðurnefni Jóns Sigurðssonar í leikriti Benedikts, "hvíti". "Meinleg skissa [sic] varð honum á, er hann sæmdi Jón viðurnefninu "hvíti", sem hann hlýtur að hafa gert, af því að Jón var bjartur álitum og hærður orðinn, svo sem sjá má af myndum" (IS/138), segir Ingvar Stefánsson. Benedikt getur þess sjálfur í ævisögu sinni að Jón hafi látist vera styggur út af því að hann var nefndur Jón "hvíti", en eins og Ingvar bendir á gat "hvítur" í fornu máli merkt huglaus. Eðlilegast væri þó kannski að ætla að Benedikt hafi með þessari nafngift Jóns Sigurðssonar viljað skapa móthverfu við hin "svörtu" öfl sem skandínavisminn og fylgisveinar hans eru bendlaðir við í verkinu.

  Tólf ára gamall komst Benedikt yfir kvæði Oehlenschlägers og farast honum svo orð í Dægradvöl; "Ég þýddi eina vísu, sem sýnir, að það dæmoniska lá nærri mér, og um leið, að trúin á helvíti var líklega engin" (R.IV/310). Má með sanni segja að þýðing hins unga Benedikts sé lítt í anda rómantíkur sem Bakhtín segir að hneigist til að draga upp ógnvekjandi mynd af djöflinum, þunglyndislega og tragíska. Hlátur hans verður þar myrkur og napur. Í alþýðu-gróteskunni er djöfullinn aftur á móti gáskafull og tvíræð fígúra, tákngervingur hins óopinbera sjónarhóls, neðri hluta líkamans, en hrollvekjandi eða ókennilegur er hann ekki á nokkurn hátt. Djöflarnir hjá Rabelais segir Bakhtín að séu "afbragðsgóðir og glaðsinna náungar." (R/41) Sömu orð mætti hafa um Lúcifer Benedikts og drísildjöfla hans.

  Lúcifer styður Skandínavana, "því ég styð allt, sem á rassinum er" (28), segir hann, enda nátengdur þessum líkamshluta eins og þegar hefur komið fram. Við sáum hvernig athyglinni var beint að neðri hlutanum á Plógi þegar hann tók á móti þeim félögunum á nærbuxunum, Ögmyndi tekst naumlega að ná sér upp úr hlandforinni í helvíti til að fara erinda skandínavismans á Íslandi og hreyfingunni sjálfri er líkt við hlandfroðu. Allt er þetta dæmigerð karnivalísk aftignun á stefnu sem andans menn á borð við Tegnér og Oehlenschläger, að ógleymdum Grími Thomsen, höfðu gert að málstað sínum.

  Samkvæmt þjóðsagnahefðinni hefur samningurinn við djöfulinn gengið út á að koma höndum yfir galdraskræðuna og öðlast hina endanlegu þekkingu. Í Gandreiðinni er þessu þveröfugt farið. Þrímenningarnir í helvítiskaflanum koma á fund Djöfsa færandi hendi, tvímenningarnir með sitt "magra" lífsstarf, Tristramssögu og Njálu, Frater með Baptistana, sem er notuð til elsneytis við matargerð í víti. Hér er skopið ekki hvað síst fólgið í því, að fyrirmyndin, Magnús Eiríksson, var í "mannheimum" úthrópaður fyrir villutrú og bók hans um Jóhannesar guðspjall, sem gerð er að umræðuefni í neðra, kennd við "satans skeyti" og til þess mælst að hún yrði brennd á báli. Þessi fróma ósk var sett fram í ritdómi í Íslendingi 10. mars 1865. Á sama vettvangi lét skáldið Jón Thoroddsen í ljósi þá skoðun sína að það væri hlutverk valdstjórnarinnar að setja hinn "djöfulóða" klerk í "eitthvert nægilega sterkt 'Svarthol', og umfram allt að láta hann hafa þar lítið að snæða" (IS/115-116), en Magnús mun hafa verið rómaður matmaður. Hafi skáldið hugsað sér að slíkur dvalarstaður yrði verðugt "víti" fyrir guðsmanninn, hafa hugmyndir þess um helvíti sannarlega átt lítið skylt við þá mynd sem því er léð í karnivalískri hugmyndafræði.

  Í grótesk-karnivalískri hefð hafa undirheimar frá upphafi tengst átveislunni. Þessi dvalarstaður framliðinna var hið dæmigerða karnival þar sem öllu er umsnúið með tilliti til hins ytra heims. Þeir sem æðstir voru í lifanda lífi verða lægstir í víti og öfugt. Þessu mynstri er dyggilega fylgt hjá Benedikt. Víti hans er gáskafullt eins og vera ber, þótt kosturinn sé kannski helst til hversdagslegur. Hér er eldað við hlóðir og athygli er vakin á skyrsá sem sýnist óræk vísbending um að ekki séu beinlínis konunglegar krásir á boðstólum. Þetta mun tengjast þeim ummælum Tschernings sem ýjað er að þegar Djöfsi setur ofan í við þennan þjón sinn sem á í megnustu erfiðleikum með að gera herranum til hæfis:

  Hvað er þetta Tscherning? allténd ertú svo klaufalegr - ég held ég megi muna þig þegar þú varst að hnýta í Íslendinga í ríkisdeginum, (23)

  en þar hafði Tscherning látið sér þessi orð um munn fara: "Vér höfum stælt Íslendinga upp til ofdæslku með öllu eftirlætinu (?!), vér kennum sumum þeirra hér niðri betra mataræði en saltfisksátið, en þá taka þeir að rembast og þykjast eiga til fjár að kalla hjá oss" (IS/116). Er þar átt við kröfu Jóns Sigurðssonar til handa Íslendingum sem styrinn stóð um. Fyrir þessi ummæli má hinn háttsetti embættismaður dönsku krúnunnar sæta því að vera kirfilega aftignaður í helvíti, þar sem hann er gerður að lúðursveini og fyrirskipað að "slá fretinn, þegar maðr drammaðist."

  "Ih Gud bevares, herra Djöfull! Þér hafið jú ævinlega pródúcérað yðr sem þann sterkasta latínuhest" (21), segir Frater fullur aðdáunar á hinum fjöltyngda Lúcifer. Hrósyrði Fraters er áreiðanlega ekki valið út í bláinn, því að í næsta kafla sjáum við Lúcefer koma þeysandi á Sprengisand með Ögmund dytt á bakinu. Við lestur kaflans "Á Sprengisandi" fer varla hjá því að lesandanum komi í hug samnefnt ljóð Gríms Thomsens. Samkvæmt Andrési Björnssyni fór Grímur um Sprengisand árið 1862 og orti hann ljóð sitt í tilefni af þeirri för. (9) Sameiginlegt með ljóði Gríms og Sprengisands-kafla Benedikts er - auk sögusviðsins - gandreiðarþemað og handanheimsöflin. En þar sem Sprengisandsævintýri Benedikts ólgar af fjöri og hástemmdur söngur drísildjöfla glymur í hrjóstugri auðninni - sem auðsýnilega er ætlað að undirstrika ófrjóa stefnu skandínavismans - er ljóð Gríms þrungið óhugnaði og ótta við hin ókennilegu öfl og endurspeglar firrta sál í óvinveittum heimi. Það sem knýr selskapinn í Gandreiðinni til að spretta úr spori og flýta sér sem mest hann má út úr óbyggðunum er hungur en ekki ótti við óhrein öfl!

  Ljóð Gríms kemur hvergi inn í umfjöllun Ingvars Stefánssonar. Kveikjuna að gandreiðinni með djöflinum telur hann að sé að finna í ljóði Jóns Thoroddsens, "Draumurinn", þar sem "drottinn Hvítakristsmanna [er] látinn fara á gandreið með sálum" (30), svo notuð séu orð Óðins í Valhallarþættinum. Ef grannt er skoðað er þó sitthvað sem bendir til að hugrenningartengslin að baki gandreiðarþemanu og persónu Lúcifers kunni að vera margbrotnari en fram kemur í hugmynd Ingvars. Hér gefst þó ekki kostur á að fara nánar út í þá sálma.

  Gandreiðin verður Benedikt tilefni til að aftigna konung og krúnu með því að sæma Djöfulinn riddarakrossi dannebrogsorðunnar og fylgir hann þeirri aftignun eftir með því að leggja Plógi í munn niðrandi orð um dönsku þjóðina og láta stiftamtmanninn vanhelga fánann með þessari tvíræðu hótun, sem vísast er um leið skot á takmarkaða íslenskukunnáttu hins hálfíslenska embættismanns: "Sá sem hæðir duluna, kemr í tugkthúsið" (36). Hvort hinum "kónginum" sem Plógur vitnar til - "Ég meina þennan Jón, sem ætlar að verða kóngr yfir Íslandi" (35) - er ætlað að vera tákn fyrir krýninguna, endurnýjunina, sem samkvæmt karnivalískri heimspeki á ævinlega að sjá grilla í gegnum afkrýninguna, skal ósagt látið.

  Svo sjónum sé nú beint að söguhetjum leikritsins áður en þær hverfa í niðamyrkrið að leiðarlokum, þá nýtir höfundur sér franska orðið "portefeulle" á smellinn hátt:

  Gunnarr: Herra Egill! Ekki vænti ég þér vilduð búa til fyrir mig veski til þess að hafa í handritið til Tristramssögu?

  Ögmundr: Herra Egill! Ekki vænti ég þér vilduð búa til fyrir mig veski til þess að hafa í handritið til Njálu?

  Egill Jú gjarnan! Hvenær vilið þið hafa veskin búin?

  Gunnarr: Mitt yrði að vera búið eftir tíu ár.

  Ögmundr: Og mitt um sama leyti.

  Egill Það liggr þá víst ekki á, að ég fari til fyrr en á morgun.

  Stiptamtmaðr: Það mun vera skemmtilegt að vera Minister fyrir þeirri Portefeulle! (37)

  Eins og Ingvar bendir á, þýðir orðið bæði veski og ráðherrastaða, en sé það tekið í bókstaflegri merkingu er það samsett úr sögninni "porter" sem þýðir að bera og "feuille" sem þýðir blað - í eintölu. Lúcifer hittir naglann á höfuðið þegar hann gerir sér ljóst að hann þarf ekki að eiga von á bráð sinni "á morgun".


  Gandreiðin og grótesk hefð

  Í Dægradvöl farast Benedikt svo orð um Heljarslóðarorrustu, sem kom út árið 1859: "Ég er viss um, að þeir Íslendingar, sem þá voru í Höfn, hafa skilið hana rétt... en hinir seinni "vitringar", sem ekkert vit hafa á skáldskap, hafa kallað hana "spottsögu" og líkt henni við Gargantua eftir Rabelais, en ekkert getur verið ólíkara; ég þekkti heldur ekki Rabelais þá." (R.IV/461). Ekki er ljóst hvort Benedikt hefur stofnað til kynna við hinn franska höfund á þeim sex, sjö árum sem líða á milli þeirrar bókar og Gandreiðarinnar, en skopádeiluleiki Aristophanesar (488?-358) hefur hann þekkt, því að við þá jafnar hann verki sínu er hann bregst við gagnrýni í "Dansk biografisk lexikon", þar sem Gandreiðin er sögð vera "utilladelig personlig". "Spurði Aristophanes um, hvað væri 'utilladeligt' (leyfilegt)?" segir hann. "Eða má ekki nefna Gandreiðina við hliðina á Aristophanes? Það geri ég reyndar" (R.IV/480). Grísku gamanleikirnir tengdust í upphafi dýrkun frjósemisguðsins Díonýsosar og þykir höfundarverk Aristophanesar bera þeim uppruna augljóst vitni. Snarpar ádeilur hans á opinber málefni og frammámenn samtímans ólga af lífi, leiftrandi fyndni og dónaskap sem rekja má til hins frumstæða klúrleika Díónýsosarhátíðanna. (10)

  Í riti sínu um Rabelais segir Bakhtín að það sé nú orðin viðtekin venja að líkja honum við Aristophanes. Hann telur þó að skyldleiki þeirra verði ekki skýrður með áhrifum hins forngríska rithöfundar á Rabelais. Jafnvel þótt vitað sé að hann hafi verið verkum Aristophanesar kunnugur sé ekki hægt að merkja teljandi áhrif frá honum í Gargantúa. Bakhtín telur að þeir fari á líka vegu með hið kómiska vegna þess að það sé hjá báðum runnið af skyldum rótum úr alþýðumenningu og karnivalhefð. (R/98n) Hann lætur þess og getið að hjá Aristophanesi sé að finna gróteska hugmyndafræði af líkum toga og hjá Rabelais. (R/28n) En að mati Bakhtíns höfðu gamanleikjaskáldin engin veruleg áhrif á hugmyndafræði franskrar endurreisnar, þau rekur hann fremur til Lucians (2. öld e.Kr.) og annarra lærdómsmanna, mælskufræðinga og ádeiluhöfunda frá seinni tímum fornaldar. Lucian er sagður hafa verið vel heima í attnesku gamanleikjunum en mun þó einkum hafa verið undir djúpum áhrifum frá Menipposi frá Gadara, en háðsádeilan sem við hann er kennd og sókratískar samræður eru þær greinar á meiði karnivalískra bókmennta sem Bakhtín rekur rætur evrópsku skáldsögunnar til. Háðsádeilur Lucians segir hann að hafi bæði leynt og ljóst verið uppfullar af deilum við hinar ýmsu heimspeki- og hugmyndafræðilegu stefnur tímans og í þeim sé að finna gnægð persóna úr samtímanum, ýmist undir eigin nafni eða dulnefni. (D/118) Ádeilur sínar setti hann fram annað hvort í formi samræðna eða, að fordæmi Menipposar, í blendingi af prósa og bundnu máli. (11) Sýnist af þessari lýsingu mega ráða augljóst ættarmót með höfundarverki Lucians og Gandreið Benedikts Gröndals.

  Sé hugað að skilgreiningu Bakhtíns á hinum ytri einkennum sem voru sameiginleg þeim karnivalísku bókmenntagreinum er komu fram á sjónarsviðið undir lok klassískrar fornaldar og síðan aftur á helleníska tímanum má sjá marga drætti sameiginlega með verki Benedikts. Þær til að mynda fella goðsögulegar hetjur og sögulegar persónur inn í samtímann og gefa hugmyndafluginu lausan tauminn. Öllum er þeim sameiginlegt að hafna stíllegri einingu klassísku greinanna og eru þær vísvitandi samsettar úr margvíslegum stíl og sundurleitum röddum. Þær einkennast af margtóna frásögn og samblandi hins háleita og lága, alvarlega og kómíska. Þær skjóta óspart inn öðrum greinum, svo sem sendibréfum og skopstælingum á æðri greinum svo eitthvað sé nefnt. Í sumum er blandað saman prósaískum texta og ljóðrænum, mállýskum, slangri og sumar eru beinlínis tvítyngdar. Tvíræðni orða er viðbrugðið og gegndi hún oft lykilhlutverki í verkum af þessu tagi. (D/108)

  Við höfum hér í hnotskurn lýsingu á skopleik Benedikts, nema hvað hann lætur sér ekki nægja tungur tvær heldur ægir saman öllum heimsins tungumálum í verki hans. Gandreið Benedikts Göndals á ljóslega rætur í þessari hefð sem hefur erfst í gegnum aldirnar, þótt forsendur hans eigi kannski ekki að öllu leyti skylt við hugmyndafræðina sem hún er sprottin úr.


  Aftanmálsgreinar

  1) Benedikt Gröndal (Sveinbjarnarson), Ritsafn III, Rvk 1950, bls. 85. Frekari tilvitnanir í verkið verða auðkenndar með R.III/bls.

  2) Mikhail Bakthín, Rabelais and His World (1965), þýð. Helène Iswolsky, Bloomington, 1984, bls. 4. Sú umfjöllun sem hér fer á eftir um gróteskuna og karnivalið er að mestu leyti á þessu riti byggð, en sumpart þó á Problems of Dostoevsky's Poetics (1963) eftir sama höfund, þýð. Caryl Emerson, Minneapolis: University of Minnesota Press, 1989. Tilvitnanir í þessi verk verða auðkenndar með R eða D/bls.

  3) Þórir Óskarsson, Undarleg tákn á tímans bárum: ljóð og fagurfræði Bendikts Gröndals, Studia Islandica 45, Rvk 1987, bls. 15.

  4) Benedikt Sveinbjarnarson Gröndal, Gandreiðin, ásamt ritgerð um verkið eftir Ingvar Stefánsson, Rvk, 1974, bls. 145-6. Frekari tilvitnanir í ritgerð Ingvars verða auðkenndar með IS/bls. Tilvitnunum í leikrit Benedikts fylgir blaðsíðutalið eitt saman.

  5) Benedikt Gröndal (Sveinbjarnarson), Ritsafn IV, Rvk 1953, bls. 275. Frekari tilvitnanir í verkið verða auðkennar R.IV/bls.

  6) Sunnanfari 1895-1896, bls. 34.

  7) Eins og fram kemur hjá Ingvari virðist sem fljótaskrift hafi valdið því að goðahofið og Valhöll renna saman í verkinu. Þetta má til dæmis ráða af orðum Óðins sem hann beinir til Ögmundar í "Goðahofinu": "veiztu ekki, að Hákon Hlaðajarl sagði við Dala-Guðbrand, að illir menn skuli ekki koma í Valhöll?" (13, IS/135)

  8) Samkvæmt Ásgeiri Blöndal Magnússyni - Íslensk orðsifjabók, Rvk 1989, bls. 120 - er hér líklega um að ræða styttingu latínuskólapilta (17. öld) á nafninu Corydon, en svo nefndist fátækur fjárhirðir í einu hjarðljóði Virgils.

  9) Upplýsingar þessar lét Andrés Björnsson greinarhöfundi í té er hann kom sem gestafyrirlesari á námskeið í H.Í. vorið 1993 og miðlaði okkur nemendum af þekkingu sinni á Grími Thomsen og verkum hans.

  10) The New Encyclopædia Britannica, útg. William Benton og Helen H. Benton, Chicago/London/Toronto/Geneva/Sydney/Tokyo/Manila/Seoul, 1979, macropædia vol. 10, bls. 1090.

  11) Sama rit, macropædia, vol 11, bls. 173.