Tarot

tenglar í efni síðunnar:

 • tarot er spegill
 • bók allrar þekkingar
 • bókrolla æðstu prestynjunnar
 • auðnuhjólið
 • Völuspá
 • lífsvatnið
 • Gunnlöð í Hnitbjörgum
 • á krossgötum
 • Lýsandi ættbálkur
 • virk ímyndun
 • Persefóna


  lyfjapoki

  Í dagbókinni minni rekst ég á mynd af kráku
  með lyfjapoka í nefinu.
  Dimm sem nótt er hún alsett tindrandi stjörnum.
  Ég minnist þess að krákan var
  tvífari valkyrjunnar í fornum sögum og
  að hún bar mannfólki frjósemd og græðandi visku
  úr heimi handan vökuvitundar.
  Mér verður litið á tarot-pokann í hendi mér,
  mosagrænan úr mjúku flaueli með perlusaumaðri sól.
  Ég verð fyrir hugljómun
  eins og gerist
  þegar innri hræring og ytri veruleiki
  renna í einn farveg.
  Græni pokinn er ekki lengur bara fallegt hulstur
  utan um tarot-spilin mín,
  hann hefur öðlast græðandi áru lyfjapokans.


  tarot er spegill


  Horfi í spegilinn. Sé mig sitja á steinstalla í bilinu milli tveggja heima, á milli þess sem ég þekki og hins sem ég þrái en veit ekki hvert leiðir. Augnaráð mitt fjarrænt. Ég horfi inn á við, er á krossgötum. Í mér takast á inngróin mynstur og löngun til að brjóta af mér hlekki vanans. Mig langar til að hlaupast frá fortíðinni og skapa nýtt líf frá grunni en skynsemin segir mér að slíkt frumhlaup sé óðs manns æði. Ég geti aldrei sloppið frá fortíðinni, hún mun elta mig uppi hvert sem ég fer. Spennan ætlar mig lifandi að drepa. Ef ég læt undan tregðunni, hreiðra um mig í gamla farinu og hafna ævintýrinu sem ég þrái, svík ég sjálfa mig. Ég mun visna upp eins og blóm í ófrjórri mold. Hvað geri ég? Ég leita leiðsagnar í tarot.

  Nú kann einhver að spyrja hvernig vænta megi leiðsagnar frá slíkum miðli? Því er til að svara að tarot-spilin tala til þess sem ígrundar þau úr djúpum stað, líkt og goðsögur, ævintýri og draumar. Þau eru spegilmyndir sem sýna innri gerð okkar, erkitýpur eða sammannleg hegðunarmynstur sem eru okkur ásköpuð. (Sjá tengil í ARAS: Archive for Research in Archetypal Symbolism hér að neðan þar sem lesa má skilgreiningu Carls Jung á erkitýpu.) Áhrifin sem þessar táknmyndir hafa á okkur sem einstaklinga gera okkur meðvituð um að við erum hluti af heild. Við erum öll á ferðalagi til aukins þroska og sjálfsskilnings þótt leiðirnar sem við rötum inn á, meðvitað eða ómeðvitað, séu einstaklingsbundnar. Tarot hefur reynst mér ómetanlegur miðill til að nálgast mitt innra sjálf og vinna úr hnútum sem hindra þroska minn og framfarir.

  Margir óttast að spilin taki af þeim ráðin og segi fyrir um váleg tíðindi sem ekki verði undan komist. Því fer fjarri. Þvert á móti getur tarot eflt frjálsan vilja okkar með því að varpa ljósi á hegðunarmynstur sem hefta blómgun okkar og þroska. Hvort sem okkur finnst lögn vera jákvæð eða neikvæð, er undir okkur sjálfum komið að láta jákvæð skilaboð verða að veruleika en líta á hitt sem hittir okkur illa fyrir sem verðuga lexíu og víti til varnaðar. Við höfum frjálsan vilja og erum smiðir eigin gæfu.

  Það virðist næsta óbrigðult að við drögum til okkar spil sem eiga erindi við okkur. Við skynjum þetta eins og merkingarbæra tilviljun. Sálfræðin kallar þetta samtíðni. Tveir að því er virðist óskildir en þó tengdir atburðir eiga sér stað samtímis. Ytri og innri heimurinn mætast, tarot-spilin á borðinu fyrir framan okkur og atburðir í sálarlífinu sem leitar leiða til jafnvægis og lausnar. Upp af þessum samfundum rís merking sem lá ekki ljós fyrir áður en ráðgjafar spilanna var leitað. Þannig getur tarot orðið okkur leiðarljós í leit að sjálfsskilningi og lífsfyllingu.


  bók allrar þekkingar

  Ég rakst nýverið á skemmtilega sögu um tilurð tarot-spilanna sem hafa gengið undir nafninu "bók allrar þekkingar." Þar segir að tarot-spilin séu afsprengi ímyndunarafls bókavarðanna í hinu fornfræga bókasafni í Alexandríu, sem varð eldi að bráð árið 646. Svo er sagt, að þegar bókaverðirnir horfðu á bókasafnið brenna, hafi þeir litið hver á annan og komið sér saman um að þeir yrðu að hindra að uppsöfnuð viska aldanna glataðist svo auðveldlega aftur. Svo þeir hófust handa við að flytja viskuna sem hafði glatast í eldinum yfir á myndmál, og þetta myndmál var grundvallað á erkitýpum sem hafa í sér fólgna þekkinguna sem býr í sameiginlegri dulvitund mannkynsins. Þeir bjuggu til þessar táknmyndir og fundu upp vinsæla leiki og spil sem byggðust á myndunum til þess að fólk, sem ekki var innvígt í þennan þekkingarheim, hefði gaman af spilunum og tæki þau með sér hvert sem leið þess lægi og dreifði þeim um gjörvallan heiminn. Með þessu vildu þeir fyrirbyggja að viska kynslóðanna glataðist. (Lauslega þýtt úr bók séra Jeremy Taylor: Dream Work: Techniques for Discovering the Creative Power in Dreams. New York, 1983, bls.132-133).


  bókrolla æðstu prestynjunnar  æðsta prestynjan úr Rider-Waite-Smith spilastokknum

  Ef við lítum á tromp númer tvö, æðstu prestynjuna, sjáum við að hún heldur á bókrollu í kjöltu sér sem á stendur TORA. Í þessu orði er fólgin margslungin merking. Í gyðinglegri hefð er TORAH, sem í strangasta skilningi er haft um fyrstu fimm bækur Gamla testamentisins, talin innblásin af Guði og hann samkvæmt hefðinni miðlaði mannkyninu í gegnum Móses. Sé stöfunum víxlað og raðað upp sem TARO, fáum við vísun í Tarot, "bók allrar þekkingar." Fyrir tilverknað hliðstæðunnar er látið að því liggja að sú bók sé einnig tilkomin fyrir innblástur frá Guði. Sé stöfunum hins vegar raðað upp sem ROTA, en það þýðir 'hjól' á latínu, höfum við vísun í auðnuhjólið sem er heiti á trompi númer tíu.


  auðnuhjólið  úr Rider-Waite-Smith spilastokknum


  úr The Shining Tribe Tarot

  Í bók sinni Seeker: The TAROT Unveiled, bendir rithöfundurinn og tarotistinn Rachel Pollack á að lesa megi tiltekna merkingu út úr bókstöfunum fjórum sem standa í höfuðpunktum áttavitans á auðnuhjólinu: ROTA ('hjól'), TARO (Tarot), ORAT (þýðir 'talar' á latínu), TORA (lögmálsbók Hebrea), ATOR (egypsk ástargyðja). Saman mynda þessi orð setninguna: ROTA TARO ORAT TORA ATOR, "tarot-hjólið tjáir lögmál ástarinnar." Þetta kallar á samanburð við lögmálið sem Jahve, guð Gamla testamentisins, gerði átrúnaðarmönnum sínum að fylgja og var fest í sessi í krafti refsingar og ótta.

  Í The Shining Tribe Tarot, sem Rachel hefur sjálf teiknað, umbreytist auðnuhjólið í spíral og við sjáum fuglshöfuð brjótast út úr lokuðum hring takmarkaðrar heimsmyndar. Sem einstaklingar höfum við samsamað okkur lögmáli þeirrar heimsmyndar sem við fæddumst inn í og okkur hefur verið innrætt. Við hrærumst kannski í aðstæðum sem við þráum að losna úr en virðumst dæmd til að þrauka í, vegna þess að lausnin felur í sér brot gegn lögmálinu. Lögmál feðraveldisins er harður húsbóndi. Ær þess og kýr eru að viðhalda óbreyttu ástandi og tryggja með því vald sitt. Í auðnuspíralnum sýnir Rachel okkur að við getum brotist út úr farinu og öðlast víðari sýn.


  Völuspá

  Eins og bókasafnið í Alexandríu varð mörg völvan logum að bráð. Ég ímynda mér að hið tímalausa kvæði Völuspá hafi átt sér hliðstæðan uppruna og þær bækur komnar úr munnlegri hefð sem að framan er getið. Kvæðið er sett saman úr myndum sem ber fyrir innra auga völvunnar og nær aftur fyrir upphaf þeirrar heimsmyndar sem var helguð Óðni. Í því er lýst hruni gjörspilltrar heimsmyndar sem hlýtur að líða undir lok en jafnframt dregin upp mynd af óspjölluðu upphafi nýrrar heimsmyndar sem mun rísa á rústum þeirrar sem fyrir var. Myndmál þessa forna kvæðis hlýtur að hitta okkur í hjartastað nú, mitt í hruni gerspillts fjármálakerfis sem hefur keyrt okkur sem þjóð í kaf. Við vitum ekki hver orti þetta magnaða kvæði, enda hefur sú eða sá sem það gerði ekki litið á sig sem höfund þess heldur miðil og tæki Guðs, líkt og Móses. Að baki þessu myndmáli snýst auðnuhjólið. Heimsmyndir fæðast og deyja, og það gera guðirnir líka. Ekkert varir óbreytt að eilífu.

  Spá völvunnar endar á orðunum "nú mun hún sökkvast," og sýnist sitt hverjum hvort þar muni átt við jörðina eða völvuna sjálfa. En víst er að heiður völvunnar umturnaðist í andhverfu sína og rödd hennar var þögguð. Það er svo aftur alkunna að orka sem hefur verið bæld í sálarlífi einstaklinga og þjóða hverfur ekki úr sögunni, heldur lifir hún áfram fyrir utan lög og rétt. Enda hvað segir ekki Völuspá um hina lífseigu Gullveigu sem gekk undir völu-nafninu Heiður í mannheimum:

  "Hana brenndu.
  Þrisvar brenndu,
  þrisvar borna,
  oft, ósjaldan,
  þó hún enn lifir."

  Á sama hátt hefur tarot lifað fyrir utan lög og rétt. Í hugum margra er það bendlað við sígauna sem spádómstól og jafnvel talið frá djöflinum komið. Í dag eru þessir fordómar á hröðu undanhaldi. Tarot er komið upp á yfirborðið sem viðurkennt tæki til sjálfsþekkingar. Sem slíkt vinnur það heiminum gagn, því að án sjálfsþekkingar vörpum við skuggahliðum okkar yfir á aðra, hvort heldur er einstaklinga eða þjóðir. Völvan dró upp ófagra mynd af ríkjandi öflum en þau voru ófús að horfast í augu við eigin bresti og vörpuðu illsku sinni yfir á hana. Hún var gerð að blóraböggli sem boðberi illra tíðinda og sökkt í gleymskunnar sæ.


  lífsvatnið

  Ef við lítum nánar á tarot-spilið æðsta prestynja (hér að ofan) sjáum við að kjólfaldurinn myndar tjörn við fætur hennar. Hún er uppspretta lífsvatnsins sem rennur í gegnum öll trompin í tarot. Án tengsla við þessa lind ríkir vetur í sál okkar og huga. Án þeirra erum við andlega geld.

  Á bak við tjaldið sem er strekkt á milli súlnanna til hvorrar handar henni sér grilla í hafið en hafið er táknmynd fyrir dulvitundina sem mennsk vitund okkar reis upp af eins og eyland í árdaga. Þessi mynd kemur tvívegis fyrir í Völuspá. Fyrst þar sem völvan lýsir því þegar Óðinn og bræður hans lyftu löndum og sköpuðu Miðgarð:

  "Áður Burs synir
  bjöðum ypptu,
  þeir er Miðgarð
  mæran skópu."

  Þegar spillingin hefur síðar lagt þann heim að velli, dregur hún upp þessa tæru og óspjölluðu mynd:

  "Sér hún upp koma
  öðru sinni
  jörð úr ægi
  iðjagræna."

  Framtíð okkar, einstaklinga og þjóða, býr óráðin í hafdjúpi dulvitundarinnar. Úrelt gildi, okkar gamla sjálf, þurfa að leysast upp og deyja til að ný og betri vitund geti flutt okkur fram veginn til þroska.

  Súlurnar sitt hvorum megin við æðstu prestynjuna standa fyrir myrkur og ljós, fyrir tregðu og framsókn, "nei" og "já", þessar andstæður sem takast á í okkur þegar hvötin til umbreytingar knýr á í sál okkar og veru sem einstaklinga og heildar. Krossinn á brjósti hennar er táknrænn fyrir krossgöturnar sem við stöndum á undir slíkum kringumstæðum. Við erum líkt og krossfest í óvissu um hvert skuli halda og hvað tekur við í þeirri ókunnu framtíð sem bíður okkar. Við vitum hvað við höfum og hneigjumst til að halla okkur að örygginu sem við finnum í því, eins þótt okkur sé ljóst að það stríðir gegn hamingju okkar og þroska.

  Gróskumikið mynstrið á slæðunni bak við prestynjuna, sem byrgir sýn inn í hið óþekkta, gefur fyrirheit um hagsældina sem hlýst af sáttum á milli andstæðnanna sem takast á í okkur, hins óþekkta sem togar í okkur innan frá í þrá eftir að komast fram í dagsljósið og þeirra gilda sem okkur hafa verið innprentuð og samfélag okkar aðhyllist. Við slíkar aðstæður stöndum við andspænis þeirri knýjandi spurningu hvorum megin trúnaður okkar liggur. Eigum við að hlýða boðorðum sem okkur hafa verið innrætt en kunna að vera andstæð eðlislægri tilfinningu okkar? Eigum við að voga okkur út fyrir alfaraleið og kalla yfir okkur fordæmingu og útskúfun samfélagsins eða eigum við að svíkja það sem er heilagt í sjálfum okkur? Við vitum ekki í hvorn fótinn við eigum að stíga.


  Gunnlöð í Hnitbjörgum

  Eitt sinn þegar ég horfði dreymnum augum á æðstu prestynjuna (hér að ofan) opnaðist mér sýn og ég áttaði mig á að slæðan á bak við hana myndar líkt og felumynd af risastórum vasa eða keri. Myndirnar utan á ílátinu eru vísbending um að í glundroðakenndu innihaldi þess búi tiltekið skipulag sem tekur á sig mynd hins kabbalíska lífstrés. Í diskatíunni, spili sem endurspeglar efnislega velmegun, er þetta mynstur í forgrunni og gefur til kynna að fyrirheitin sem búa í trompi númer tvö séu orðin að jarðrænum veruleika. Diskarnir standa fyrir efnislegan veruleika í sinn víðtækustu mynd.  diskatían úr Rider-Waite-Smith spilastokknum

  Í norrænni heimsmynd hét lífstréð Askur Yggdrasils en kerið sem innihélt skáldamjöðinn og Gunnlöð gætti í Hnitbjörgum kallaðist Óðrerir. Óður þýðir 'skáldskapur' en -rerir er 'sá sem hrærir upp skáldskapinn'. Gunnur, sem fyrri hluti nafns varðmeyjarinnar er dregið af, er skýrt sem 'orrusta'. Nafnið Gunnlöð er þannig talið merkja 'sú sem býður til orrustu'. Önnur og að því er virðist jafngild mynd orðsins gunnur er guður. Ef við skiptum fyrra orðinu út fyrir hið síðara, verður útkoman Guðlöð, sem tengir jötnameyna við guðlegan innblástur. Hún er 'sú sem býður Guð velkominn í vé sín.' Hnitbjörgin, þ.e. 'björg sem skella saman', eru hliðstæða súlnanna á spili æðstu prestynjunnar. Í hinsta skilningi standa þessar táknmyndir fyrir kvensköp. Frá örófi alda hafa menn litið á sköp konunnar sem táknrænt hlið á milli hins veraldlega heims og hinna helgu véa sem geyma leyndardóma kvenlægrar náttúru.

  Kunnari en frá þurfi að segja er goðsagan um för Óðins undir fölsku flaggi inn í vé Gunnlaðar og stuld hans á miðinum sem hann svolgraði upp til síðasta dropa. Eins og nafnið Hnitbjörg gefur til kynna mætir "lok, lok og læs og allt úr stáli" þeim sem eru óverðugir og hafa óhreint í pokahorninu. Við þekkjum þetta minni úr hellissögum ævintýranna. En Óðinn var slyngur og tældi Guðlöðu til lags. Eða svo segir hin opinbera saga. Myndin sem við erum skilin eftir með af Gunnlöðu í Hávamálum er af grátandi fórnarlambi sem hverfur við svo búið úr sögunni. Við þurfum hins vega ekki annað en að líta á tarot-tromp númer tvö til að sjá að sú saga var bara gabb. Hún situr þarna ennþá og gætir kersins.

  Lífstréð á bak við hana skartar hvort tveggja kvenlægum og karllægum táknum, sólgulum granateplum sem minna á blæðandi, frjósöm kvensköp og pálmatrjám með gulan loga sem draga dám af kynfærum karls. Út úr þessu má lesa að orkan sem æðsta prestynja stendur fyrir er handan líffræðilegrar kyngreiningar. Á spilinu sem hér er tekið dæmi af er hún samsömuð mánanum en í goðsögum okkar og tungumáli, eins og í germönskum málum almennt, er máninn karlkyns. Í rómönskum tungumálum og hugmyndaheimi er máninn aftur á móti kvenkyns. Kynin sem sól og mána hafa verið úthlutuð eru þannig menningarbundin en ekki náttúruleg.

  Tarot of Northern Shadows sýnir Freyju með fossandi gullinn hadd í gervi æðstu prestynju sem þar dregur dám af sól.  Tarot of Northern Shadows


  á krossgötum

  Þegar við stöndum á krossgötum reynist æðsta prestynjan okkur hollráð. Hún geymir lykilinn að lausn okkar. Hvernig eigum við að nálgast hann? Með því að hlusta grannt á þögla rödd hennar sem kemur til okkar í draumsýnum og innsæi. Æðsta prestynjan talar til okkar í myndum og hugboðum. Úr viskubrunni hennar eru tarot-spilin, "bók allrar þekkingar" runnin. Hún leiðir okkur inn á brautir sem eru þroska okkar fyrir bestu. Ef viljinn stefnir lífi okkar og annarra í ógöngur gerist hún okkur mótdræg og reynir að koma vitinu fyrir okkur, ef ekki með góðu þá með illu. Æðsta prestynja vinnur lífinu en ekki persónulegri græðgi og hégómlegri eftirsókn eftir vindi. Hún stuðlar að heill okkar og heilbrigði sem einstaklinga svo að við megum verða sköpunarverkinu til gagns og framdráttar.

  Í goðsögum, þjóðsögum og ævintýrum sjáum við hana grípa í taumana þegar einsýni tíðarandans stefnir í óefni. Þá finnur hún leiðir, sem oft og tíðum virðast fjarstæðar, til að koma á sáttum milli stríðandi andstæðna. Hún er Alvör í Kötludraumi, sagnakvæði sem ort var á 15. eða 16. öld þegar kirkjuvaldið stríddi gegn þjóðlegum fornfræðum og prestar gengu hart fram í að afmá hinn heiðna sið. Hlutverk erkitýpunnar æðsta prestynja er að glæða víðsýni og vitund um að andstæðurnar beri að samþætta í nýrri heimsýn sem tekur fram þeirri sem fyrir var. Hún er þarna í speglinum, hluti af mér, og þráir að stíga þaðan út til að fullkomna hlutverk sitt. Hún á það undir samvinnu hvers einstaklings komið.


  Lýsandi ættbálkur

  Spilið æðsta prestynja sem ég hef ígrundað hér að framan er úr stokki sem gengur undir nafninu Rider-Waite-Smith og er frá því um 1910. Þessi spil hafa orðið klassísk fyrirmynd mörgum sem á eftir hafa komið. Táknmál þeirra er grundvallað á kabbalískri hugmyndafræði en jafnframt gætir þar áhrifa goðsagna úr grískum og egypskum menningarheimum, úr stjörnuspeki og kristinni hugmyndafræði, svo fátt eitt sé nefnt. Æðsta prestynja er til dæmis talin eiga sumpart fyrirmynd í egypsku gyðjunni Isisi en einnig í Maríu mey. Hún er þannig upphugsuð sem tengiliður á milli hins heiðna heims og þess kristna.

  Eins og fyrr er getið hefur Rachel Pollack teiknað spil sem hún kallar Lýsandi ættbálk (The Renewed and Expanded Shining Tribe Tarot: Awakening the Universal Spirit. Llewellyn Publications, 2001). Hér að neðan sjáum við hvernig Rachel hugsar sér æðstu prestynjuna.  úr The Shining Tribe Tarot

  Rachel hefur farið vítt og breitt í leit að efnivið í prestynjuna. Kjóllinn er ættaður frá Gíneu, hárið og flétturnar gerðar úr afrískum spá-skeljum sem vegna lögunar sinnar hafa orðið tákn fyrir kvensköp og móðurgyðjuna, slangan sem hringar sig fyrir neðan hana er svo kallaður Regnbogasnákur úr goðsögum frumbyggja Ástralíu, súlurnar hvor sínum megin við hana eru, eins og á Rider spilinu, vísun í súlur tvær, dökka og ljósa, sem stóðu við innganginn í hof Salómons í hinni fornu Jerúsalem. Eftir eyðileggingu hofsins urðu þessar súlur táknmyndir fyrir tvo stofna kabbalíska lífstrésins sem við sáum á Rider spilinu og eins og þar myndar prestynjan miðsúlu trésins. Í samræmi við hlutverk hennar sýnir spilið samþættingu margvíslegra menningaráhrifa og undirstrikar jafnframt uppruna þess margbreytileika í einni lind. Rachel áréttar að hún hafi valið þessa leið vegna þess að prestynjan er ekki fulltrúi neinna tiltekinna trúarbragða heldur leiðir hún okkur um innri stíga sálarinnar.

  Í stað myrkurs og ljóss hefur Rachel valið að hafa súlurnar græna og rauða og vísar sú fyrri í jarðargróður en hin í dýralíf til að undirstrika að prestynjan þjónar tilverunni allri. Bakgrunnur spilsins er blár til að sýna að hún dvelur í hafsjó leyndardómanna. Rachel leggur áherslu á að með leyndardómum sé ekki átt við forboðna þekkingu, heldur skilji prestynjan sannleika sem ekki er hægt að setja í orð.

  Snákurinn sem hringar sig fyrir neðan hana vísar veginn andsælis inn í kjarna okkar. En Rachel bendir jafnframt á að við verðum að fara sólarsinnis út í lífið aftur þegar við höfum fundið innri frið og jafnvægi æðstu prestynjunnar. Sagan um ginningu Evu og fall mannsins í Edensgarðinum, þar sem höggormurinn er samsamaður Satan, hefur komið illu orði á slönguna í menningu okkar, en í fornum sögum er hún tengd græðandi visku. Dreki og slanga eru táknrænt séð sama fyrirbærið eins og sjá má á því að hvort tveggja kallast draco á grísku og latínu. Í sögunni um Sigurð Fáfnisbana öðlast hetjan skilning á máli fugla þegar hún hefur fengið hjartablóð ormsins á tunguna. Fuglarnir reynast Sigurði hollvættir og vísa honum veginn til valkyrjunnar Sigurdrífu á Hindarfjalli sem miðlar honum rúnaspeki og visku. Vængirnir á kjól prestynjunnar á spili Rachelar ýja að nánum skyldleika hennar við fugla og minnir á að valkyrjur goðsagnanna gátu flogið. Slíkt hið sama áttu norrænu gyðjurnar okkar, Freyja og Frigg, valshami, eins og er undirstrikað á myndinni af Freyju í hlutverki æðstu prestynju í Tarot of Northern Shadows hér að ofan.

  Marglitur fiskurinn á spili Rachelar syndir frá vinstri til hægri og "ber goðsögur og drauma inn í vitundina," segir höfundurinn, "því að einungis í gegnum myndir sem slíka getur meðvitaður hugur okkar séð glitta í sannleika dulvitundarinnar." Fiskurinn er helgitákn og var altarisfæða bæði í heiðnum heimi og kristnum. Hann er tákn fyrir hið frumlægasta í eðli okkar því að til fisksins eru rætur okkar raktar.

  Þannig samþættir æðsta prestynjan andstæðurnar í eðli okkar bæði lóðrétt og lárétt, eins og jafnarma krossinn á brjósti hennar á Rider-Waite-Smith spilinu sýnir sömuleiðis.


  virk ímyndun

  Við getum notað tarot-spilin til að komast í samband við orku í sjálfum okkur með virkri ímyndun, svo kallaðri vegna þess að við erum virkir þátttakendur í samræðum við hin innri öfl. Hér verðum við að gæta þess að leggja hinum innri öflum ekki orð í munn heldur hlusta grannt og leyfa ferlinu að spretta fram án íhlutunar. Í eftirfarandi dæmi um "samræður" mínar við æðstu prestynju reyndi ég að hyggja að áhrifum æfingarinnar á öll skynfæri mín: sjón, heyrn, ilman, smekk og snertinu og komast þannig í líkamleg og tilfinningaleg tengsl við kraft hennar en ekki bara huglæg. Þessi æfing sem kallast "lestur fyrir skilningarvitin fimm" kemur frá kennurum mínum, Ruth Ann og Wald Amberstone, sem reka The Tarot School í New York.

  Ég vel æðstu prestynjuna vegna þess að ég skynja að rætur mínar liggja í viskubrunni hennar. Lengi var ég mér ómeðvitandi um þessi tengsl og hélt að alla visku, sem eitthvert gildi hefði, væri að finna í skólalærdómi og bókum. Þegar ég hafði háð áratuga langa glímu við fræði og formúlur án þess að finna rætur í þekkingunni sem ég hafði aflað mér, sendi hún mér draum sem leiddi mig inn á nýjar brautir. Siðan hef ég lagt mig eftir að skilja tungumál hennar og samfara þeirri ástundun hafa litir og leikur fengið aukið rými í lífi mínu.

  Satt að segja veit ég ekki hvernig ég komst þangað inn en ég stíg fæti mínum varlega niður á gult glansandi gólfið. Ég hef á tilfinningunni að það sé hált. Svo lyfti ég höfði og horfi á prestynjuna sem situr eins og stytta á steinstalli sínum. Hún sér mig ekki. Hún horfir inn í sig, er einhvers staðar langt í burtu. Ég skynja djúpa hryggð í fasi hennar og finn að ég er sjálf gripin djúpri sorg. Það koma tár í augu mín, ég finn þrengsli fyrir brjóstinu. Athygli mín beinist að svörtu hári hennar. Hún er með sama háralit og systir mín. Ég dvel við sorg mína, mér er þungt um andardrátt, hjartað slær ört. Ég rétti út höndina og snerti ermina á kirtlinum hennar með fingurgómunum. Hún er blaut, og ég átta mig á hve kalt og rakt er hérna inni. Það streymir gufa úr vitum mínum þegar ég anda. Í bakgrunni heyri ég gjálfur í vatni.

  Hikandi þoka ég mér vinstra megin við hana, hjartað berst áfram ákaft í brjósti mér, og ég beini athyglinni að tjaldinu á bak við hana. Ég sé að það er slæða, fíngerð eins og kóngulóarvefur sem vart má greina að bærist í kyrrðinni. Ég snerti hana með fingurgómunum, finn hve loftkennd hún er. Angan af þroskuðum ávöxtum svífur fyrir vitum mér... Skyndilega lifnar hún við, prestynjan. Hún rís á fætur, fer hinum megin við steinstallann, stingur hendinni í gegnum slæðuna og les granatepli af trénu. Hún snýr sér að mér með bros á vör, bítur í ávöxtinn og býður mér að gera hið sama. Ég finn súrsæt fræin á tungunni, ramman safann. Svo legg ég ávöxtinn á steinaltarið. Við horfum brosandi hvor á aðra. "Komdu aftur!" les ég úr svip hennar þegar ég býst til að fara. Ég veit að það mun ég gera. Mér er létt um hjartarætur, langar mest til að dansa eftir gulu gólfinu. Ég sný mér við og dreg tjaldið fyrir. Og ég er aftur stödd í kyrrlátri og bjartri setustofunni minni.

  Þegar ég hugsaði til baka til samfunda minna við æðstu prestynjuna, fann ég að það sem hafði sterkust áhrif á mig var sorgin sem ég hafði orðið vitni að og skynjaði í hverri frumu líkama míns. Sorgin og hráblautur kuldinn. Sorg hennar var sorg mín. Ég ímynda mér að skilaboð hennar til mín séu samkennd. Ímynda mér að djúp sorg hennar stafi af því hve vanrækt hún er, ekki bara í mér heldur í samfélagsvitundinni almennt. Orkan sem streymir frá æðstu prestynjunni er meginið, lífssafinn sem nærir allt sem lifir og vekur okkur til vitundar um að við bergjum öll af sömu uppsprettu, að við erum systur og bræður með rætur í náttúrunni sem er frummóðir okkar. Þegar litið er til sundrungarinnar sem ríkir meðal barna hennar, þarf engan að undra þótt æðsta prestynja sé sorgmædd.


  Persefóna  The Mythic Tarot

  Granateplið, fræ þess og safi hafa orðið tákn fyrir sköp konunnar og blóð sem tengist hvoru tveggja lífi og dauða, hringrás tilverunnar í sinni víðustu mynd. Persefóna hin gríska, dóttir korngyðjunnar Demeter, var að tína blóm á engi þegar Hades, guð dauðraheimsins, rændi henni og hafði hana með sér í undirheima. Í sorg sinni fór Demeter í verkfall og jörðin lagðist í vetrarauðn. Þar kom að Seifur skipaði Hadesi að skila Persefónu. En þá kom upp úr dúrnum að Persefóna hafði þegið nokkur fræ úr granatepli af Hadesi og var af þeim sökum nauðbeygð til að dvelja hjá honum einn þriðja hluta ársins. Hina tvo þriðju fékk hún að vera ofanjarðar hjá móður sinni. Endurkoma Persefónu varð táknmynd fyrir vorkomuna og fyrsta kornið sem gægist úr jörðu. Í fyrstu var Persefóna ósátt við hlutskipti sitt en þegar fram liðu stundir fékk hún ást á Hadesi og gerðist þá drottning undirheima og leiðsögumaður látinna um vegleysur þeirra.

  "Komdu aftur!" sagði svipur æðstu prestynjunnar. Tarot hefur veitt mér leiðsögn um vegleysur minna innri lenda. Ég lít svo á að táknmyndirnar sem prýða þessa "bók allrar þekkingar" séu runnar úr viskulind æðstu prestynjunnar og manviti. Ég hef þegið af henni granateplafræ og ég mun koma aftur af fúsum og frjálsum vilja. Fyrir mér er tarot magnþrungið tæki til sjálfsþekkingar sem jafnframt ýtir undir sköpunargleði og leik.  Robin Wood
  Tarot


  The Gill
  Tarot deck

  Golden Tarot

  Walking the
  Wild Spirit
  Tarot


  Að ofan gefur að líta dæmi um æðstu prestynju úr nokkrum spilastokkum sem hægt er að skoða nánar á netinu (sjá tengla hér að neðan). Ennfremur bendi ég á einkar áhugaverðar slóðir lærimeistara minna í tarot. Sjá einnig hvað Carl Jung segir um erkitýpur á vefsíðu ARAS:

 • ARAS: Archive for Research in Archetypal Symbolism
 • Rachel Pollack
 • The Tarot School
 • The Mythic Tarot
 • U.S. Games Systems, Inc.
 • Llewellyn